2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Eldum úr uppskerunni

Eitt það besta í heiminum er nýupptekið og brakandi ferskt grænmeti. Nýjar íslenskar kartöflur eru komnar í verslanir og mikið til af fersku góðu grænmeti á þessum árstíma. Við brugðum á leik í tilraunaeldhúsi Gestgjafans og lékum okkur með hráefnið, stíliseringuna og myndatökuna og útkoman bara alveg ljómandi en grænmetisflatbaka er góð leið til að nýta allt þetta góða grænmeti. Við hvetjum alla til að gerast tilraunafólk í eldhúsinu þegar kemur að því að útbúa rétti úr uppskerunni.

Grænmetisflatbaka
fyrir 4

Flatbökudeig
6 dl hveiti
2 ¾ tsk. lyftiduft
1 tsk. salt
1 msk. ólífuolía
2,5 dl vatn

Ofan á
200 g kartöflusmælki eða litlar kartöflur
4 hvítlauksgeirar, gróft saxaðir
1 appelsínugul eða rauð paprika, skorin í ræmur
1 gul paprika, skorin í ræmur
1 meðalstór nípa, skorin í þunnar sneiðar
½ rauðlaukur, skorinn gróft
1 kúrbítur, skorinn í sneiðar
1 msk. balsamikedik
120 ml ólífuolía
salt og pipar eftir smekk
200 g smurgeitaostur
hnefafylli fersk basilíka, söxuð

Hitið ofninn í 200°C. Setjið þurrefnin í hrærivélarskál með hnoðara. Setjið olíu og vatn saman við í skömmtum. Hrærið þar til deigið hættir að festast við hrærivélarskálina. Þetta tekur u.þ.b. 3-5 mín., setjið til hliðar. Setjið grænmetið í ofnskúffu og hellið olíu og balsamediki yfir og bragðbætið með salti og pipar. Bakið grænmetið í u.þ.b. 15-20 mín. eða þar til það er orðið stökkt og fallegt. Það má líka gera þetta í höndum. Mótið um 12 tommu botn úr deiginu Raðið grænmetinu fallega á það og setjið klípu af geitaostinum yfir hér og þar. Brettið upp á brúnir deigsins ef vill, ekki nauðsynlegt. Bakið í 15-20 mín. Takið úr ofninum og stráið basilíku yfir og berið fram. Gott að bera hvítlauksolíu með og aukabasilíku. Einnig má alveg grilla bökuna, þá er bakan einfaldlega sett á grillið á meðalhita og bakan grilluð í eitthvað styttri tíma eða um 7-10 mín. Best er að pensla grillteinanna áður en bakan er sett á þá.

AUGLÝSING


Mynd / Aldís Pálsdóttir

Lestu meira

Annað áhugavert efni