Einn frægasti grænmetisréttur í heimi

Deila

- Auglýsing -

Líklega er ratatouille einn þekktasti grænmetisréttur í heimi.

Ratatouille er dæmigerður franskur sveitaréttur sem sennilega flestir Frakkar hafa smakkað eða eldað oftar en einu sinni.

Þessa frægð má kannski einna helst rekja til hinnar margrómuðu teiknimyndar sem heitir í höfuðið á réttinum sjálfum, Ratatouille! Myndin fjallar um rottu í Parísarborg sem hefur einstaklega næma bragðlauka og er mikill sælkeri og „áhugarotta“ um matargerð. Rottan Remy fær tækifæri til að elda einn rétt fyrir kröfuharðan matargagnrýnanda á einum fínasta veitingastaðnum í París og heillar gagnrýnandann gjörsamlega upp úr skónum með því að töfra fram tilbrigði við ratatouille sem viðkomandi man vel eftir úr æsku. Rat á frönsku þýðir rotta og gaman er að sjá hvernig framleiðendur leika sér að nafninu með því að láta rottu, rat, elda rat-atouille.

Þó svo að margir þekki nafnið á réttinum í gengum myndina þá eru mun færri sem vita að hér er um einn frægast grænmetisrétt Frakka að ræða sem upprunninn er frá Suður-Frakklandi, nánar tiltekið frá Nice. Ratatouille er dæmigerður franskur sveitaréttur sem sennilega flestir Frakkar hafa smakkað eða eldað oftar en einu sinni.

Hefðbundinn ratatouille inniheldur ávallt lauk, hvítlauk, tómata, eggaldin, kúrbít, papriku, ólífuolíu og kryddjurtir. Misjafnt er þó hvaða kryddjurtir eru notaðar, það fer eftir smekk hvers og eins eða jafnvel árstíma.

Oft eiga fjölskyldur sína eigin ratatouille-uppskrift, eða í það minnsta sína útgáfu eða eldunaraðferð. Sumir vilja mauksjóða réttinn á meðan aðrir vilja hafa grænmetið fremur stökkt undir tönn og algegnt er að hlutföllin af grænmetinu séu misjöfn.

Þótt ratatouille sé einstaklega góður réttur á hefðbundinn máta, eins og Frakkar gera hann, þá er gaman að breyta til og leika sér svolítið með réttinn og bragðbæta hann og breyta með allskonar kryddi.

Ýmsar útgáfur af réttinum er að finna í gömlu nýlendulöndum Frakka, eins og Marokkó, Alsír og Túnis. Þar er til að mynda notað meira af kryddi eins og kummini, kóríander og chili. Í alsírsku útgáfunni er til dæmis meira notað af lauki og hvítlauki og þeir setja talsvert magn af þurrkaðri myntu út í réttinn og bera hann oft fram með eggjum en þá setja þeir eggin yfir og elda þau ofan á réttinum í lokin.

Þótt ratatouille sé einstaklega góður réttur á hefðbundinn máta, eins og Frakkar gera hann, þá er gaman að breyta til og leika sér svolítið með réttinn og bragðbæta hann og breyta með allskonar kryddi. Eldunin á réttinum er svolítið misjöfn en matarpúrítanar segja að það eigi að steikja hvert hráefni fyrir sig og síðan blanda öllu saman í lokin og elda þar til grænmetið er orðið mjúkt og maukað. Það gefur auga leið að þetta er svolítil vinna en engu að síður þess virði að prófa.

Uppskriftin hér er mín útgáfa af tataouille en hún er frá fjölskyldu í Vestur-Frakklandi þar sem ég var au pair fyrir mörgum árum. Bon appetit!

Ratatouille
fyrir 4
1 stór laukur
4 hvítlauksgeirar
6-8 msk. ólífuolía
6 tómatar
2 kúrbítar
1 eggaldin
1 rauðar paprikur
1 græn paprika
1 msk. herbes de Provence
2 greinar ferskt rósmarín
svartur nýmalaður pipar
gróft sjávarsalt

Misjafnt er hversu lengi rétturinn er eldaður.

Skerið allt hráefnið eins og á mynd. Hitið 4 msk. af olíu í góðum potti, helst pottjárnspotti. Steikið laukinn í u.þ.b. 3-4 mínútur eða þar til hann verður glær að lit, bætið þá hvítlauknum saman við og steikið áfram en gætið að því að laukurinn brenni ekki.
Restin af olíunni er notuð til að bæta í af og til enda drekkur hráefnið olíuna svolítið í sig. Setjið kúrbítinn saman við og látið malla í u.þ.b. 10 mínútur og hrærið í annað slagið.
Bætið eggaldinbitunum út í pottinn og látið malla í nokkrar mínútur. Látið tómatana saman við blönduna ásamt kryddjurtunum, kryddið vel með pipar og salti. Setjið lokið á og látið blönduna malla við meðalhita í u.þ.b. 20-35 mínútur, hrærið í af og til.
Þegar u.þ.b. 10-15 mínútur eru eftir af eldunartímanum eru paprikurnar settar saman við. Misjafnt er hversu lengi rétturinn er eldaður, sumir vilja hafa grænmetið fremur stökkt en aðrir vilja hafa það maukaðra.
Góð regla er að passa upp á að eggaldinið sé eldað í gegn því það er ekki gott hrátt, það þarf að ná að soga í sig bragðið í réttinum. Mikilvægt er að smakka réttinn til í lokin og krydda með pipar og salti.

Myndir / Hákon Davið björnsson

- Advertisement -

Athugasemdir