2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Dallas – þar sem stórir hlutir gerast

Dallas er borg sem kemur skemmtilega á óvart en flestir tengja hana við samnefnda þætti sem voru sýndir við miklar vinsældir á 9. áratug síðustu aldar. En borgin er svo miklu meira en Southfork-búgarðarðurinn sem var sögusvið þáttanna.

Dallas er í Texas-ríki sem er næststærsta ríkið í Bandaríkjunum en það liggur að sjó í suðri auk þess að eiga landamæri að Mexíkó sem það var reyndar lengi hluti af.

Það var ekki fyrr en árið 1845 sem Texas sameinaðist Bandaríkjunum og ferðalangar finna fljótt fyrir nálægðinni við Mexíkó, hvort sem er í mat, drykk eða menningu. Texas er land í sjálfu sér en það er svolítið stærra en Frakkland að flatarmáli og því augljóst að þangað er hægt að koma mörgum sinnum og sjá alltaf eitthvað nýtt.

Matargerðin er fjölbreytt en þó er kjöt í hávegum haft og steikurnar eru alvöru, grillaðar, reyktar, saltar og steiktar og þær eru stórar, mjög stórar. Einnig er svokölluð texmex-matargerð sem er sambland af mexíkóskri og Texas-matargerð.

Vingjarnlegt viðmót

AUGLÝSING


Heimamenn segja að Dallas sé borg sem kemur sífellt á óvart, hún fylli fólk einhverjum krafti þar sem stórir hlutir gerast eða eins og þeir segja „big things happen in Dallas“. Þegar ég keyri frá flugvellinum inn í borgina tek ég fyrst eftir því hversu hrein hún er og víða eru háhýsin skreytt með seríum og blikkandi ljósum sem gefur vísbendingu um einhvern kraft. Dallas er níunda stærsta borgin í Bandaríkjunum og einn merkasti og jafnframt sorglegasti atburður í sögu Bandaríkjanna gerðist einmitt þar en það var morðið á John F. Kennedy.

Margt áhugavert og skemmtilegt er hægt að gera í Dallas, fara á söfn, versla, borða, ganga um hin fjölbreyttu hverfi og drekka í sig menninguna og spjalla við heimamenn sem eru sérlega opnir og vingjarnlegir. Auðvelt er að komast til Dallas frá Íslandi þar sem American Airlines flýgur beint frá Keflavík frá og með 5. maí. til 26. október samkvæmt vef Isavia.

Þetta verða allir að gera sem koma til Dallas

Sixth floor museum – safn tileinkað John F. Kennedy

Einstaklega vel gert og áhugavert safn um Kennedy sem er staðsett á 6. hæð byggingarinnar þar sem Oswald er talinn hafa verið þegar hann skaut forsetann. Fyrsti hluti safnsins er tileinkaður ferli Kennedys og síðan er morðinu á forsetanum lýst í máli og myndum þar sem atburðum er skipað í tímaröð. Einnig er fjallað ítarlega um rannsóknina sem stóð í fleiri ár ásamt öllum þeim samsæriskenningum sem til eru um þetta sögufræga og sorglega morð sem snerti alla heimsbyggðina. Þetta er safn sem allir sem koma til Dallas ættu að fara á.

Vefsíða: jfk.org

Dallas Museum of Art – DMA

Einkar stórt og áhugavert safn fyrir listunnendur að koma á en safnið er í safnahverfinu hjá Klyde Warren Park. Listasafnið er tíunda stærsta listasafn í Bandaríkjunum en það á yfir 22.000 listaverk sem spanna fimm þúsund ára sögu. Einnig er mikið um sýningar, tónleika og fyrirlestra á safninu. Það kostar ekkert að heimsækja safnið.

Vefsíða: dma.org

Nasher Sculpture Center

Nasher-nýlistaskúlptúrsafnið er talið með þeim bestu í heimi. Bæði byggingin og verkin eru einkar falleg og áhugaverð. Þetta er áhugavert safn fyrir fagurkera með brennandi áhuga á listum.

Vefsíða: nashersculpturecenter.org

Petot Museum of Nature and Science

Lifandi og skemmtilegt náttúru- og vísindasafn sem sérstaklega gaman er að fara á með börnum. Þetta er lifandi safn þar sem gestum gefst tækifæri á að snerta og prófa ýmislegt furðulegt og áhugavert.

Vefsíða: perotmuseum.org

Reunion Tower – útsýnisturninn

Turninn er eitt af kennileitum borgarinnar. Efst á honum er einskonar kúla en inni í henni er hægt að horfa yfir borgina í 360 gráður og sennilega óhætt að segja að besta útsýnið sé einmitt úr Geo-Deck, eins og útsýnispallurinn er oftast nefndur. Kúlan er ljósum þakin og blikkar á kvöldin þegar myrkrið skellur á, heimsókn hingað er ferðarinnar virði.

Vefsíða: reuniontower.com

Dallas Arboretum and Botanical Gardens

Einkar fallegur garður rétt fyrir utan borgina sem gaman er að koma í og slappa af. Garðurinn var byggður í kringum tvo herragarða sem enn eru á svæðinu og hægt er að skoða. Þarna er gaman að taka myndir, fá sér að borða og skoða hinar fjölmörgu og fallegu plöntur sem prýða garðinn. Heimamenn sækja garðinn vel og margir láta taka af sér brúðarmyndir í fallegu umhverfinu.

Vefsíða: dallasarboretum.org

Dallas Farmers Market – bændamarkaður Dallas

Markaðurinn er vissulega svolítil andstæða við skýjakljúfa borgarinnar sem eru ekki langt undan en þegar komið er á markaðinn er svolítið eins og að vera kominn upp í sveit sem mér fannst skemmtilegt. Markaðurinn er bæði úti og inni, sá hluti sem er inni er meira í anda götumatarmarkaða og því tilvalið að fá sér léttan hádegisverð á markaðnum. Sá hluti sem er úti er undir skýli og kannski sem betur fer því hitinn getur orðið mikill en þar eru bændur, ræktendur og smáframleiðendur með sölubása.

Hægt er að fá mikið af grænmeti og ávöxtum úr héraðinu en einnig er talsvert af vörum, eins og hunangi, sultum, mauki, kökum og fleira. Eitt það besta sem ég fann á markaðnum voru chili-sósurnar frá Clowns on Fire sem ég mæli sérstaklega með, sennilega með betri chili-sósum sem ég hef fengið en þær eru logandi sterkar margar svo farið varlega í smakkið. Sósurnar hafa unnið til fjölda verðlauna og tilvalið að koma með nokkrar slíkar heim í farteskinu. Markaðurinn hefur verið starfandi frá árinu 1941 og er vel ferðarinnar virði.

Vefsíða: dallasfarmersmarket.org

Southfork-búgarðurinn í Dallas-þáttunum

Varla er hægt að skrifa um Dallas nema nefna samnefnda sjónvarpsþætti sem áttu miklum vinsældum að fagna á 9. áratug síðustu aldar og margir Íslendingar muna vel eftir enda tæmdust götur borgarinnar á meðan þættirnir voru í loftinu. Ég heimsótti þó ekki búgarðinn fræga Southfork sem var sögusvið þáttanna en það er þó vinsæll áfangastaður ferðamanna. Gott er að vita að um 40 mínútna akstur er frá Dallas að búgarðinum en einungis útisenurnar voru myndaðar þar og annað í kvikmyndaveri.

Vefsíða: southforkranch.com

 

Lestu meira

Annað áhugavert efni