Bristol spennandi svæði fyrir sælkera

Deila

- Auglýsing -

Bristol er skemmtileg hafnarborg í Somerset-héraði í Suðvestur-Englandi. Þar búa rúmlega 440 þúsund manns en borgin er afslöppuð og þægileg yfirferðar og ekki spillir fyrir að verðlagið er svolítið hagstæðara en í London.

Hægt er að skoða veggjamyndir eftir hinn fræga Banksy og fleiri listamenn, fara í dýragarðinn, á sædýrasafnið, versla og skoða Brunel’s ss Great Britain sem er eitt elsta áætlunarskip sögunnar og margt, margt fleira.

Veitingastaðir, kaffihús og barir eru ekki af skornum skammti í Bristol, enda svæðið rómað fyrir gott hráefni. Mikið er um eðalosta en cheddar-osturinn er einmitt frá Somerset. Epli eru ræktuð í héraðinu og eplaafurðir því algegnar og góðar en þar ber helst að nefna epla-cider sem er eiginlega héraðsdrykkurinn. Bjór og öl er bruggað víða og einnig eru ginframleiðendur í Bristiol, Bramley & Gage og Psychopomp Micro Distillery. Somerset er stundum nefnt matarkista Bretlands því þar er aðgengi að fiski gott og loftslagið hentugt til allskyns ræktunar. Hér eru nokkrir góðir og áhugaverðir áfangastaðir fyrir ferðalanga og sælkera í Bristol.

Bristol

Matsölustaðir

Í Bristol er mikið úrval matsölustaða enda borgin sú næststærsta í Suður-Englandi, á eftir Lundúnum. Allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, allt frá ódýrum og einföldum mat á kaffihúsum og krám til fínni veitingastaða með Michelin-stjörnur.

Glassboat Restaurant

Glassboat er í raun fjótandi matsölustaður þar sem hann er staðsettur í vatnabáti niður við ána Avon, nánar tiltekið á Welsh Back. Þennan rómantíska stað heimsækja Bristolbúar þegar þeir fagna merkum áföngum í lífinu. Ég mæli eindregið með því að panta borð í tíma og biðjið um borð við glugga sem snýr að ánni. Matargerðin á Glassboat er skemmtileg blanda af frönskum og enskum straumum þar sem notað er úrvalshráefni. Vínlistinn er ekki af verri endanum þar sem eingöngu er boðið upp á vín frá Frakkandi. Á Glassboat er einnig hægt að fá morgunverð og hádegisverð.

Vefsíða: glassboat.co.uk

Pieminester

Ekki verður komist hjá því að nefna veitingastaðinn Pieminester sem, eins og nafnið gefur til kynna, býður upp á bökur. Staðurinn hefur hlotið verðlaun fyrir bökurnar sínar sem þykja með þeim betri í Bretlandi. Pieminester er vinsæll staður meðal yngri kynslóðarinnar, þar eru innréttingarnar fremur hráar og grófar, maturinn er borinn fram í emileruðum ílátum á grófum trébrettum og óhætt að segja að andrúmsloftið sé afslappað. Úrvalið af bökum er gott og hér fá bæði kjöt- og grænmetisætur eitthvað við sitt hæfi. Eftirréttirnir eru að sjálfsögðu líka bökur, eða öllu heldur ísbökur. Ég mæli eindregið með epla-cider til að skola bökunum niður, enda passar hann vel með. Héraðið er þekkt fyrir epla-cider sem er hægt að fá í mismunandi styrkleikum, ég mæli með Somerset Cider frá BURROW HILL sem er ósætur og skemmtilega rammur.

Vefsíða: www.pieminister.co.uk.

The River Grill

Þessi veitingastaður er á The Bristol Hotel niðri við Prince Street en hann snýr beint út að ánni. Gluggarnir ná alveg niður í gólf og því er útsýnið skemmtilegt og gaman að fylgjast með iðandi mannlífinu við ána. The River Grill er talið vera meðal bestu veitingastaðanna í Bristol, þar er stundum lifandi tónlist og stemningin er „elegant“. Matseðillinn miðast yfirleitt við árstíðabundið hráefni úr heimabyggð en þó er alltaf boðið upp á nautakjöt, frá West Country Beef, sem hefur verið látið standa í 28 daga. Ef valið á eftirréttinum verður ostabakkinn þá mæli ég með einum fyrir tvo þar sem hann er verulega vel útilátinn. Ég ráðlegg fólki að panta borð á The River Grill, sér í lagi um helgar.

Vefsíða: doylecollection.com/

The Ox

Þessi staður þykir með betri steikarstöðum í Bristol. The Ox er gríðarlega vinsæll, enda mikil stemning á staðnum sem er reyndar líka bar og því hægt að fá sér steik með góðum kokteil. Umhverfið er töff, allt dökkmálað og borð og stólar úr dökkum við. Lampar eru um allt og myndir og speglar prýða veggi. Þetta er staður fyrir alla alvörusælkera sem eru sólgnir í gæðasteik. Ég mæli með því að panta borð með góðum fyrirvara. www.theoxbristol.com

Michelin-staðir í Bristol

Í Bristol er að finna tvo veitingastaði með eina Michelin-stjörnu hvor. Casamia er annar en hann er á Lower Guinea Street. Þessi staður er rekinn af tveimur bræðrum að nafni Sanchez. Bræðurnir leggja áherslu á árstíðabundið hráefni og skipta því út matseðlinum a.m.k. fjórum sinnum á ári. Þetta er staður fyrir þá sem vilja njóta matargerðar í hæsta gæðaflokki. Hinn staðurinn, sem einnig er með eina Michelin-stjörnu, heitir Wilks Restaurant og er í Clifton-hverfinu. Staðurinn er nútímalegur og hlýlegur en afar afslappaður. Áherslurnar í matargerðinni eru á hráefni úr nærumhverfinu sem unnið er með á skapandi hátt. Stundum sýna listamenn handverk sitt á staðnum svo sköpun er þeim ofarlega í huga. Margir halda að staðir með Michelin-stjörnur séu brjálæðislega dýrir en bæði á Casamia og Wilks er hægt að fá rétti á sanngjörnu verði, sér í lagi í hádeginu. Ég mæli með því að panta borð á báða þessa staði.

Vefsíður: wilksrestaurant.co.uk, casamiarestaurant.co.uk

Barir

Mud Dock Café

Er skemmtilegur bar og matsölustaður með frábæru útsýni yfir ána Avon. Inni er allt í fremur hráum stíl og í loftinu hanga hjól því Mud Dock er einnig hjólreiðaverslun og verkstæði, svolítið skemmtileg blanda. Hér er því hægt að kaupa sér hjól og skella sér svo í gott hanastél til að fagna kaupunum! Mud Dock Café er staðsett á 40 The Grove, Bristol.

 

The Milk Thistle

Þessi bar er einn mest „inn“ barinn í Bristol og kannski ekki að furða. Barinn er í gömlu húsi upp á fjórar hæðir, vel falinn frá almenningi, bara lítil hurð sem þarf að banka á. Dökkir litir, djúpir leðurstólar, fallegt tréverk og steindir gluggar prýða þennan bar og ekki spillir úrvalið af spennandi drykkjum fyrir. Allt áhugafólk um drykki og góða stemningu í geggjuðu umhverfi ætti ekki að láta þennan stað fram hjá sér fara. Nauðsynlegt er að bóka borð.

Vefsíða: milkthistlebristol.com

Pöbbar á King Street

King Street er skemmtileg gata sem iðar af lífi og þá sérstaklega í kringum alla pöbbana og barina. Þarna er að finna nokkur skemmtileg brugghús, eins og King Street Brew House og The Famous Royal Navy Volunteer.

Clifton

White Lion Bar og Goram & Vincent

Clifton er hverfi í Bristol sem staðsett er uppi á hæðinni fyrir ofan miðbæinn og það tekur ekki nema fimm mínútur með bíl að fara þangað og er það vel ferðarinnar virði. Í Clifton er hin fræga hengibrú, sem er eitt helsta kennileiti Bristol, og þar eru litlar götur með fallegum búðum, dýragarður og einstaklega mörg falleg hús byggð í viktorískum og georgískum stíl. Þeir sem heimsækja Clifton ættu annaðhvort að fara á White Lion Bar eða Goram & Vincent til þess eins að sitja úti á veröndinni og horfa yfir hálsinn þar sem hengibrúin er. Þessir staðir eru báðir á Avon Gorge-hótelinu, annar er bar en hinn matsölustaður. Það er í raun sama á hvorn staðinn farið er, lykilatriðið er að fá að sitja úti í góðu veðri og njóta útsýnisins og það er aldrei að vita nema einn eða fleiri loftbelgir heiðri gesti með nærveru sinni.

Anna Cake Couture

Þetta pínulitla bakarí/kaffihús í Clifton, er dásamlegt í alla staði. Hægt að fá gott kaffi með ýmsu sætmeti, eins og makrónum og canelé. Kruðeríið hjá Önnu gleður ekki bara bragðlaukana heldur líka augað. Hægt er að fara á námskeið í kökugerð og skreytingum hjá Önnu.

Vefsíða: thisisanna.co.uk.

 Hótel

Mercure Bristol Holland House. Notalegt fjögurra stjörnu hótel með stórum herbergjum, smekklega innréttuðum. Hótelið er í u.þ.b. 5 mín. göngufæri frá ánni.

The Bristol Hotel, Prince Street. Fallegt fjögurra stjörnu hótel niður við ána þar sem mannlífið iðar og auðvelt er að finna matsölustaði, bari og kaffihús.

Vefsíða: doylecollection.com

B&B eða Bed and Breakfast er vinsælt í Bretlandi og skemmtileg tilbreyting frá venjulegri hótelgistingu. Þeir sem vilja vera í hinu gífurlega fallega og rólega Clifton-hverfi ættu að skoða B&B hjá Number Thirty Eight, það er dásamlegt.

Vefsíða: number38clifton.com

 

- Advertisement -

Athugasemdir