2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Fimm frábærir veitingastaðir

London er í uppáhaldi hjá mörgum og þar á meðal mér enda skrepp ég þangað reglulega, jafnvel tvisvar til þrisvar á ári. Í hverri ferð reyni ég að fara á nokkra nýja staði enda eru heimsóknir á góða matsölustaði oft aðal ástæða ferðarinnar.

Fátt veldur mér meiri vonbrigðum en vondur eða óspennandi, metnaðarlaus matur og þess vegna legg ég á mig mikla rannsóknarvinnu til að finna góða staði. Ef ábendingarnar eru gamlar er voðinn vís því staðir breytast hratt og ég treysti bara ákveðnum aðilum. Oft er erfitt að fá borð á vinsælum og góðum stöðum og því mikilvægt að panta borð í tíma, betra er að eiga pantað borð öll kvöldin og hádegin en afpanta ef sveigja þarf ferðaáætlunina. Hér bendi ég á nokkra staði sem ég hef farið á í borginni, þeir eru allir í dýrara lagi miðað við London nema Palomar en allir ferðarinnar virði.

Bob Bob Ricard – Soho.

Hægt er að hringja bjöllu þegar panta þarf meira kampavín.

Bob Bob Ricard – Soho
Þessi staður kom verulega á óvart! Hver hefði haldið að rússneskur-breskur matur væri góður? Það er upplifun að koma á Bob Bob Ricard, umhverfið er skrautlegt, velúrtjöld hanga yfir dyrum. Salurinn sem ég borðaði í var skrautlega en fallega innréttaður með gulli og kóngabláum lit og svo má ekki gleyma sérstakri bjöllu við hvert borð sem hægt er að hringja þegar panta þarf meira kampavín. Ég hélt takkanum inni á minni! Matargerðin er í anda notalegrar matargerðar eða „comfort food“ en með einstaklega fínlegum útfærslum. Á Bob Bob Ricard er aldrei að vita nema ein og ein stjarna reki inn höfuðið. Eins og með flesta vinsæla og góða staði þá er mikilvægt að panta borð í tíma. Vefsíða: bobbobricard.com

AUGLÝSING


Gymkhana – Mayfair
Gymkhana er indverskur veitingastaður í hinu fína Mayfair-hverfi, þetta er millifínn nútímalegur staður sem hefur verið vinsæll í nokkur ár. Staðurinn er oft á lista yfir bestu indversku staðina í London í hinum ýmsu matartímaritum. Staðurinn er dökkur með fremur lítilli lýsingu og minnir svolítið á nýlendustíl, það er afar notalegt að borða á Gymkhana. Ég mæli sérstaklega með forréttunum eins og kid-goat methi keema sem er staflað inn í einhverskonar smjörbollur, villisvín í vindaloo fyrir þá sem þora og risarækjur með rauðu paprikumauki. Hér er mikilvægt að panta borð jafnvel með mánaðarfyrirvara. Vefsíða: gymkhanalondon.com

Hutong – The Shard
Kínverskur staður sem hefur verið á listum yfir bestu kínversku staðina í borginni um nokkurt skeið. Matargerðin er ekki hefðbundin kínversk heldur svolítið framandi og öðruvísi. Ég mæli með að láta þjónana hjálpa til við að panta, einnig getur verið gott að velja svokallaðar ferðir til að fá að smakka sem mest. Hér er um upplifun að ræða þar sem staðurinn er á 33. hæð í háhýsinu Shard rétt hjá Borough-markaði. Útsýnið er ævintýralegt og innréttingarnar afar fallegar, ég mæli með að fólk mæti snemma og fái sér drykk á barnum sem snýr að öðrum hluta en staðurinn sjálfur. Pantið borð með góðum fyrirvara og biðjið um að fá að sitja við gluggann. Vefsíða: hutong.co.uk

Hutong – The Shard.

The Palomar – Soho (aðalmynd)
Lítill ísraelskur staður í Soho-hverfinu sem hefur hlotið fjölda viðurkenninga og komist í margar veitingahúsabækur. Allt sem ég borðaði á Palomar var einstaklega bragðgott. Staðurinn er eins og áður segir lítill og aðalstemningin er við barinn og þar borða flestir og horfa á kokkana og þjónana leika listir sínar. Þetta er ekta staður til að fara á í hádeginu, fá sér góðan drykk á undan og drekka í sig stemninguna. Risarækjurnar eru sérlega góðar, reykt kjöt, laden-smáréttir með tahini, polenta og margt fleira, í raun var allt gott þarna. Vinsæll staður og því mikilvægt að panta borð, ég mæli frekar með því að sitja við barinn. Vefsíða: thepalomar.co.uk

Parc Chinois.

Parc Chinois – Mayfair
Kínverskur staður sem afar skemmtilegt er að borða á ekki síður fyrir umhverfið og stemninguna sem er svolítið eins og í Shangai upp úr 1900. Parc Chinois er á tveimur hæðum og ég mæli með því að borða á efri hæðinni, á Salon de Chine, en fá sér frekar drykk á neðri hæðnni, á Club Chinois, en þar eru innréttingarnar ævintýralega gylltar með fjólubláum sætum og lömpum. Salon de Chine-salurinn er einskonar klúbbur þar sem er lifandi tónlist í miðjum salnum og setið er við lítil borð með rauðum lömpum út við veggina, ég hafði svolítið á tilfinningunni að fara aftur í tímann. Maturinn er fremur klassískur kínverskur matur í háum klassa og vínseðillinn er áhugaverður. Hér er nauðsynlegt að panta borð með góðum fyrirvara og mæta á réttum tíma því ef mætt er 15 mínútum of seint er borðið látið fara, einnig er farið fram á snyrtilegan klæðnað. Ekta staður til að halda upp á afmæli eða önnur tilefni! Vefsíða: parkchinois.com

Lestu meira

Annað áhugavert efni