Frægustu og bestu pöbbarnir í Dublin

Deila

- Auglýsing -

Eiginlega má segja að eitt helsta kennileiti Dublinar sé pöbbar enda eru þeir æði margir og setja skemmtilegan svip á borgina, hver öðrum líflegri.

Írar eru afar lifandi og skemmtilegir og óhætt að segja að tónlistin sé þeim í blóð borin sem sést einmitt vel á mörgum pöbbum þar sem þeir leika af fingrum fram fyrir gesti og gangandi. En þegar úrvalið er mikið getur reynst erfitt að velja rétta pöbbinn og því bendi ég hér á nokkra af þeim þekktari og að margra mati bestu.

The Brazen Head

Þessi pöbb gefur sig út fyrir að vera elsti pöbb Írlands en hann getur rakið sögu sína allt til ársins 1198, þó er ekki vitað hvaða hluti af pöbbnum er frá þessum tíma. Það er gaman að koma í drykk á The Brazen Head þar sem veggirnir eru þaktir gömlum myndum, blöðum og auglýsingum sem setur skemmtilegan svip á staðinn. Hægt er að fá ekta pöbbamat og tilvalið að gæða sér á Guinness-pottrétti sem auðvitað verður að drekka Guinness-mjöðinn með en einnig er írski kræklingurinn þeirra góður.

Vefsíða: brazenhead.com

The Cobblestone

Þessi pöbb sem er svolítið út úr er afar skemmtilegur og alveg þess virði að taka á sig krók og splæsa í leigubíl. Pöbbinn er vinsæll meðal heimamanna og hann er sérstaklega þekktur fyrir ekta írska tónlist þar sem fótum er stappað, höndum oft klappað og jafnvel brestur á með dansi. Kannski lýsa einkunnarorð staðarins best stemningunni en þau eru „A drinking pub with a music problem“, einfalda þýðingin væri þá eitthvað á þessa leið, pöbb með tónlistarvandamál.

Vefsíða: cobblestonepub.ie

John Kavanagh – The Gravediggers

Ekki er hægt að fjalla um pöbba í Dublin nema að nefna þennan en hann er ekta af gamla skólanum og sumir segja að á honum sé besti Guinnessinn í bænum. Pöbbinn sem er vinsæll meðal heimamanna á sér langa sögu en hann var stofnaður 1833 og hefur verið í sömu fjölskyldu alla tíð síðan og þykir merkilegur fyrir þær sakir og líklegt er að einhver úr Kavanaghs-fjölskyldunni komi til með að hella í glasið þitt. Nafnið The Gravediggers kemur vegna þess að pöbbinn er staðsettur við hliðina á kirkjugarði og um að gera að blanda geði við eigendur og heimamenn og láta þá segja sér sögur um pöbbinn.

Heimilisfang: 1 Prospect Square, Glasnevin.

Long Hall

Þessi er með þeim frægari og vinsælli í Dublin en hann hefur verið starfræktur í yfir 250 ár. Pöbbinn sjálfur er skemmtilega í stíl frá Viktoríutímabilinu. Hann er innréttaður í dökkum gljáandi við, veggir og loft rauðmáluð og gólfteppið er fagurlega mynstrað. Þetta er dásamlegur staður sem virkilega gaman er að sitja á og sötra, tja, viskí myndi ég segja, því þeir bjóða upp á gríðarlegt úrval af þessum vinsæla drykk sem Írar kunna sannarlega að búa til. Þeir sem ekki treysta sér í viskídrykkjuna geta vissulega fengið góðan Guinness eða aðra bjóra.

Heimilisfang: 51 South Great Georges Street, Dublin City Centre.

Long Hall.

The Palace Bar

Pöbbarnir á Temple Bar-svæðinu eru fremur óáhugaverðir túristastaðir og fáir heimamenn sækja þangað. Þó er einn pöbb á þessu svæði sem Írar fara á og það er The Palace Bar en hann á nokkuð langa sögu eða allt frá 1823 og gaman er að fá sér drykk á þessum ágæta pöbb. Þarna eru Írar úr öllum stigum þjóðfélagsins og eitthvað er af túristum líka. Barinn er skemmtilega stúkaður af með milliveggjum þannig að hver og einn situr í einskonar hólfi. Þarna er gott úrval af handverksbjór fyrir þá sem vilja hvíla sig á Guinness. Ristuðu samlokurnar þeirra þykja afbragðsgóðar en þær eru vinsælar hjá Írum og hentugt snakk þegar líða tekur á kvöldið.

Vefsíða: thepalacebardublin.com

The Stag´s Head
Hér er enn einn pöbb sem er í miðbæ Dublinar en hann er í Viktoríustíl með steinda glugga, dökkar viðarinnréttingar og svo trónir hjartarhöfuð yfir barnum. The Stag´s Head er vinsæll og því getur stundum verið erfitt að fá borð, sérstaklega um helgar en stemningin þarna er oft skemmtileg. Pöbbinn er einungis í um fimm mínútna göngufæri frá Grafton Street og því tilvalið að skjóta sér þangað til að hvíla sig á verslunarrápi og svala þorstanum á ekta írskum pöbb eins og þeir gerast bestir.

Vefsíða: louisfitzgerald.com/stagshead

O’Donoghue’s

Hér er frábær pöbb sem enginn ferðalangur ætti að láta fram hjá sér fara en þar er lögð áhersla á hefðbundna írska tónlist eins og hún gerist best. Ég mæli með að fólk sem ætlar að upplifa þennan pöbb sé snemma í því þar sem hann er sérlega vinsæll. Á hverju kvöldi koma saman írskir tónlistarmenn til að spila saman á fiðlur, flautur og fleiri hljóðfæri. Gaman er frá því að segja að það var á þessum pöbb sem hljómsveitin The Dubliners byrjaði og meðlimir hennar koma enn saman á O´Donoghue´s til að spila.

Vefsíða: odonoghues.ie

Slattery

Ég ætla að enda á að segja ykkur frá góðum pöbb sem er norðanmegin við Liffey-ána, aðeins austan við göngugötuna Marry St. því þangað hef ég nokkrum sinnum skotið mér á milli verslunaranna og þarna eru fáir túristar en stemningin ekta írsk. Slattery er hefðbundinn pöbb þar sem hægt er að fá sér Guinness og ýmislegt annað góðgæti. Þeir bjóða upp á ekta írskan morgunmat og þetta er einn af mjög fáum pöbbum í landinu sem mega vera með opið allan daginn eða frá kl. 7 á morgnana.

Vefsíða: slatterys.bar

Ferðamáti: WOW air flýgur til Dublinar allt árið um kring. Verð frá 6.999 kr. aðra leið með sköttum.

Myndir / Úr safni

 

- Advertisement -

Athugasemdir