2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Edinborg – skemmtilega skuggaleg

Edinborg er með fallegri borgum í Bretlandi og þá sérstaklega gamli hlutinn sem er eins og mynd í skuggalegri ævintýrabók frá miðöldum.

Á hverju götuhorni eru pöbbar, veitingastaðir og kaffihús sem gaman er að sitja á og hlusta á Skota í köflóttu pilsi spila sekkjarpíputónlist.

Edinborgarkastalinn gnæfir yfir borgina sem er hæðótt með mörgum grænum svæðum sem eykur enn á fegurðina, sérstaklega á sumrin. Edinborg er höfuðborg Skotlands og þar búa um fjögur hundruð og fimmtíu þúsund manns en að auki heimsækja um þrjár milljónir ferðamanna borgina ár hvert. Þótt Edinborg sé kannski ekki nein stórborg þá iðar hún af mannlífi og menningin er lifandi og áhugaverð.

Á hverju götuhorni eru pöbbar, veitingastaðir og kaffihús sem gaman er að sitja á og hlusta á Skota í köflóttu pilsi spila sekkjarpíputónlist. Í gömlu borginni er sérlega gaman að þræða götur og þröng sund eða svokölluð „close“ en þau liggja í báðar áttir út frá götunni The Royal Mile sem liggur að Edinborgarkastala. Hægt er að laumast inn í dularfulla kirkjugarða og ganga niður stíga og tröppur sem virðast leiða vegfarendur á vit ævintýra í undirheimum! Undir gamla hluta Edinborgar eru enn nokkrar gamlar götur sem hægt er að heimsækja með leiðsögn. Oft er talað um borgina undir borginni og hún er sannarlega athyglisverð og margar draugasögur sem áhugavert er að heyra en mikið ku vera af afturgöngum á svæðinu.

Þessi dulmagnaða borg býður líka upp á ævintýri þegar kemur að veitingastöðum og krám en mikið er um góða og spennandi staði víða í borginni. Hægt er að þræða skemmtilega pöbba og bari þar sem boðið er upp á úrval af viskíi en Skotar eru einmitt sérfræðingar í því. Gin er einnig framleitt í borginni sem og á öðrum stöðum í Skotlandi. Hægt er að borða góðan mat fyrir vægt verð en einnig er mögulegt að fara fínt út að borða á hágæðastöðum með Michelin-stjörnu og allt þar á milli. Eins og ávallt í ferðagreinum Gestgjafans þá mæli ég með því að fólk skipuleggi veitingahúsaheimsóknir sínar að einhverju leyti áður en farið er að heiman og bóki borð fyrir fram þar sem Edinborgarbúar fara helst út að borða um helgar og því erfitt að fá borð á vinsælu og góðum stöðunum. Eitt er víst að Edinborg er í seilingar fjarlægð frá Íslandi og bæði einfalt og ódýrt að skreppa þangað enda frábær borg til að fara í stutta helgarferð. Verðlagið á gistingu er almennt séð gott miðað við gæði og það sama má segja um verð á mat og drykk í borginni sem við eigum sannarlega eftir að fjalla um aftur á síðum Gestgjafans enda af nægu að taka. Dvöl í Edinborg nærir bæði líkama og sál!

AUGLÝSING


____________________________________________________________

Áhugaverðir staðir að heimsækja

The Royal Yacht Britannia
Þeir sem hafa horft á þættina The Queen ættu ekki að láta þetta skemmtilega konunglega skip fram hjá sér fara. Margir konungbornir hafa siglt um höfin í Britannia sem lét úr höfn fyrst árið 1953 og þjónaði bresku konugsfjölskyldunni til ársins 1997 þegar því var lagt við höfnina í Leith í Edinborg og gert að safni. Það tekur um tvo tíma að fara í gegnum skipið með hljóðleiðsögn „audio guide“ sem er hverrar mínútu virði. Skipið er einstaklega fallegt bæði að utan sem innan í látlausum art deco-stíl. Margir þjóðhöfðingjar hafa siglt með skipinu og Diana og Karl voru á því í brúðkaupsferðinni sinni. Britannia er með fullbúna skurðstofu, veislueldhús, þvottahús, pósthús og gistirými fyrir hundruð manns enda var skipið hannað þannig að hægt væri að nota það sem sjúkraskip á stríðstímum en til þess kom þó aldrei. Inngangurinn að skipinu er í Ocean Terminal-verslunarmiðstöðinni en þar eru yfir 70 verslanir, veitingastaðir, barir og bíó. Vefsíða: royalyachtbritannia.co.uk.

The National Museum of Scotland – Þjóðminjasafn Skotlands
Einkar lifandi og fjölbreytt safn sem gaman er að upplifa með börnum því víða má skoða og þreifa á safnahlutum. Byggingin sem safnið er í er í viktoríustíl með fallegu hvítu járni og hátt er til lofts. Hér þarf að takmarka sig því safnið er sérlega stórt og því ekki ráðlegt að ætla sér að skoða allt í einni ferð. Hægt er að velja um allt á milli uppstoppaðra fíla til tísku og tækni. Vefsíða: nms.ac.uk.

Þeir sem hafa horft á þættina The Queen ættu ekki að láta þetta skemmtilega konunglega skip fram hjá sér fara.

Mary King´s Close
Hluti af gömlu Edinborg er neðanjarðar undir gamla borgarhlutanum og oft er talað um földu borgina sem sagt er að hafi lítið breyst frá 17. öld. Hægt er að skoða nokkrar götur í Mary King´s Close. Í heimsókninni er saga Mary rakin ásamt ýmsu öðru áhugaverðu og óhugnanlegu. Leiðsögumaður fer með gesti í litlum hópi undir borgina en þar er mikil saga og meðal annars var svarti dauði alræmdur í borginni sem sett var í sóttkví í langan tíma. Sérlega gaman er að fara undir borgina með unglingum eins og ég gerði. Athugið að betra er að panta tíma, ég mætti um hádegi að vetri til en fékk ekki tíma fyrr en um kl. 18.00. Vefsíða: realmarykingsclose.com.

Edinborgar kastali
Kastalinn í Edinborg er einkar tilkomumikill en hann stendur á einu af þremur kulnuðu eldfjöllunum í borginni sem heitir Castle Rock eða Kastalasteinn. Talið er að fólk hafi búið á hæðinni allt frá bronsöld eða um 800 fyrir Krist. Konunglegir kastalar hafa verið á hæðinni frá 12. öld. Þar hafa margir konungsbornir ríkt og borið beinin, fangar týnt lífi og jafnvel gestir verið myrtir. Sagan er gríðarleg og hér gildir að sjón er sögu ríkari og virkilega gaman að skoða kastalann og njóta útsýnisins yfir borgina. Ég mæli með því að byrja neðst á götunni The Royal Mile og ganga upp að kastalanum þar sem gamlar byggingar í anda Harry Potter skreyta leiðina sem er sérlega fögur og sveipuð dulúð.

Nokkrar staðreyndir um Britannia skipið
– Skipið var í notkun hennar hátignar í 44 ár og sigldi á þeim tíma til 600 hafna í 135 löndum.
– Fullmannað var skipið með níu skipstjórum, 220 sjómönnum, 20 yfirmönnum og þegar siglt var með meðlimi konungs-fjölskyldunnar í opinberum tilgangi var einnig um borð 26 manna hljómsveit.
– Hvergi annars staðar í heiminum er hægt að skoða svefnherbergi meðlima úr konungsfjölskyldunni.
– Þegar skipið var notað í opinberum heimsóknum var farangur drottningarinnar hvorki meira né minna en 5 tonn en hann innihélt allt frá skartgripum til Malvern-vatnsins sem hún notaði ávallt í teið sitt.
– Britannia var síðasta skipið þar sem sjómenn voru látnir sofa í hengirúmum en því var hætt árið 1973.

WOW air flýgur til Edinborgar allan ársins hring. Verð 4.999 kr. aðra leið með sköttum.

Myndir: Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir og Marketing Edinburgh

Lestu meira

Annað áhugavert efni