2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Dauðahafið – lægsti punktur jarðar

Einstaklega áhugavert er að koma að Dauðahafinu en þangað tekur einungis um tvo tíma að keyra frá flugvellinum Ben Gurion í Tel Aviv.

Bað í Dauðhafinu, sem hér sést í fjarska, er ómissandi hluti af upplifuninni þegar dvalið er við hafið.

Talið er að borgin Sódóma sé falin einhvers staðar á svæðinu og margir sögulegir og merkir atburðir hafa gerst við þetta magnaða haf sem lítur þó meira út eins og vatn. Þegar horft er austur yfir hafið blasa Jórdaníufjöll tignarlega við og því tilvalið að heimsækja hinn forna sögustað Petru en þangað er rúmlega fjögurra tíma akstur, farið er í gegnum borgina Eilat sem er syðsta borg Ísraels.

Mikil auðn er í kringum Dauðahafið og fáar byggingar að sjá nema nokkur hótel en ferskvatnsskortur hrjáir svæðið.

Dauðahafið er merkilegt fyrir margra hluta sakir, þar er lægsti punktur jarðar en vatnið er 428 m fyrir neðan sjávarmál. Vatnið inniheldur u.þ.b. 34 prósent salt sem er allt að tíu sinnum meira en önnur höf og vísindamenn spá því að hafið verði horfið eftir u.þ.b. 100 ár ef fram heldur sem horfir. Hvorki plöntur né fiskar lifa í vatninu og það er einmitt þess vegna sem það er kallað Dauðahafið, þó finnast sveppaörverur og bakteríur í einhverjum mæli.

AUGLÝSING


Sagt er að Dauðahafið búi yfir lækningamætti og ýmsar snyrtivörur eru unnar úr hafinu sem þykja góðar og nærandi fyrir húðina. Allir sem gista við Dauðahafið ættu að leggja það á sig að vakna til að horfa á sólina koma upp en hún rís í austri á bak við Jórdaníufjöll sem gerir sólarupprásina einstaklega fallega og dulúðlega.

Áhugavert að gera við Dauðahafið:
Safaríferð í Judean-eyðimörkinni á Land Rover-jeppa með leiðsögn er einstaklega skemmtileg upplifun og áhugavert er að heyra söguna frá svæðinu og skoða sandinn eða það sem við fyrstu sýn er sandur en reynist svo vera salt. Látið hótelið hjálpa ykkur að bóka safaríferðina og munið eftir því að taka með ykkur hatt og klút fyrir vitin.

Safaríferð í Judean-eyðimörkinni.

Masada er einstakt í heimssögunni en þar efst á toppi fjalls sem er um 450 metrar að hæð byggði Heródes einstakt virki með nútímaþægindum, eins og líkamsræktarstöð, heitum pottum og nuddherbergjum. Virkið var notað sem síðasta vígi gyðinga gegn Rómverjum árið 73 e.Kr. sem endaði með einu stærsta hópsjálfsmorði sögunnar en talið er að tæplega 1000 gyðingar hafi svipt sig lífi. Fyrir áhugasama voru gerðir þættir um þessa atburði sem teknir voru á fjallinu árið 1981 með Peter O´Toole í aðalhlutverki.

Hægt er að fara gangandi upp á fjallið á göngustígum en flestir taka kláf upp á toppinn. Ég mæli með því að vera með leiðsögumanni, ef hægt er, og hér er gott að gefa sér góðan tíma því margt er að skoða og velta fyrir sér. Vefsiða: parks.org.il.

Bað í Dauðhafinu er ómissandi hluti af upplifuninni þegar dvalið er við hafið. Það er algerlega áreynslulaust að láta sig fljóta og einkar afslappandi. Nánast engar lífverur geta lifað í söltum sjónum svo ekki þarf að hafa áhyggjur af marglyttum eða kröbbum en þó eru nokkur atriði sem þarf að varast. Passið vel að fá ekki vatn í augun, það er afar sársaukafullt og getur valdið tímabundinni blindu. Ekki raka ykkur áður en farið er í vatnið og gætið vel að sárum, orðatiltækið að nudda salti í sárið er ekki úr lausu lofti gripið. Notið vaðskó því botninn er hrjúfur og fullur af saltkristöllum sem auðvelt er að skera sig á. Víða í kringum vatnið eru ótraustar holur (e. sinkhole) svo ekki er æskilegt að baða sig nema á merktum baðsvæðum. Uppgufunin í vatninu veitir náttúrulega sólarvörn svo erfitt er að brenna þrátt fyrir mikinn hita og sól en berið samt á ykkur sólarvörn til öryggis.

Kvöldverður í bedúinatjaldinu Taj Mahal. Setið er á púðum á gólfinu við lágt borð og þó að ég hafi farið í betra bedúinatjald, var maturinn einstaklega góður og hægt að fá gómsætt grillað kjöt og ýmsa ísraelska rétti. Finna má staðinn á Netinu með því að slá inn leitarorðin Taj Mahal Ein bokek.

Hægt er að fara gangandi upp á fjallið á göngustígum en flestir taka kláf upp á toppinn til að sjá Masada.

Ferðamáti
WOW air flýgur til Ísraels allt árið um kring. Verð aðra leið með sköttum er frá 16.999 kr. Flugvöllurinn heitir Ben Gurion, mikil öryggisgæsla er á vellinum og farþegar eru spurðir ítarlega út í dvöl sína þegar þeir yfirgefa landið. Ísrael er svokölluð útstöð þannig að farþegar eru teknir aftur í öryggisleit þegar þeir koma til Keflavíkur og því mæli ég með að fólk kaupi ekki vökva yfir 100 ml í fríhöfninni í Ísrael.

Lestu meira

Annað áhugavert efni