Matarmarkaður og áhugaverðir matsölustaðir

Detroit er borg á uppleið sem lendir æ oftar á listum yfir heita áfangastaði. Þetta kemur kannski ekki á óvart þar sem margir ferðalangar sækja í auknum mæli í svæði þar sem minna er af ferðamönnum og einhver ferskur andblær leikur um. Detroit hefur að geyma afar skemmtileg söfn og þar hefur verið gríðarlega mikil uppbygging undanfarin ár.

Það er eitthvað svalt við þessa borg og ef ég ætti að nota eitt orð til að lýsa henni þá væri það orðið „retro“ en hún er líka menningarleg og spennandi. Þeir sem vilja fræðast um fleira í Detroit geta skoðað þessar ferðagreinar: Detroit – seiðandi og svöl og Detroit – rokkuð og áhugaverð.

Eastern-matarmarkaðurinn

Einkar skemmtilegur og lifandi matarmarkaður sem enginn ferðalangur ætti að láta fram hjá sér fara en hann er stærsti matarmarkaður í Bandaríkjunum í fermetrum talið. Upphaflega var hann staðsettur á Cadillac-torgi og einungis var hægt að kaupa hey og timbur. Árið 1891 var markaðurinn svo færður þar sem hann stendur enn og nefndur því nafni sem hann ber í dag. Smám saman stækkaði hann og básar og fleiri rými voru reist og upp úr seinni heimsstyrjöldinni varð hann mikilvægur fyrir heildsölu matvæla.

AUGLÝSING


Í dag er hann einkar vinsæll meðal heimamanna og teygir anga sína víða. Mikið af iðnaðarhúsum í kring hýsa búðir, bari og veitingahús sem gaman er að koma á og njóta veiga eða matar. Sérlega skemmtilegt er að ganga um markaðinn því mörg húsanna eru fagurlega skreytt með litríku veggjakroti sem gefur markaðnum einstakt og skemmtilegt „retro“-útlit. Hér þarf að gefa sér góðan tíma og passið að markaðurinn er með ólíka opnunartíma eftir dögum og árstíðum, hægt er að nálgast þær upplýsingar á vefsíðu hans.

Vefsíða: easternmarket.org

Fjórir góðir matsölustaðir í Detroit

 The Apparatus Room

Einkar skemmtilegur staður sem er í gamalli slökkvistöð í viðskiptahverfinu, það tók fjögur ár að gera hann upp og heppnaðist mjög vel. Þarna er hægt að fá klassískan amerískan nútímamat en kokkurinn Thomas Lents notar árstíðabundið hráefni úr nærumhverfinu. Drykkjarseðillinn er einnig áhugaverður og gott úrval er af handverkskokteilum og bjórum. Einnig er hægt að hoppa inn og ná sér kaffi og með því.

Vefsíða: detroitfoundationhotel.com/apparatus-room

Wright & Co

Skemmtilegur og fallegur staður þar sem andrúmsloftið er mjög afslappað. Hátt er til lofts og hægt að sitja bæði við barinn eða á fallega vínrauðum bekkjum í frönskum brasserí-stíl. Matseðillinn er byggður upp á litlum nútímalegum amerískum réttum sem hægt er að sporðrenna með handverkskokteilum, úrvalsbjór eða víni.

Vefsíða: wrightdetroit.com

Lumen

Lumen var opnaður í apríl á þessu ári og er því með nýrri stöðum borgarinnar. Hann er staðsettur í hjarta Detroit við Beacon Park og sérlega gaman er að sitja úti í góðu veðri og horfa á lífið. Matargerðin er í brasserí-stíl og er skemmtilega fersk, bæði hvað varðar hráefni og samsetningu. Ég mæli sérstaklega með pretzel-réttinum og krabbakökunum. Þarna er gott úrval af kokteilum og bjór sem gaman er að dreypa á.

Vefsíða: lumendetroit.com

The Grille Room á The Detroit Club

Þessi staður er í sögufrægri byggingu, þar hefur hingað til verið starfræktur einkaklúbbur en nú nýverið var matsölustaðurinn opnaður fyrir almenningi þó svo að drjúgur hluti hússins sé enn einungis fyrir meðlimi. Umhverfið er í fremur þungum gömlum 19. aldar stíl, dökkur viður, plussáklæði og veggfóður, minnir svolítið á skoskt sveitasetur. Glóðarsteikt kjöt er það sem staðurinn leggur áherslu á og því hægt að fá virkilega bragðgóða steik. Athugið að hér þarf að vera snyrtilega klæddur.

Vefsíða: thedetroitclub.com

Ferðamáti

WOW air flýgur til Detroit allt árið um kring. Verð frá 12.999 kr. aðra leið með sköttum.

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni