Fjórir frábærir veitingastaðir í Edinborg

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Edinborg er í uppáhaldi margra Íslendinga enda seiðandi og dulúðleg og þangað er stutt ferðalag. Borgin hefur upp á margt að bjóða og mikið og gott úrval af veitingastöðum er víða að finna í þessari borgarperlu.

 

Ég hef komið fjórum sinnum til Edinborgar og skrifaði fyrir nokkrum dögum litla grein um tíu ástæður fyrir því að heimsækja borgina. Hér bæti ég aðeins við ef einhverjir hafa rokið af stað og bókað og bendi á nokkra matsölustaði sem ég hef prófað í Edinborgen og eru í nokkru uppáhaldi.

Ég mæli sérstaklega með Café St. Honoré fyrir forfallna sælkera, Baba fyrir þá sem elska mat frá Mið-Austurlöndum, Tower restaurant fyrir þá sem vilja ekta skoska matargerð með miklu útsýni og Goucho fyrir þá sem vilja fara á „inn“ stað með góðu nautakjöti.

 

 

Tower restaurant & Terrace

Tower restaurant & Terrace

Veitingastaðurinn Tower býður upp á ekta skoska matargerð. Þar er hægt að fá Aberdeen Angus-nautakjöt, villibráð, lamb og sjávarrétti. Vinsælt er meðal heimamanna að fara þangað í eftirmiðdagste og bröns en staðurinn er staðsettur upp á efstu hæð Þjóðminjasafns Skotlands eða National Museum of Scotland. Útsýnið er einstakt og ég mæli sérstaklega með því að sitja úti á sumrin þegar heitt er í veðri og horfa á Edinborgarkastala.

Vefsíða: tower-restaurant.com.

 

Baba restaurant

Baba restaurant

Baba er vinsæll staður í Edinborg en hann opnaði dyr sínar í október 2017. Eins og nafnið gefur til kynna er matargerðin sótt til landanna fyrir botni Miðjarðarhafs, einkum Líbanons, Ísraels og Sýrlands. Staðurinn er skemmtilega grófur með fagurlega sægrænum veggjum og persneskum teppum hér og þar. Ég mæli með matnum á þessum stað, brauðið þeirra er dásamlegt og baba ganoush var eftirminnilegt. Þarna pantar fólk sér fullt af litlum smáréttum og deilir. Betra er að bóka borð með fyrirvara, sérstaklega um helgar.

Vefsíða: baba.restaurant.com.

 

Café St. Honoré

Café St. Honoré

Þessi staður er með þeim skemmtilegri í borginni en hann er pínulítill og vel falinn í frönskum bistro-sveitastíl. Café St. Honoré hefur unnið til fjölda verðlauna í gegnum árin, matargerðin er frönsk og notað eru fyrsta flokks breskt hráefni. Matseðillinn er breytilegur allt eftir því hvaða hráefni er ferskast og best hverju sinni. Umhverfið er eins og farið sé 80 ár aftur í tímann, allt viðarklætt með gulbrúnum tónum og flísarnar á gólfinu eru að sjálfsögðu svartar og hvítar. Ég myndi fara á þennan stað aftur og mæli með því að fólk bóki borð tímanlega, sérstaklega á kvöldin um helgar.

Vefsíða: cafesthonore.com.

 

Goucho

Goucho

Staðurinn Goucho er argentískur og leggur eðli málsins samkvæmt áherslu á gott nautakjöt. Goucho opnaði dyr sínar, á St. Andrew Square, í nóvember árið 2017 og hefur verð vinsæll síðan og því betra að panta borð í tíma. Umhverfið er fágað með fallegum innréttingum þar sem hvítmáluð tréborð skreyta veggi og standa eins og tré á gólfinu. Vínlistinn er metnaðarfullur en hægt er að velja á milli 200 tegunda af argentínskum vínum, þar má meðal vín frá vínhúsinu Mendoza í Argentínu en Gaucho er eigandi þess. Einnig er gott úrval af skosku viskíi.

Vefsíða: gauchorestaurants.com/restaurants/edinburgh.

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira