Fimm nýir og vinsælir veitingastaðir í London

Deila

- Auglýsing -

London er einn af mínum uppáhaldsáfangastöðum enda ótrúlega margt sem borgin hefur upp á að bjóða. Matsölustaðaflóran er sérlega fjölbreytt og spennandi og í hvert sinn sem ég kem hafa nýir og áhugaverðir veitingastaðir, barir eða kaffihús verið opnaðir og svo eru margir klassískir staðir sem halda alltaf sínu og gaman er að koma á aftur og aftur.

 

Mér finnst nauðsynlegt að blanda saman fjölbreyttum stöðum þegar ég skrepp í helgarferðir, ég borða spennandi götumat, fer á glæsileg brasserie og litla bistro-staði og bari og svo iðulega á einhverja flotta, fína og heita staði líka en þeir þurfa ekkert endilega að vera svo dýrir.

Vandamálið við London er að úrvalið er svo gríðarlega mikið að erfiðlega getur reynst að velja vel og þess vegna bendi ég hér á staði sem verðskulda allir athygli og ég hef reynslu af sjálf.

Góða ferð og njótið.

Isabel – Mayfair

Þessi staður var opnaður nýlega neðarlega í Mayfair-hverfinu og óhætt er að segja að hann sé hrein veisla fyrir augun. Einstaklega fallega innréttaður í hlýlegum og fremur dökkum art deco-stíl en þó með skemmtilegu nútímatvisti og sumt minnir á 6. áratuginn. Borðbúnaðurinn er eðal, þung silfurhnífapör og tauservíettur og á hverju borði er falleg lýsing en einnig er gaman að sitja á barnum sem setur mikinn svip á umhverfið, enda hjarta staðarins.

Einstaklega fallega innréttaður í hlýlegum og fremur dökkum art deco-stíl.

Ég mæli með því að byrja á kokteil, þeir eru góðir á staðnum og svo er matseðillinn settur saman úr ýmsum smáréttum með ítölskum og frönskum áhrifum. Það er upplifun að fara á Isabel og þó að maturinn sé mjög góður þá er umhverfið enn betra. Isabel er vinsæll um þessar mundir og því mikilvægt að panta borð í tíma.

Brasserie of light – Selfridges – Marylebone

Þessi staður sem er á fyrstu hæð vöruhússins Selfridges er einstakur að mörgu leyti en hann var opnaður fyrir nokkrum mánuðum. Í fyrsta lagi þá er þetta í fyrsta sinn í 109 ára sögu Selfridges sem veitingastaður verður opinn lengur en vöruhúsið sjálft en sérinngangur er frá Duke Street. Annað sem er einstakt er listaverkið eftir hinn einstaka breska listamann Damien Hirst, af glitrandi silfurlitaða Pegasus-hestinum sem kemur út um steyptan gráan vegg hátt fyrir ofan barinn og trónir yfir veitingasalnum.

Brasserie of light er einstakur staður.

Nafnið Brasserie of light endurspeglast svo sannarlega í art deco-hönnuninni þar sem speglar ráða ríkjum og meira að segja borðin eru úr speglum og þannig endurkastast ljós víða, eins og t.d. í drykkjunum á borðinu. Matargerðin er í ekta brasserie-stíl og þarna er hægt að fá létta rétti, fara í brunch og borða fínan kvöldverð, allt eftir því hvað hentar. Maturinn er fallega borinn fram á hvítu leirtaui og framsetningin er skemmtileg en nostrað er við hvert hráefni sem er sérlega ferskt. Ég mæli einnig með því að fá sér kokteil á barnum en hesturinn sést reyndar bara í ytri salnum. Einstakur staður sem ég á eftir að fara oftar á.

Harry´s bar – Marylebone

Hér er á ferðinni skemmtilegur og góður ítalskur staður sem opnaði nýlega á St Christopher´s place. Það eru sömu aðilar sem standa að þessum stað og reka alla hina vinsælu Ivy-staði sem ég hef skrifað um en Harry´s ber þess glöggt merki. Matseðillinn er fjölbreyttur og þarna er að finna klassíska ítalska rétti án tilgerðar en einnig er boðið upp á bröns, eftirmiðdagsnasl og kokteila og hádegisseðil. Staðurinn er afar kósí og hlýlegur í skemmtilegum stíl sem minnir svolítið á 5. áratuginn. Þjónustan er góð en svolítið ör og ítölsk. Skemmtilegur staður með einföldum en góðum mat og skemmtilegu og notalegu andrúmslofti.

Matseðillinn er fjölbreyttur og þarna er að finna klassíska ítalska rétti án tilgerðar en einnig er boðið upp á bröns, eftirmiðdagsnasl og kokteila og hádegisseðil.

Cora Pearl – Covent Garden

Afar áhugaverður og skemmtilegur staður fyrir alvörumatarnörda. Cora Pearl er pínulítill og mjög vinsæll og því verður að panta borð snemma. George Barson er yfirkokkur en matargerðin er ekta bresk en sett í afar nýstárlegan og spennandi búning. Kokteilarnir þeirra eru afar góðir, hægt er að hoppa inn og fá sér kokteil á barnum í kjallaranum sem er reyndar mjög lítill en kokteilarnir eru engu að síður spennandi.

Coral Pearl er afar áhugaverður og skemmtilegur staður.

Rekstaraðilar Cora Pearl reka einnig veitingastaðinn vinsæla í Mayfair, Kitty Fisher’s, en Kitty var fræg portkona. Gaman er frá því að segja að nafnið Cora Pearl er einnig sótt til portkonu einnar sem átti skrautlega ævi. Hún flutti til Parísar þar sem hún varð drottning næturlífsins og þótti hún í senn bæði elegant og alræmd. Hún var fræg fyrir ýmislegt og eitt var að láta bera sig fram nakta á silfurfati í matarboðum þar sem steinselja var það eina sem huldi viðkvæma líkamsparta hennar. Hún skrifaði ævisögu sína sem einhverjir kunna að hafa gaman af.

Petersham Nurseries cafe – Covent Garden

Gengið er inn í fallegt port til að komast inn á staðinn sem er innréttaður eins og rómantískt blómahús. Í raun er Petersham einskonar samsteypa af húsbúnaðarverslun, matsölustöðum og sælkerabúð sem allt er í fallegum og rómantískum blómastíl. Matargerðin er létt og holl og allt er fagurlega framsett og margir réttir skreyttir með blómum. Gaman er að fara á Petersham í hádeginu til að hvíla sig frá skarkala hverfisins og til að fá sér einn góðan kokteil eða jafnvel til að fá sér gott te og köku.

Matargerðin er létt og holl og allt er fagurlega framsett og margir réttir skreyttir með blómum.

Myndir / Úr safni og frá veitingastöðum

Sjá einnig: Fjórir ódýrir og öðruvísi veitingastaðir í Soho í London

 

- Advertisement -

Athugasemdir