2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Fimm góð ráð til að ná besta flugmiðaverðinu

Flug og flugverð skiptir okkur Íslendinga miklu máli þar sem sá ferðamáti er í raun eina leiðin úr landi, að Norrænu undanskilinni. Icelandair er okkar helsta tenging við umheiminn og flýgur til margra og fjölbreyttra áfangastaða en nokkuð mörg erlend félög fljúga einnig til landsins þó svo að umsvif og tíðni flugferða sé lítil í samanburði við íslenska félagið.

 

Flugverð getur sveiflast gríðarlega á milli daga, árstíða og áfangastaða og því er gott að kunna nokkur ráð til að ná sem besta verðinu.

1. Vertu sveigjanleg/ur á dögum. Föstudagar og mánudagar eru vinsælir ferðadagar þeirra sem ferðast vegna vinnu eða viðskipta og helgarnar eru oft bókaðar af venjulegum ferðamönnum. Þess vegna er oft hægt að ná betra verði á þriðjudögum, miðvikudögum og jafnvel fimmtudögum.

2. Sum tímabil eru dýrari en önnur. Tímabilin í kringum jól og páska eru dýr en einnig er algengt að fólk fari í stuttar ferðir í kringum vetrarfríin í skólum landsins svo gott er að skoða þau áður en ferðaárið er bókað. Þetta er auðvelt á Íslandi en getur verið aðeins erfiðara að finna út úr í öðrum löndum en vel gerlegt með svolítilli vinnu. Einnig geta stórar ráðstefnur, tónleikar og sýningar haft áhrif á flugverð.

AUGLÝSING


Sumarmánuðirnir eru oft dýrir en þó kemur á móti að fleiri flugfélög fljúga til landsins yfir sumartímann sem lækkar verðið. Stundum getur munað fleiri tugum þúsunda að fljúga með milliflugi til staða sem eru vinsælir og dýrir.

3. Skoðaðu flugvellina. Flugvellir eru misdýrir og oft er hægt að fá betra verð með því að velja flugvelli sem eru fjær borgunum. Hafið þó alltaf í huga hvað kostar að koma sér frá flugvellinum inn í borg, það getur verið dýrt stundum en ekki alltaf. Ef margir ferðast saman er oft ódýrara að bóka einkabíl til að sækja sig út á völl.

Þetta á t.d. við um London Heathrow-flugvöll. Val á flugvöllum getur líka skipt sköpum þegar farið er í tengiflug, þá skiptir ekki alltaf höfuðmáli hvar flogið er í gegn en töluverður verðmunur getur verð á sama áfangastað frá mismunandi löndum.

4. Safnaðu punktum. Ef mikið er ferðast á ári hverju er gott að skrá sig í vildarpunktasöfnun, t.d. hjá Icelandair, en íhugið einnig að skrá ykkur hjá fleiri flugfélögum ef þið ferðist t.d. oft með KLM eða British Airways. Punkta er tilvalið að nota til að lækka verð á flugmiðum og einnig til að láta uppfæra sig um farrými.

5. Notaðu sérhannaðar flugleitarsíður til að hjálpa þér að finna ódýrt flug. Dohop.is er íslensk flugleitar- og hótelsíða sem er nokkuð góð en athugið að öll verð sem birtast eru oftast án farangursheimildar og það á raunar við um flestar leitarsíður en fer þó einnig eftir flugfélögum. Gott er að nota Dohop til að finna flug úr landi en margar aðrar góðar síður eru til.

Ég ber oft verð og leiðir saman á milli leitarsíða og t.d. finnst mér gott að nota Skyscanner.com fyrir flug í Bandaríkjunum. Sumar síður sérhæfa sig í góðu verði og tilboðum eins og Travelzoo.com, Airfarewatchdog.com og svo mætti einnig nefna góðar leitarsíður eins og kayak.com og momondo.com.

Lestu meira

Annað áhugavert efni