2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Cincinnati – gestrisin drottning

Cincinnati hefur upp á margt að bjóða.

Cincinnati er fimmtánda stærsta borg Bandaríkjanna og nær yfir tvö ríki, Ohio og Kentucky, en hún á líka landamæri að Indiana. Borgin er í mikilli efnahagsuppsveiflu og er með mestan hagvöxt í samanburði við aðra þéttbýliskjarna í Miðvesturríkjum Bandaríkjanna. Annað nafn hennar er „The Queen City“ sem heimamenn segja að sé vegna fallegrar og myndrænnar legu hennar en sagan segir einnig að fyrstu árin eftir stofnunina hafi hún vaxið og dafnað hratt og íbúarnir voru einstaklega stoltir af borginni og kölluðu hana því drottningaborgina. Cincinnati var formlega stofnuð árið 1788 og hét þá Losantiville sem landstjóra norðvestursvæðanna, Arthur St. Clair, mislíkaði og ákvað að gefa borginni nafnið Cincinnati, í höfuðið á rómverskum hermanni að nafni Cincinnatus. Flestir innflytjendurnir voru frá Austur-Evrópu, Þýskalandi og Írlandi og gætir þeirra áhrifa víða enn í dag.

Ohio-áin setur vissulega mikinn svip á umhverfið þegar hún liðast hægt og rólega undir gamlar og nýjar brýr sem skýjakljúfar tróna hátt yfir. Cincinnati-búar eru sérlaga almennilegir og gestrisnir og taka erlendum gestum opnum örmum. Gaman er að vera íslenskur ferðamaður í borginni sem vekur víða undrun, ég fékk mjög oft spurninguna „how do you like Cincinnati?“ sem fékk mig til að kíma út í annað. Borgin er nokkuð dreifð en auðvelt er að komast á milli staða, hvort sem er með sporvagni, neðanjarðarlest, leigubíl, Uber, Lyft, hjólandi eða á tveimur jafnfljótum. Þessi fjölbreytta og litríka borg hefur upp á margt að bjóða, hvað varðar sögu, söfn, tónleika, skemmtileg hverfi, verslun og afþreyingu svo ekki sé minnst á matarmenninguna, matsölustaðina og barina, en þeir eru ekki af verri endanum. Fyrir áhugasama er ítarleg grein um veitingastaði og bari í nýjasta tölublaði Gestgjafans. Árið 2018 var Cincinnati kosin einn af tíu áhugaverðustu áfangastöðunum í Bandaríkjunum, bæði af The New York Times og Lonely Planet og ég skil vel hvers vegna.

Áhugavert að gera í Cincinnati

Carew Tower-útsýnisturninn
Héðan er sennilega eitt besta útsýnið og því tilvalið að byrja ferðalagið um borgina hér til að fá góða tilfinningu fyrir umfangi og áttum hennar, útsýnispallurinn er á 49. hæð. Byggingunni lauk árið 1930 en hún var fyrirmynd Empire State-byggingarinnar í New York. Hægt er að horfa í allar áttir og yfir til Kentucky og Indiana en turninn er í Ohio. Turninn er á 41 W 5th Steet.

AUGLÝSING


Nýlistasafið – Contemporary Art Center
Grunnurinn að þessu skemmtilega safni var lagður árið 1939 þegar Edward M.M. Warburg, stofnandi ameríska ballettsins og NYC museum of Modern Art, lagði til við þrjár vinkonur sínar að þær byggju til listamiðstöð í stað þess að kvarta yfir því að það væru engin atvinnutækifæri fyrir listamenn í New York, sem þær og gerðu. Um leið og komið er inn á safnið tekur nýlistin skemmtilega á móti gestum en verkin á safninu breytast reglulega. Skemmtilegt og létt nýlistasafn sem er þægilegt yfirferðar en auðvelt er þó að gleyma sér t.d. í einu herbergjanna þar sem listin var fólgin í því að láta gesti ganga á mjög svo mjúku rýjateppi, því mýksta sem ég hef á stigið.
Vefsíða: contemporaryartscenter.org

American Sign Museum – skiltasafnið
Ljós og litadýrð er það sem kemur fyrst upp í hugann þegar komið er inn á þetta áhugaverða safn sem er algert konfekt fyrir augað. Hér er hægt að skoða skrautleg blikkandi skilti, falleg art deco-skilti og nútímaleg plastskilti og allt þar á milli. Skiltin á safninu varðveita og endurspegla ameríska skiltasögu sem er stór hluti af menningu þeirra og sögu. Sérlega skemmtilegt og öðruvísi safn.
https://www.americansignmuseum.org

National Underground Railroad Freedom Center
Þetta safn er staðsett við bakka Ohio-árinnar sem á tímum borgarastyrjaldarinnar var kölluð Jórdaná. Einstakt safn þar sem átakanleg þrælasaga Bandaríkjanna er rakin í máli og myndum á skýran hátt. Einnig er fjallað um réttindabaráttu svartra í gegnum tíðina í Bandaríkjunum sem er bæði löng og sorgleg. Ég var með góðan leiðsögumann sem ég mæli sannarlega með, þetta er safn sem snertir alla og enginn sem kemur til Cincinnati ætti að sleppa.
Vefsíða: hfreedomcenter.org

American Legacy-ferðir um Over-the-Rhine-söguhverfið
Sérlega skemmtilegt er að ganga um Over-the-Rhine-hverfið en þar er að finna yfir 1.100 gamlar byggingar frá því á síðustu og þarsíðustu öld en talið er að hvergi í heiminum sé að finna á sama svæði eins mikið af byggingum í ítölskum arkitektastíl. Fyrirtækið American Legacy sérhæfir sig í sögulegum gönguferðum um svæðið sem ég mæli með. Ég fór í Beer Tunnel Tour og skoðaði gamla neðanjarðarbruggverksmiðju og geymslu sem fannst nýlega en þess má geta að í kringum aldamótin þarsíðustu státaði Cincinnati af því að brugga og drekka mesta magn af bjór í Bandaríkjunum.
Vefsíða: americanlegacytours.com

Art Museum – listasafnið
Listasafnið í Cincinnati er staðsett í einstaklega fallegum garði í fallegu húsi. Þetta er eitt af elstu listasöfnum í Bandaríkjunum en það var stofnað árið 1881. Safnið hefur á þessum tæpu 140 árum sankað að sér yfir 65.000 einstökum og merkilegum verkum. Reglulega eru haldnar tímabundnar sýningar í safninu og gaman er frá því að segja að Ragnar Kjartansson var með sýningu/uppsetningu á vídeóverkinu The Visitors eða Gestirnir þegar ég átti leið um en sýningin var tekin niður á þjóðhátíðardegi okkar, 17. júní.
Vefsíða: cincinnatiartmuseum.org

Cincinnati Music Hall – tónlistarhúsið
Húsið er einstaklega fallegt að utan sem innan en það var byggt árið 1878 af arkitektinum Samuel Hannaford sem var frá Cincinnati. Árlega er haldin kórahátíð í tónlistarhúsinu, May Festival Chorus, og er elsta kórahátíð sem haldin er á norðurhveli jarðar að sögn heimamanna. Sinfóníuhljómsveit Cincinnati var stofnuð árið 1895 en hún hefur aðsetur í húsinu ásamt Ballettinum og Óperunni. Sýningarsalurinn er einstaklega fallegur og vel þess virði að athuga með miða áður en lagt er af stað að heiman.
Vefsíða: cincinnatiarts.org/music-hall

Majnstrasse Village-hverfið í Covington Kentucky
Þetta skemmtilega gamaldags hverfi var stofnað árið 1815 en þar bjuggu aðallega Írar og Þjóðverjar en hverfið hefur verið útnefnt sem söguleg þjóðargersemi. Í dag er þessi hluti Cincinnati afar vinsæll og lifandi. Sérstaklega er gaman að rölta um göturnar og fá sér að borða eða drekka en mikið er um skemmtilega matsölustaði, kaffihús, bari og svo eru þarna litlar og skemmtilegar búðir.

Tvær frægustu ísbúðir Cincinnati
Árið 1870 stofnuðu bavarísku innflytjendurnir og hjónin Louis og Regina Greater ísbúð sem fékk nafnið Greater´s. Frá upphafi hefur ísinn þeirra verið handgerður og búinn til samkvæmt „french pot style“ en þá er hann gerður úr einskonar eggjabúðingi í litlum skömmtum.
Vefsíða: graeters.com/french-pot-process-ice-cream

Aglamesis Bros-ísbúðin er líka vinsæl meðal heimamanna en hún var stofnuð af tveimur grískum bræðrum árið 1908 og hefur verið starfandi síðan. Hristingarnir þeirra eru sérlega vinsælir svo fátt eitt sé nefnt.
Vefsíða: aglamesis.com

Ferðamáti
WOW air flýgur til Cincinnati. Verð aðra leið með sköttum frá 12.999 kr.

Umsjón: Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir: Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir oh cincinnatiusa.com

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni