Fimmtudagur 18. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Fágæt en afar spennandi vín fyrir lengra komna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Loire-dalurinn í Frakklandi (eða Leirárdalur, eins og við höfum þýtt á íslensku, sem er einstaklega viðeigandi miðað við leirbakkana sem einkenna ána) liggur þvert um Mið-Frakkland, frá eldfjallagarðinum Massif Central að Atlantshafi fyrir sunnan Bretaníu-skagann. Sagt er að Loire-dalurinn sé „garður Frakklands“ svo milt er loftslagið, enda sérstaklega eftirsótt hérað af mörgum konungum Frakklands sem byggðu þar glæsilegar hallir þar sem garðlistin náði nýjum hæðum.

 

Loire-dalurinn býður einnig bestu skilyrðin fyrir vínrækt, annars vegar vegna loftslags, sem er temprað, og hins vegar vegna jarðvegs og bergmyndana, sem eru afar fjölbreyttar frá uppsprettu Loire til hafsins. Efst í dalnum eru vínin Sancerre og Pouilly Fumé framleidd úr sauvignon blanc- og pinot noir-þrúgum. Síðan taka við mörg undirhéruð sem eru lítt þekkt hér heima: Touraine, Vouvray, Chinon, Bourgueil, Saumur, Saumur Champigny og Anjou, þar sem chenin, cabernet franc og gamay skiptast á milli staða, og næst ósnum eru Muscadet-hvítvínin. Fjölbreytnin er mikil og fyrir stuttu var boðið upp á smökkun hér á landi, á vínum frá tveimur af þessum héruðum, Chinon og Pouilly Fuissé.

Loire-dalurinn býður einnig bestu skilyrðin fyrir vínrækt.

Í Chinon-vínin eru einungis notaðar tvær þrúgur, cabernet franc fyrir rauðvín og chenin fyrir hvítvín. Jarðvegurinn er að mestu kalksteinn og leir frá árfarveginum og bestu vínin þarf að geyma því þau eru lengi að opna sig. Cabernet franc er einstaklega elegant þrúga, með angan af fjólum og hindberjum, en vínin geta verið tannísk og geymast lengi. Í Chinon, sem og í Saumur, eru klettar í kalkberginu algengir og þar hefur maðurinn grafið sér húsakynni, sum enn notuð, en flestir hellar eru í dag notaðir sem „vínkjallarar“, þrátt fyrir að „rigni“ nokkuð oft inni. Chinon-vínin verður að framreiða við hitastig nær 16°C en 20°C til að njóta sem best: fágun þrúgunnar og hin viðkvæmu og rokgjörnu ilmefni koma þá best fram.

Ofar í dalnum, beint á móti Sancerre, er lítið hérað að nafni Pouilly Fumé, á hæðunum við Loire sem snúa í vestur, en jarðvegurinn þar er allt annar. Hér finnast tinnusteinar í öllum stærðum í leir frá ánni og kemur nafnið Pouilly Fumé („reyktur“) af þessum steinum. Sauvignon blanc er eina þrúgan í Pouilly Fumé og eru vínin steinefnarík, einmitt með keim af reyk, fíngerð, skörp og langlíf. Hér finnast líklega bestu sauvignon blanc-vínin í Frakklandi.

Það er alveg þess virði að smakka Chinon-vín frá Couly-Dutheil, besta framleiðanda Chinon, og Pouilly Fumé-vín frá Château de Tracy.

Texti / Dominique Plédel Jónsson og Eymar Plédel Jónsson

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -