Þessi réttur er einfaldur og fremur fljótlegt að útbúa. Fullkominn í veisluna eða bara sem lítil máltíð á góðum degi.
Ef kjúklingabitar eru í boði á hlaðborði er mikilvægt að muna eftir að hafa nóg af servíettum, sérstaklega ef um vængi er að ræða. Einnig er gott að hafa bitana sjálfa ekki of sterka séu þeir notaðir á hlaðborð þar sem ekki allir borða sterkan mat, betra er að bera sterkar sósur fram með þannig að hver og einn geti ráðið styrkleikanum.
Paprikuvængir
u.þ.b. 16 stk.
3 msk. smjör
u.þ.b. 60 g grillaðar paprikur,
saxaðar fínt
2 msk. púðursykur
3 hvítlauksgeirar, rifnir fínt
1 msk. laukduft
1 tsk. chiliduft
2 tsk. reykt paprikuduft
gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar
u.þ.b. 1 kg kjúklingavængir
Bræðið smjör í potti þar til það hefur brúnast lítillega, setjið þá grillaða papriku, púðursykur, hvítlauk og allt krydd saman við og bragðbætið með salti og pipar. Blandið þessu saman við vængina og látið þá marinerast í a.m.k. klst. gjarnan lengur. Hitið ofn í 200°C. Raðið vængjunum á ofnplötu og eldið vængina í u.þ.b. 40 mín.
Berið fram með paprikusósunni.
Paprikusósa
u.þ.b. 80 g grillaðar paprikur, olían
sigtuð vel af
100 g rjómaostur
u.þ.b. ½ dl sýrður rjómi
1 msk. paprikuduft
gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar
Setjið allt saman í matvinnsluvél og maukið vel saman þannig að sósan sé silkimjúk. Bragðbætið með salti og pipar eftir smekk.
Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir