Einstök söfn í New York

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

New York er ein af þessum borgum sem hægt er að heimsækja aftur og aftur án þess að sjá eða upplifa það sama, möguleikarnir eru endalausir og ekki bara af matsölustöðum og börum heldur líka af söfnum og galleríum.

Hér eru einstaklega skemmtileg og áhugaverð söfn í borginni, sum hver stór og þekkt en önnur faldar perlur sem eru vel þess virði að skoða.

American Museum of Natural History – Ekki er hægt að fjalla um söfn í New York nema nefna þetta safn enda margir sem þekkja það í gegnum bíómyndirnar Night at the Museum. Safnið hefur að geyma ýmislegt sem tengist sögu Bandaríkjanna en einnig er þar að finna risaeðlubein, uppstoppuð dýr og risastóran loftstein, svo fátt eitt sé nefnt. Afar skemmtilegt er að fara á sýninguna Dark Universe sem er um himingeiminn. Safnið er vinsælt meðal skólahópa og því getur stundum verið hávaði og troðningur, en ávallt er best að mæta snemma.

Vefsíða: amnh.org.

Museum of the moving image – Sérlega lifandi og skemmtilegt poppmenningarsafn um allt sem viðkemur hreyfimyndum, kvikmyndum, sjónvarpi og stafrænum miðlum. Safnið er í gömlu kvikmyndaveri, Astoria Studios í Astoria-hverfinu í Queens, og þykir með þeim betri í heimunum og er ofarlega á listum yfir bestu söfn borgarinnar. Þarna eru bæði margir frægir gripir og fjölbreyttar sýningar.

Vefsíða: movingimage.us.

Tenement Museum – Frábært safn um líf innflytjenda á mismunandi tímum. Safnið sjálft er staðsett í hinu sögufræga Lower East Side-hverfi en það er hús upp á nokkrar hæðir þar sem búið er að skapa og endurgera húsakynni og umhverfi í mismunandi stíl eftir tímabilum. Einungis er hægt að skoða safnið með leiðsögumanni og einnig er boðið upp á ferðir um næsta nágrenni. Frábært safn sem gefur skemmtilega innsýn í líf fólksins sem settist að í New York.

Vefsíða: enement.org.

Frick Collection – Einstakt safn og stofnun sem listunnendur ættu ekki að láta fram hjá sér fara. Þeir sem hafa lesið ferðagreinar um Pittsburgh hér í Mannlífi muna eflaust eftir Frick þar en hann var umdeildur á sínum tíma. Hvað sem því líður þá er þetta safn sem er á Upper East Side vel ferðarinnar virði enda er þar að finna verk eftir ekki minni menn en Vermeer, Velazquez, Whistler, Turner, Van Dyck og Fragonard, svo fáir séu nefndir.

Vefsíða: frick.org.

Whitney Museum of American Art – Þetta safn er í hinu skemmtilega Meatpacking District á Manhattan. Um er að ræða afar áhugavert og lifandi safn með áherslu á ameríska nýlist á 20. og 21. öldinni. Þarna eru farandsýningar en einnig eru fastar sýningar með munum eftir listamennina Hopper, O´Keefe og Calder. Byggingin sjálf er hönnuð af Marcel Breueritself og er afar sérstök, ég mæli með góðum drykk á þaksvölunum.

Vefsíða: whitney.org.

The Metropolitan Muséum of Art – Stærsta listasafn í Bandaríkjunum og talið með þeim betri í heiminum en það er staðsett á Upper East Side í Central Park-garðinum. Einstaklega vel skipulagt og fallegt safn sem ég held mikið upp á. Þarna er hægt að skoða listir og listmuni frá örófi alda og  frá öllum heimshornum. Ég mæli með að listunnendur gefi sér góðan tíma í safnið. Mikið og gott úrval er af veitingastöðum og kaffihúsum í safninu og gaman að fara á Cantor Rooftop Garden Bar sem er með útsýni yfir garðinn en hann er ekki opinn allt árið. Hægt er að skoða veitingastaðina og opnunartíma þeirra á vefsíðunni þeirra undir Dining at the Met.

Vefsíða: metmuseum.org/visit/dining.

The Museum of Modern Art (Moma) – Sennilega er Moma með þeim frægari í New York og þangað er virkilega gaman að koma. Safnið hefur að geyma yfir 200.000 listaverk eftir þekkta og virta listamenn á borð við Matisse, Monet, Toulouse og Warhol, svo fátt eitt sé nefnt. Hægt er að skoða sum verkanna á vefsíðu safnsins.

Vefsíða: moma.org.

WOW air flýgur til New York allt árið um kring. Verð frá 12.999 kr. aðra leið með sköttum.

Myndir / Úr safni

 

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -