2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Fjórir ódýrir og öðruvísi veitingastaðir í Soho í London

London hefur upp á margt að bjóða þegar kemur að menningu og söfnum en sennilega eru fáar borgir í Evrópu með eins mikið úrval af fjölbreyttum og spennandi matsölustöðum. Það er kannski þess vegna sem blaðamenn Gestgjafans skjótast oft þangað til að borða eitthvað gott og spennandi. Hér eru fjórir vinsælir og góðir veitingastaðir í Soho-hverfi sem ættu ekki að íþyngja pyngjunni.

Bao Soho

Fyrir þá sem ekki vita þá eru bao buns, taívanskar gufusoðnar bollur sem fylltar eru með ýmsu hráefni, en bao buns hafa verið vinsælar undanfarin ár. Bao Soho þykir einn sá besti í borginni en hann er agnarlítill með einungis 30 sætum. Hönnunin er afar einföld og iðulega er löng röð fyrir utan þar sem ekki er hægt að bóka borð en biðin er alveg þess virði. Úrvalið er gott og gaman að prófa ýmislegt enda ekki dýr matur. Ég mæli bao bun með rifnu svínakjöti „braised pork“ með kóríander og hnetum en einnig eru fleiri góðir kostir. Margir skola þessum mat niður með hnetumjólk sem er gaman að prófa en einnig er hægt að fá kokteila og taívanskan bjór. Bao er staðsettur víðar í London, heitir þá aðeins öðrum nöfnum, allir staðirnir eru undir sömu vefsíðu en ég mæli með Bao Soho.

Vefsíða: baolondon.com

AUGLÝSING


Berenjak

Íranskir matsölustaðir eru ekki algengir á Vesturlöndum en þessi er einstaklega skemmtilegur. En það var matreiðslumaðurinn Kian Samyani sem stofnaði staðinn en hann var áður á hinum indverska og vinsæla Gymkhana sem Gestgjafinn hefur áður fjallað um. Innblásturinn að matargerðinni er sóttur til kebab-staða í höfuðborg Írans, Tehran. Berenjak er afar lítill og notalegur í látlausum írönskum stíl. Hægt er að panta ýmsa smárétti til að deila enda matseðillinn settur þannig upp. Ég mæli með að reyna að prófa sem mest af seðlinum enda réttirnir ekki dýrir. Mjög spennandi kostur fyrir þá sem vilja eitthvað nýtt og ekki of dýrt og fínt. Ekki er hægt að panta borð heldur mætir fólk og lætur skrá sig með símanúmeri og fær svo smáskilaboð þegar borðið er tilbúið. Tilvalið að stökkva í drykk í nágrenninu á meðan beðið er eftir borði.

Vefsíða: berenjaklondon.com

Darjeeling Express

Sennilega eru fáar borgir í Evrópu með eins marga góða indverska staði og London. Indland er stórt og matargerðin er mismunandi eftir svæðum. Á þessum stað, sem er afslappaður og notalegur, er boðið upp á heimilislega matargerð frá Norður-Indlandi og Bengalsvæðinu. Kokkarnir eru allir konur sem er skemmtilegt. Tangra chili-rétturinn með hvítlauksrækjum er vinsæll á matseðlinum og afar góður og Mangsho geitarétturinn er afar áhugaverður. Skemmtilegur staður í Soho og ekki mjög dýr.

Vefsíða: darjeeling-express.com

Blacklock

Hér er staður fyrir þá sem elska kjöt og gróft og hrátt umhverfi, með svolítið hárri tónlist, alla vega stundum. Blacklock er í kjallara í hliðargötu úr frá Piccadilly Circus en þar var áður rekið vændishús. Kjötið er yfirleitt grillað og því berst umami-ilmur um allan staðinn. Lamba- og svínakótelettur eru vinsælar og gómsætar. Góður kostur fyrir afslappaða og ódýra máltíð þegar kjötþörfin lætur á sér kræla.

Vefsíða: theblacklock.com/soho

Ferðamáti:

WOW air flýgur til London allt árið um kring. Verð krónur 5.499 aðra leið með sköttum.

Lestu meira

Annað áhugavert efni