Detroit – seiðandi og svöl

Deila

- Auglýsing -

Bandaríska borgin Detroit er einkar áhugaverð og kemur skemmtilega á óvart.

Margir yggla sig þó þegar borgina ber á góma og setja hana í samhengi við yfirgefin hús, niðurníðslu og fátækt en borgin lýsti sig gjaldþrota árið 2013 og er sú stærsta í Bandaríkjunum sem hefur neyðst til að gera slíkt. Síðan þá hefur leiðin bara legið upp á við hjá þessari sögufrægu fæðingarborg bílsins og Motown-tónlistarstefnunnar. Detroitbúar grínast með það sín á milli að mest notaða orðið í bænum sé „new“ eða nýtt enda eru hótel, veitingastaðir og verslanir opnuð á hverjum degi innan um byggingarkrana og yfirgefin hús sem bíða þess eins að verða tekin í gegn og það er einmitt þetta sem gefur borginni einhvern kraft og gerir hana einkar áhugaverða. Ef ég ætti að lýsa henni í mjög stuttu máli myndu orðin hipp og kúl sennilega gera það best.

Detroit er komið úr frönsku
Detroit er í Michigan-fylki og tilheyrir hinum svokölluðu Miðvesturríkjum Bandaríkjanna. Borgin dregur nafn sitt af ánni Detroit sem rennur með fram henni austanverðri en hinum megin er kanadíska borgin Windsor sem vel sést til. Detroit-borg var formlega stofnuð árið 1701 þegar Antoine de la Mothe Cadillac settist þar að. Borgarnafnið er dregið af mjóu sundi í ánni en détroit þýðir mjór á frönsku. Borgin hefur gengið í gegnum ýmislegt á þessum 319 árum og árið 1805 brann hún til dæmis til kaldra kola.

Mikið er um gömul falleg háhýsi og margt er hægt að gera í borginni, þar eru einkar skemmtileg söfn, fallegir garðar og blómlegt listalíf.

Henry Ford setti heiminn á hjól
Um miðja 19. öld hófst blómaskeið borgarinnar fyrir alvöru en landfræðileg lega Detroit var einkar hentug fyrir samgöngur og auðvelt var að koma þangað vörum á skipum. Detroit var því kjörinn staður fyrir ýmiskonar iðnframleiðslu en Henry Ford opnaði einmitt sína fyrstu verksmiðju þar árið 1904. Hann var brauðryðjandi á sviði bíla og var sá fyrsti til að setja á markaðinn ódýran bíl, Model T, sem almenningur hafði efni á að kaupa og breytti þannig framgangi sögunnar, stundum er sagt að Ford hafi sett heiminn á hjól. Iðnbyltingin var í hámarki og uppgangur mikill, fallegar byggingar risu víða um borgina og menningarlífið var líflegt, þetta var blómaskeið Detroit.

Detroit-kynþáttauppþotið 1967
Margt fólk frá Evrópu og Suðurríkjum Bandaríkjanna settist að, mikla vinnu var að hafa og því stækkaði borgin ört. Íbúarnir voru rétt í kringum 300.000 árið 1900 en árið 1950 þegar mest lét töldu þeir tæpar tvær milljónir. Fljótlega eftir heimstyrjöldina síðari fór að halla undan fæti, fleiri svæði og lönd framleiddu bíla og vinnuframboðið minnkaði. Árekstrar milli svartra og hvítra urðu algengari sem endaði með kynþáttauppþotinu 1967, Detroit Race Riot, sem stóð yfir í fimm daga og skildi 43 eftir í valnum og tæplega 1200 særðust.

Mikil uppbygging og kraftur eftir gjaldþrot
Þegar bílaframleiðslan minnkaði í Detroit fór fólk að flytja frá borginni sem gerði það að verkum að skattatekjur minnkuðu, atvinnuleysi jókst og eiturlyfjaneysla varð vandamál. Spilling í borgarstjórninni dró vandamálin á langinn þar til borgin lýsti sig gjaldþrota árið 2013 en þá voru íbúarnir í kringum 600.000. Upp frá því fór Detoit að ná sér á strik og er nú einstaklega spennandi heim að sækja. Mikið er um gömul falleg háhýsi og margt er hægt að gera í borginni, þar eru einkar skemmtileg söfn, fallegir garðar og blómlegt listalíf. Mikið er af skemmtilegum matsölustöðum og nokkur skemmtileg boutique-hótel hafa opnað dyr sínar undanfarið, lítið er um amerískar keðjur sem verður að teljast jákvætt. Í 6. tbl. Gestgjafans mun ég fjalla um veitingastaði og bari í Detroit fyrir áhugasama. Lestarkerfið er að hluta til ofanjarðar á einskonar braut sem er nokkrum metrum fyrir ofan götuna, þetta setur svip sinn á borgina sem kemur skemmtilega á óvart og ég mæli sannarlega með.

______________________________________________________________

Áhugaverð söfn tengd Henry Ford

Henry Ford Museum of Innovation
Einstaklega áhugavert og vel skipulagt safn sem kemur skemmtilega á óvart. Þarna er hægt að skoða hvernig Henry Ford byrjaði í bílabransanum og miklu meira því þarna eru nokkrir merkilegir hlutir sem snerta bandaríska sögu, eins og stóllinn sem Abraham Lincoln sat í þegar hann var skotinn og forsetabíll John F. Kennedy sem rúllaði eftir götum Dallas þegar honum var veitt banaskotið. Afar skemmtilegt safn bæði fyrir börn og fullorðna. Vefsíða: thehenryford.org.

Grennfield Village
Þetta útisafn er við hliðina á Henry Ford-safninu og er í raun hluti af því en það minnir um margt á Árbæjarsafnið. Grennfield-þorp er byggt út frá húsinu sem Henry Ford ólst upp í en þar eru líka fullt af öðrum gömlum húsum. Hægt er að ferðast um þetta litla þorp í hestvögnum eða á fornbílum og húsin eru öll opin almenningi. Hér er gott að gefa sér tíma og tilvalið að koma með nesti eða borða úti. Vefsíða: thehenryford.org/visit/greenfield-village.

The Piquette Plant
Ég held áfram að benda á staði tengda Ford. Þetta safn er í gamla verksmiðjuhúsinu hans þar sem hinn frægi bíll Model T var hannaður og framleiddur. Safnið var gert upp og opnað árið 2013, það er í nokkuð upprunalegu ástandi og hægt er að skoða skrifstofu Ford ásamt fjöldanum öllum af gömlum og fallegum bílum. Vefsíða: fordpiquetteavenueplant.org.

Edsel & Eleanor Ford house
Hér er enn eitt safnið tengt Ford-fjölskyldunni en það er þó mjög ólíkt hinum. Edsel var sonur Henry Ford en hann átti einungis eitt barn. Húsið létu Edsel og kona hans, Eleanor, byggja í evrópskum kastalastíl og sérlega gaman er að ganga um húsið sem gefur skemmtilega innsýn inn í líf bandarískrar ríkrar fjölskyldu á fyrrihluta 20. aldar. Í kringum húsið er stór og fallegur garður sem skemmtilegt er að rölta um í góðu veðri. Edsel lést þegar hann var einungis 49 ára og ekkja Edsels bjó lengi ein í húsinu eftir það og ku hafa verið einkar góð við allt sitt starfsfólk, ég skoðaði húsið með góðum leiðsögumanni sem gæddi heimsóknina lífi. Vefsíða: fordhouse.org.

 

Texti og myndir / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Aðalmynd: Mynd Vito Palmisano

 

- Advertisement -

Athugasemdir