Chili con carne-franskar eru hreinasta lostæti

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Franskar eru klassískt og ómissandi meðlæti með mörgum mat en víða um heim að ýmislegt sett ofan á franskar kartöflur þannig að úr verði lítil máltíð. Hér er uppskrift chili con carne sem fer virkilega vel með heimagerðum frönskum kartöflum.

 

Þunnskornar chili con carne-franskar með sýrðum rjóma

fyrir 2-4

Hægt er að geyma þetta chili con carne í ísskáp í 2-3 daga og eiga til að setja til dæmis yfir pasta ef rétturinn fer ekki allur yfir frönskurnar.

1 msk. olía
1 laukur, fínt saxaður
1 rauð paprika, hreinsuð og skorin í litla bita
2 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir
400 g nautahakk
2 tsk. kummin
1 tsk. oreganó
½ tsk. cayenne-pipar, meira eftir smekk
400 g maukaðir tómatar í dós
400 g svartar baunir í dós, sigtaðar frá vökvanum og skolaðar undir köldu vatni
sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Hitið olíu í stórum, víðum potti og bætið við lauk og papriku. Eldið saman þar til grænmetið byrjar að mýkjast. Hrærið í af og til. Bætið saman við hvítlauk og nautahakki. Hrærið í hakkinu og brjótið það niður með stórri skeið. Bætið kummin, oreganó, 2 tsk. salti, 1 tsk. af svörtum pipar og cayenne-pipar saman við kjötið og eldið áfram í 1 mín.

Hellið maukuðum tómötum saman við kjötið og setjið því næst vatn í hálfa tómatdósina. Hellið vatninu ásamt svörtu baununum saman við kjötið. Lækkið undir pottinum og látið kjötið malla í 20-30 mín. Bragðbætið réttinn eftir smekk.

Þunnskornar franskar

2 stórar bökunarkartöflur
u.þ.b. 30 g maíssterkja, til að velta frönskunum upp úr
olía til að djúpsteikja
120 g rifinn cheddar-ostur eða annar rifinn ostur
4-5 msk. sýrður rjómi, hrærið upp í sýrða rjómanum áður en hann er settur á frönskurnar
½ hnefafylli niðurskorinn vorlaukur
Worcestershire-sósa, má sleppa
Sriracha-sósa, eða önnuð ósæt
chili-sósa, má sleppa
Tabasco-sósa, má sleppa

Afhýðið kartöflurnar og skerið hliðarnar til þannig að kartöflurnar verði kassalaga. Skerið kartöflurnar í sneiðar langsum og skerið sneiðaranar því næst í mjóar lengjur. Setjið frönskurnar í ískalt vatn í 5 mín. Það hjálpar til við að losa um sterkjuna í kartöflunum og kemur í veg fyrir að þær festist mikið saman þegar þær eru steiktar. Hitið djúpsteikingarpott með olíu eða hitið olíuna í stórum þykkbotna potti.

Olían ætti að vera 190°C þegar frönskurnar eru steiktar. Setjið maíssterkjuna í skál. Sigtið vatnið frá frönskunum og þerrið þær mjög vel. Veltið frönskunum upp úr maíssterkjunni og setjið því næst aftur í sigti til að hrista aukamaíssterkjuna frá þeim. Steikið frönskurnar í skömmtum. Passið að setja ekki of mikið í einu í pottinn, gott er að steikja hnefafylli af frönskum í einu.

Steikið frönskurnar í u.þ.b. 5 mín, eða þar til þær eru orðnar gullinbrúnar. Setjið þær á eldhúspappír og endurtakið ferlið með restina af frönskunum. Kryddið frönskurnar með salti. Setjið frönskurnar á stóran disk eða fat og dreifið chili yfir þær ásamt ostinum, sýrðum rjóma, niðurskornum vorlauk og sósum eftir smekk.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira