2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Fjórir góðir veitingastaðir í Lundúnum

London er sennilega ein vinsælasta helgarferðaborgin sem Íslendingar heimsækja og skal engan furða því hún hefur upp á mikið að bjóða.

Flugið er líka stutt og hægt að fara út að morgni og fljúga heim að kvöldi þannig að helgin nýtist vel. Ástæðurnar fyrir vinsældum borgarinnar eru þó fleiri og mætti nefna góðar verslanir, söfn, leikhús, fótboltaleiki og síðast en ekki síst eru fáar borgir sem geta státað af eins miklu úrvali af góðum veitingastöðum hvort sem um götumat eða fína staði ræðir. Hægt er að finna marga staði sem bjóða upp á skemmtilega upplifun í gegnum innréttingar og andrúmsloft í bland við góðan mat. Vandamálið við matsölustaðina í London er að úrvalið er svo mikið að erfitt getur reynst að velja. Hér eru fjórir góðir og áhugaverðir staðir fyrir mataráhugafólk.

Hoppers er i Soho-hverfinu og oft er röð fyrir utan þar sem þeir taka yfirleitt ekki borðapantanir og staðurinn er lítill og vinsæll.

Hoppers
Þessi litli og litríki staður býður upp á götumat eða „street food“ frá Sri Lanka. Hægt er að fá karrírétti, grillaðan mat og það sem þeir eru fægir fyrir eru einskonar þunnar og stökkar pönnukökur með eggi og svo fylgir ýmislegt góðgæti með í litlum skálum. Hér er allt spennandi og nýtt og í raun erfitt að velja, „lamb kothu root“-rétturinn er vinsæll og svo eru rækjurnar og öndin góð. Láttu starfsfólkið hjálpa þér. Hoppers er i Soho-hverfinu og oft er röð fyrir utan þar sem þeir taka yfirleitt ekki borðapantanir og staðurinn er lítill og vinsæll. Hér gildir því að mæta snemma og vera þolinmóður. Vefsíða: hopperslondon.com.

Padella
Borough-markaðurinn er áfangastaður fyrir sælkera og þangað leggja margir leið sína. Þeir sem gera það um þessar mundir velta því kannski fyrir sér hvers vegna fólk stendur í röð fyrir utan veitingastað alla leið niður að Southwark Street. Jú það er vegna þess að þar er að finna einn besta ítalska staðinn í London. Hann er pínulítill á tveimur hæðum þar sem flísarnar eru í neðanjarðarlestastíl, borðin úr hvítum marmara og litirnir eru svartur, hvítur og gull. Eldhúsið er opið og hægt að sitja á háum stólum og horfa á kokkana hamast við að búa til pasta og baka súrdeigsbrauð. Þarna er ferskleikinn í fyrirrúmi og matargerðin er einföld og verðið sérlega sanngjarnt. Hér er hægt að mæla með öllum á matseðlinum sem breytist frá degi til dags en við mælum þó með einu og það er að fólk fái sér forrétt, aðalrétt og eftirrétt þar sem skammtarnir eru fremur litlir. Þó svo að allir réttirnir séu góðir þá verð ég að mæla sérstaklega með villisveppapastanu, prófið það ef það er á matseðlinum! Padella tekur ekki borðapantanir svo hér þarf að standa í röð, staðurinn opnar 12 á hádegi og því gott að mæta svolítið fyrr til að ná inn sem fyrst. Vefsíða: padella.co.

AUGLÝSING


Matargerðin á Grand Gymnasium er þýsk og miðevrópsk en matseðlarnir eru margir og mismunandi eftir tíma dags, morgunverðarmatseðill, brunch-seðill, hádegisseðill, eftirmiðdagsteseðill, kvöldverðarseðill og barseðill.

German Gymnasium (sjá mynd hér að ofan) 
Þessi staður er með þeim fallegri! Húsnæðið var upphaflega hannað sem leikfimisalur af Edward Gruning og var, eins og nafnið gefur til kynna, fyrsti leikfimisalur sinnar tegundar á Englandi. Húsnæðið var byggt árið 1865 og í því voru fyrstu Ólympíuleikarnir innandyra haldnir á Englandi árið 1866. German Gymnasium er í miðju King´s Cross-hverfinu en staðurinn er gríðarlega stór og þar er kaffihús, eða Grand Café eins og þeir kjósa að kalla það, fínn matsölustaður er á fyrstu hæðinnni og einnig eru tveir barir og verönd þar sem hægt er að sitja úti. Matargerðin er þýsk og miðevrópsk en matseðlarnir eru margir og mismunandi eftir tíma dags, morgunverðarmatseðill, brunch-seðill, hádegisseðill, eftirmiðdagsteseðill, kvöldverðarseðill og barseðill. Kaffihúsið er opið frá 8 alla virka daga. Réttir eins og snitsel, núðlur, gúllas, hamborgarar og allt þar á milli eru dæmi um rétti á the German Gymansium. Við mælum með því að panta borð á German Gymnasium en undirstrikum að hér mætir fólk þrátt fyrir allt ekki í íþróttafötum! Vefsíða: germangymnasium.com.

Á The Ivy Chelsea Garden er skemmtilegast að borða í garðhýsinu (terrace) sem er einkar fallegt, eins og staðurinn reyndar allur.

The Ivy Chelsea Garden – Chelsea
Afar vinsæll staður meðal íbúa hverfisins sem sækja mikið þangað en kúnnahópurinn kemur þó oft lengra að. Skemmtilegast er að borða í garðhýsinu (terrace) sem er einkar fallegt, eins og staðurinn reyndar allur. Fallega grænir litir í léttum art deco-stíl. Þarna eru stífaðir dúkar og silfurborðbúnaður svo gaman er að klæða sig upp á en samt er andrúmsloftið afslappað. Matargerðin er nútímabresk og hægt að fá mikið af léttum og ferskum réttum. Gaman er líka að fara á barinn og fá sér drykk, hvort sem borðað er eða ekki. Erfitt getur verið að fá borð svo, eins og áður, þá mæli ég með því að fólk panti með einhverjum fyrirvara.Vefsíða: theivychelseagarden.com.

WOW air flýgur þrisvar á dag til London allan ársins hring. Verð frá 4.999 kr. aðra leið með sköttum.

Texti: Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir: Úr safni

Lestu meira

Annað áhugavert efni