Fetaostur verður Salatostur – „Varan er ennþá sú sama“

Deila

- Auglýsing -

Mjólkursamsölunni barst bréf frá MAST í síðustu viku varðandi notkun á nafninu Feta á nokkrum vörum fyrirtækisins. Í bréfinu er farið fram á skýringar á notkun MS á fyrrgreindum orðum, en MS hefur til þessa boðið upp á osta undir vörumerkjunum FETA-kubbar, Dala-FETA og Salat-FETA. Í bréfi MAST er vísað til þess að Feta-ostar frá Grikklandi njóti verndar sem skráð afurðarheiti í Grikklandi í skilningi ákvæða laga nr. 130/2014 um vernd afurðaheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu. Frá þessu var sagt á vef MS í síðustu viku,

Í framhaldi af bréfinu hófst MS strax handa við að gera breytingar á vörumerkjum og umbúðum umræddra vara. Þannig verður notkun á orðunum „Feti“ og „Feta“ hætt, og þess í stað notast við orðin salatostur, veisluostur og ostakubbur. MS mun því alfarið hætta notkun á umræddum orðum til auðkenningar á vörum sem fyrirtækið framleiðir og selur, í samræmi við gildandi lagaákvæði og erindi MAST.

„Varan er ennþá sú sama,“ sagði Sunna Gunnars Marteinsdóttir, upplýsingafulltrúi MS, í samtali við Rás 2 í morgun. Hún segir nýju umbúðirnar vera þær sömu á meðan heiti vörunnar breytist.

Af umhverfissjónarmiðum hefur MS óskað eftir því við MAST að nota eldri umbúðir eins og kostur er þar til þær klárast. Sunna reiknar því með að gömlu umbúðirnar verði áfram í umferð þar til sá lager klárast.

- Advertisement -

Athugasemdir