2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Fjórir góðir veitingastaðir í Edinborg

Íslendingar hafa í auknum mæli ferðast til Edinborgar og ég hef ekki enn hitt neinn sem er ekki hrifinn af þessari dulúðugu og fallegu borg.

Þegar gengið er um göturnar í gamla hlutanum er auðvelt að fá á tilfinninguna að farið sé nokkrar aldir aftur í tímann, í raun er eins og að vera á setti í bíómynd að ganga Royal Mile upp að Edinborgarkastala. Vissulega er svolítið af ferðamönnum þannig að ég mæli með að taka þessa göngu snemma um morgun.

Það er líka yndislegt á góðviðrisdögum að kaupa sér góða samloku og drykk og flatmaga í Princes Street-garðinum sem er á milli samnefndrar götu og kastalans. Mjög margir góðir matsölustaðir eru í borginni enda gera íbúarnir, sem eru margir af efri stéttum, miklar kröfur og ferðamenn njóta góðs af því.

Hér bendi ég á fjóra góða staði sem gaman er að koma á.

The Ivy – on the square

AUGLÝSING


Lesendur Gestgjafans hafa eflaust lesið um Ivy-staðina í London en við höfum áður fjallað um The Ivy Café í Marlybone og Ivy Chelsea Garden sem báðir eru í frönskum art deco brasserí-stíl með ekta breska fínlega matargerð þó með svolitlu frönsku ívafi. Ivy-staðirnir eru vinsælir og þekktir fyrir gæði og gott hráefni. Það er því ekki úr vegi að skreppa inn á The Ivy on the Square í Edinborg t.d. í hádeginu. Einnig er gaman að skreppa þar inn eftir verslunartörn og fá sér drykk með léttum veitingum á barnum.

Vefsíða: theivyedinburgh.com

The Wichery by the Castle

Þessi staður er með þeim frægari í borginni og þá sér í lagi vegna umhverfisins sem verður ekki mikið skoskara og dramatískara, viðarklæddir og útskornir veggir, leðurbólstraðir bekkir og stólar og borð með stífuðum dúkum og kertastjökum. Þarna er kannski ekki besti skoski maturinn í Edinborg en upplifunin að borða inni á staðnum er engu að síður eftirminnileg og rómantísk. Þarna er líka tilvalið að fara í eftirmiðdagste að breskri hefð en athugið að einungis er boðið upp á það á milli 15.00 og 16.30 á virkum dögum og nauðsynlegt er að panta borð.

Vefsíða: thewitchery.com

Number One

Þessi staður er staðsettur í kjallaranum á hinu fína Balmoral-hóteli og er með eina Michelin- stjörnu sem hann hefur haldið í 13 ár. Þetta er með fínni stöðum borgarinnar og barinn er sérstaklega vinsæll og skemmtilegur. Matargerðin er nútímaleg þar sem notuð er fyrsta flokks skoskt hráefni og þjónustan er alvöru, gott úrval af vínum þar sem sommelier-vínþjónn hjálpar gestum við valið á víni með mat. Hér þarf að vera fínn til fara og panta borð í tíma. Hótelið sjálft er líka dásamlegt fyrir þá sem vilja gera vel við sig í gistingu en það er þó ekki það ódýrasta í bænum.

Vefsíða: roccofortehotels.com/hotels-and-resorts/the-balmoral-hotel

The Bon Vivant 

Afar skemmtilegur og góður bar þar sem hægt er að borða og fá sér bæði áhugaverða kokteila og vín en þar er úrvalið einstaklega gott. Umhverfið er notalegt og starfsfólkið er hlýlegt og lætur gestum líða vel. Matseðillinn breytist nokkuð oft og það gerir reyndar kokteilaseðillinn líka en hægt er að fá allt frá litlum skemmtilegum smáréttum upp í heilar máltíðir með eftirréttum og aldrei skortir góð vín til að para með matnum.

Vefsíða: bonvivantedinburgh.co.uk

Ferðamáti:

WOW air flýgur til Edinborgar frá maí til september. Verð aðra leið með sköttum er frá 6.999 kr.

Það tekur u.þ.b. 25 mínútur að aka frá flugvellinum inn í borg. Sérlega auðvelt er að taka strætisvagna en nokkrir slíkir stoppa beint fyrir utan flugstöðina, þeir stoppa allir á nokkrum stöðum í borginni. Einnig gengur sporvagn frá flugvellinum inn í borgina á sjö mínútna fresti en ferðin tekur u.þ.b. 30 mínútur.

Myndir / Úr safni og frá stöðum

Lestu meira

Annað áhugavert efni