2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Detroit – rokkuð og áhugaverð

Motown-tónlistarstefnan og bílar er sennilega það sem kemur fyrst upp í hugann þegar Detroit er nefnd á nafn og þarf kannski engan að undra þar sem borgin er oft sögð fæðingarborg bílsins og Motown-tónlistastefnan byrjaði einmitt þar í litlum bílskúr.

Mikil uppbygging hefur verið í þessari áhugaverðu bandarísku borg undanfarin ár en hún lýsti sig gjaldþrota árið 2013. Á hverjum degi er sagt að ný búð, bar eða veitingastaður opni og það er einmitt það sem er svo spennandi. Gott úrval er af matsölustöðum og börum í þessari rokkuðu bílaborg sem sælkerar ættu ekki að láta fram hjá sér fara. Hér bendum við á nokkra góða bari og brugghús og fjöllum um Eastern-markaðinn.

Detroit City Distillery

Skemmtilegt brugghús og bar sem er á Eastern-markaðnum en það var stofnað af átta æskuvinum sem horfðu til þess hvernig vínið var bruggað á bannárunum. Þeir framleiða nokkrar gerðir af handverksviskíi, gini og vodka og nota einungis besta fáanlega hráefni sem völ er á úr nærumhverfinu. Hægt er að bragða á víninu einu og sér eða í kokteil í smakkherberginu þeirra.

AUGLÝSING


Vefsíða: detroitcitydistillery.com

 The Royce Detroit

Á The Royce er virkilega gott úrval af vínum hvaðanæva að úr heiminum, sérlega áhugavert er að skoða hinar ýmsu flöskur sem prýða staðinn sem er fallegur og í svona léttum röffstíl. Gaman er að sitja við barinn eða uppi á svölunum og gæða sér á osta- og kjötbakka með góðu víni eða góðum kokteil.

Vefsíða: theroycedetroit.com

The Sugar House

Afar líflegur og skemmtilegur bar þar sem hægt er að fá mikið og gott úrval af kokteilum og áfengi. Hér er mikill metnaður lagður í kokteilagerðina og margir barþjónar bæjarins læra blöndunarfræðina (e. mixology) hjá þeim. Barinn er mjög hlýlegur og ekta amerískur, innréttaður með dökkum við og múrsteinsveggjum.

Vefsíða: sugarhousedetroit.com

Eastern Market Brewing & Co

Nýlegt handversksbrugghús sem var opnað seint á síðasta ári á Eastern-markaðnum eins og nafnið gefur til kynna. Nokkrar tegundir af bjór eru bruggaðar á staðnum sem hefur verið vinsæll frá opnun. Hægt er að fara í bjórsmökkun sem er í grófu og röff herbergi við hlið aðalsalarins. Mjög skemmtileg hipp og kúl stemning þarna og tilvalið að hoppa inn á milli þess sem verslað er á markaðnum.

Vefsíða: easternmarket.beer

The Candy Bar á Siren-hótelinu

Þetta er lítill og afar bleikur bar þar sem stór diskókúla hangir í loftinu við hlið risaljósakrónu sem trónir yfir barnum. Staðurinn er fyrir þá sem vilja láta mynda sig með fallegan drykk í hönd í töff umhverfi. Kokteilarnir eru áhugaverðir og bragðgóðir, ég mæli sérstaklega með kokteilnum The Naid fyrir þá sem vilja svolítið kókósbragð, sérlega góður. Siren-hótelið sem er í hinni sögufrægu Wurlitzer-byggingu, var opnað nú í vor en það er einkar skemmtilega hannað. Herbergin eru í nútímalegum stíl, fremur einföld með vísun í 6. áratuginn. Þegar ég gisti þar var einungis búið að opna The Candy Bar en til stendur að opna veitinga- og kaffihús sem lofar góðu.

Vefsíða: thesirenhotel.com

Ferðamáti:

WOW air flýgur til Detroit allan ársins hring. Verð frá 12.999 aðra leið með sköttum.

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni