2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Fjórir klassískir veitingastaðir í Dublin

Stutt er að fljúga til Írlands frá Íslandi og borgin því vinsæll helgaráfangastaður Íslendinga. Oftast er ferðinni heitið til höfuðborgarinnar Dublin en fleiri borgir eru skemmtilegar eins og  borgin Cork sem er á suðvesturströnd Írlands og einnig er fallegt og gaman að keyra með fram vesturströndinni. Írar eru vinalegir og gestrisnir og þar er mikil pöbbamenning en skemmtilegir pöbbar eru nánast á hverju götuhorni í Dublin. En í Dublin er líka talsvert um góða matsölustaði og bendum við hér á fjóra góða og klassíska staði sem Írar sækja sjálfir.

The Pig´s Ear.

The Pig‘s Ear
The Pig‘s Ear er einkar vinsæll meðal heimamanna enda er maturinn sérlega góður. Staðurinn komst í Michelin-bókina góðu og fékk hjá Michelin hina eftirsóknarverðu viðurkenningu Bib Gourmand árið 2009 en það þýðir að maturinn er einstaklega góður miðað við verð. Staðurinn er á fyrstu hæð með fallegu útsýni yfir Trinity-háskólann en veitingastaðurinn sjálfur lætur ekki mikið yfir sér, innréttingarnar eru einfaldar og látlausar, þarna er aðaláherslan á matinn. Matseðillinn breytist frá degi til dags allt eftir því hvaða hráefni er best hverju sinni. Verulega góður matur. Hér er vissara að panta borð. Vefsíða: thepigsear.ie

Lemon & Duke.

Lemon & Duke
Lemon & Duke er staðsettur á 1 Royal Hibernian Way. Huggulegur staður sem Dyflinarbúar sækja en þarna er notaleg stemning. Hægt er að fá góðan og nútímalegan mat sem Anthony Duffy yfirkokkur töfrar fram. Aðaláherslurnar eru á ferskt hráefni úr nærumhverfinu en matargerðin er evrópsk með asísku ívafi. Gott úrval af handverksbrugguðum bjór og fleiri drykkjum, þarna er gaman að fara bæði í drykk eða að borða. Snyrtilegur klæðnaður er æskilegur og mikilvægt er að panta borð á álagstímum. Vefsíða: lemonandduke.ie

AUGLÝSING


The Oak.

The Oak
The Oak er á Parliament Street. Þessi bar er beint á móti ráðhúsinu og er einstaklega skemmtilega innréttaður. Veggir eru dökkbláir og hlaðnir málverkum, það er notalegt að dvelja þarna á barnum og fá sér t.d. írskt kaffi. Á The Oak er líka hægt að fá nútímalegan írskan mat sem hægt er að skola niður með góðum bjór. Staðurinn er vinsæll meðal heimamanna. Vefsíða: theoak.ie

Delahunt
Delahunt er á Camden Street Lower. Þessi staður fékk hið eftirsótta Bib Gourmand í Michelin- bókinni. Delahunt er nútímalegur írskur veitingastaður og bar sem er í sögufrægu húsi í Viktoríustíl. Staðurinn er trúr húsinu því matseðillinn er innblásinn af matreiðsluaðferðum frá Viktoríutímanum. Heimagrafið, reykt og súrsað hráefni, hægeldun og bökur eru meðal þeirra. Staðurinn er fallega blámálaður með mjög löngum bar en staðurinn er fremur mjór og langur með gamaldags húsgögnum. Þetta er staður sem sælkerar ættu ekki að missa af en nauðsynlegt er að panta með góðum fyrirvara. Vefsíða: delahunt.ie

Ferðamáti
WOW air flýgur til Dublin allt árið um kring, verð með sköttum aðra leið er 5.999 kr. Vefsíða: wowair.is. Flugvöllurinn er í um 12 km fjarlægð frá miðborginni og mjög einfalt og ódýrt er að taka strætisvagn eða rútu inn í borgina en nokkrar slíkar eru beint fyrir utan flugstöðvarbygginguna.

Delahunt.

Hagnýtar upplýsingar

Veðurfar
Heitustu mánuðirnir eru júlí og ágúst með meðalhita upp á 16°C. Köldustu mánuðirnir eru janúar og febrúar en þá er meðalhitinn 5°C og því betra að klæða sig vel en einnig er gott er að taka regnhlífina með. Dublin stendur við sjó og því getur verið nokkuð vindasamt.

Þjórfé
Ekki er almenn regla að gefa þjórfé á Írlandi en þetta á sérstaklega við á börum og krám. Þjónustan er í langflestum tilfellum innifalin í verðinu en þó eru undantekningar frá þessu og því gott að lesa vel reikninginn og bæta þá við um 12% ef þjórfé er ekki innifalið. Oft er rúnað upp í næsta tug og skilið eftir smávegis klink á kaffi- og veitingahúsum.

Rafmagn
230W eru á Írlandi en innstungurnar eru eins og í Englandi með þremur pinnum og því gott að muna eftir millistykkinu þegar verið er að pakka.

Myndir / Úr safni

Lestu meira

Annað áhugavert efni