2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

„Er þetta brasilískt kaffi?“ og Joe svaraði: „Nei, þetta er írskt kaffi“ – Drekktu í þig söguna um drykkinn

Drykkur með sögu og skotheld uppskrift.

 

Sennilega er fátt jafn vetrarlegt og írskt kaffi enda hefur þessi ljúffengi drykkur verið vinsæll um víða veröld í alllangan tíma. Sagan segir að írskt kaffi hafi verið fundið upp á 5. áratugnum á Foynes-flugvellinum á Írlandi. Á flugvellinum var veitingastaður sem Joe Sheriddan nokkur stjórnaði og þangað komu margir bandarískir gestir sem þótti veðrið heldur hryssingslegt svo Joe útbjó drykk sem myndi gefa gestum yl í kroppinn.

Varð heimsfrægur í San Francisco

Nafnið varð til þegar bandarískur farþegi spurði: „Er þetta brasilískt kaffi?“ og Joe svaraði: „Nei, þetta er írskt kaffi.“ Það er aftur á móti blaðamaðurinn Stanton Delaplane sem á heiðurinn af alþjóðlegum vinsældum drykkjarins en þegar hann var eitt sinn staddur á Foynes smakkaði hann drykkinn og varð yfir sig hrifinn. Hann hafði samband við vin sinn, Jack Koeppler sem rak barinn Buena Vista í San Francisco, og bað hann að finna út úr uppskriftinni.

AUGLÝSING


Írar sjálfir segja að þeim hafi ekki gengið vel að endurskapa drykkinn en Joe var samt boðin vinna á barnum. Buena Vista er samt sem áður þekktur fyrir að hafa búið til „Irish Coffee“ og átt þátt í vinsældunum á alþjóðavettvangi. Í dag er drykkurinn enn gerður á staðnum með miklum tilþrifum og sjónarspil á að horfa en yfirleitt eru margir drykkir gerðir í einu, enda vinsælasti drykkurinn á barnum.

Írskt kaffi – uppskrift í eitt glas

Lykillinn að góðu írsku kaffi er að nota fyrsta flokkshráefni, gott írskt viskí, gæðakaffi ogalvörurjóma. Írskt viskí er eimað þrisvar.

1 glært hitaþolið glas
45 ml írskt viskí
2 tsk. dökkur púðursykur
kaffirjómi, léttþeyttur (alls ekki stífþeyta)
muldar kaffibaunir eða súkkulaðispænir til skrauts

Hellið upp á gott kaffi, t.d. í pressukönnu, best að nota nýmalaðar baunir. Setjið langa skeið í glasið og hellið soðnu vatni í, látið standa í u.þ.b. 1-2 mín., þetta er gert til að hita glasið þannig að drykkurinn haldist heitur sem lengst.

Hellið vatninu úr og látið viskíið í glasið ásamt sykrinum og hellið kaffinu saman við og hrærið, þar til sykurinn leysist upp. Einnig er hægt að leysa hann upp í soðnu vatni, þá er best að nota hlutföllin 1 af vatni á móti 2 af sykri. Látið léttþeytta rjómann yfir, best er að halda teskeið fyrir ofan glasið og hella rjómanum varlega yfir hana, þá leggst rjóminn fallega yfir drykkinn.

Skreytið með muldum kaffibaunum eða örlitlum súkkulaðispæni, ef vill.

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Lestu meira

Annað áhugavert efni