Þriðjudagur 19. mars, 2024
1.8 C
Reykjavik

Bláskel í stuttu máli

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bláskel er einnig þekkt undir heitunum krákuskel eða kræklingur. Vitað er að maðurinn hefur borðað bláskel í þúsundir ára.

Bláskel er sælindýr í fallegri svarblárri samlokuskel sem festir sig oft með spunaþráðum við steina og reipi. Elsta aðferðin við ræktun á bláskel eru staurar sem festir voru í grunnu sjávarvatni og þar óx kræklingurinn en víða er hann ræktaður á reipum sem hanga niður úr stórum flekum. Kræklingur er hluti af stórri ætt sælindýra og fyrirfinnast bæði í ferskvatni og sjávarvatni en þó er kræklingur sem kemur úr sjávarvatni notaður til manneldis þar sem hinn þykir ekki lystugur.

Belgar, Hollendingar og Frakkar borða mikið af bláskel og þar er hún oft borin fram elduð í soði með frönskum kartöflum og þekkist sem rétturinn moules frites. Einnig er bláskelin borin fram með góðu brauði sem notað er til að klára allt soðið. Hollendingar eru einnig þekktir fyrir að djúpsteikja bláskelina og selja sem skyndibita.

Margir veigra sér við að elda bláskel en sé ákveðnum reglum fylgt eftir við verkun og eldun þá er hún leikur einn. Bláskel er léttur og skemmtilegur sumarmatur og afar mikilvægt er að nostra svolítið við soðið sem skelfiskurinn er eldaður upp úr. Oft er hvítvín eða bjór notað í soðið og því betra að vera með gæðavín og bjór til að tryggja að soðið verði sem allra best.

Margar fiskbúðir selja ferska bláskel sem ræktuð er á Íslandi. Gott er að vera í sambandi við sína fiskbúð til að athuga hvenær bláskelin er keyrð út því best er að fá hana sem ferskasta og svo selst hún yfirleitt mjög hratt og því betra að vera undirbúinn frekar en að koma að tómu borðinu.

Áður en bláskelin er elduð þarf að verka hana. Gott er að nota lítinn bursta og skrúbba kræklingana undir rennandi köldu vatni til að losa þá við hreistur og önnur óhreinindi sem setjast utan á skeljarnar. Stundum finnast lítil skegg á skeljunum sem hægt er að tosa af með fingrunum eða skrapa af með litlum hníf.
Brotnum skeljum skal henda og ef bláskelin er opin skal banka henni ákveðið við eldhúsbekkinn og sjá hvort hún loki sér. Loki hún sér ekki er kræklingurinn líklegast dáinn og því best að fleygja skelinni.
Mjög mikilvægt er að láta bláskelina ekki liggja í bleyti þar sem þeir lifa í saltvatni og kafna í hreinu kranavatninu.

Þegar bláskelin er elduð þarf að nota góðan pott með loki því hún þarf að gufusjóða í soðinu í nokkrar mín. Gott er að taka pottinn og hrista hann til einu sinni til tvisvar í eldunarferlinu til að hann eldist jafnt. Ef potturinn er þungur er líka hægt að taka lokið af og hræra með trésleif í staðinn.
Kræklingurinn er tilbúinn þegar langflestar skeljarnar hafa opnast. Þær skeljar sem enn eru harðlokaðar er best að henda.

- Auglýsing -

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -