Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Fjósanostalgía

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Nanna Rögnvaldardóttir

Á síðustu árum hafa ýmsir hvatt til þess að sala á ógerilsneyddri og óunninni mjólk – sem ég vil síður kalla hrámjólk því mér finnst orðið svo ljótt – verði heimiluð hérlendis. Þá eru lögð fram ýmis rök, svo sem eins og að óunna mjólkin sé hollari og næringarríkari (munurinn er reyndar afar lítill) eða bragðbetri, sem er smekksatriði. Svo er bent á að hreinlæti og umgengni í mjólkurbúskap hafi breyst mjög mikið, sem er alveg rétt, og að aðalástæður fyrir því að gerilsneyðing var lögleidd á sínum tíma verið berkla- og taugaveikismit sem varla sé lengur ástæða til að óttast. Ég hef oft heyrt fólk segja að það sé hreinlega engin þörf á því lengur að gerilsneyða mjólkina.

Nýlegar fréttir úr Bláskógabyggð segja aðra sögu. Nei, það þarf kannski ekki lengur að óttast berkla og taugaveiki en aðrir sýklar og örverur eru sannarlega enn til staðar í umhverfi kúnna og þeim þarf að verjast. Hvort sem ísinn í Efstadal átti sök á faraldrinum eða ekki er ljóst að á bænum hefur hættulegt  afbrigði E.coli verið til staðar og eitthvað hefur farið úrskeiðis. Mjólkin sem ísinn var unninn úr var gerilsneydd á staðnum og eftirlit mun hafa verið töluvert, enda dettur mér ekki í hug að áfellast fólkið þarna eða saka það um skort á hreinlæti. Líklega verður aldrei ljóst hvernig þetta gerðist – en það þarf ekki nema ein mistök eða andartaks skort á aðgæslu til að illa geti farið. Kannski er nóg að einhver þvoi sér ekki nægilega vel um hendur í eitt einasta skipti.

Ég varð líka svolítið hugsi þegar ég sá lógóið þeirra í Efstadal II. Þar situr kona – á hækjum sér, að því er virðist, ég sé hvergi móta fyrir neinu sæti – og handmjólkar kú í fötu. Hún sýnist vera á íslenskum búningi, eða að minnsta kosti í síðu pilsi sem dregst ofan í fjósgólfið, og er með skotthúfu á höfði. Þarna er verið að sýna einhvers konar ímyndaða fortíð þar sem mamma eða amma fór í sparifötin og þrammaði út í fjós til að tutla Búkollu og allir drukku spenvolga nýmjólk og voru voða hamingjusamir.

Ég man eftir mömmu þar sem hún sat á mjaltakolli í básnum, í eldhússloppnum með skýluklút á höfði, og mjólkaði misgeðgóðar kýr sem sveifluðu kringum sig halanum sem hafði kannski dinglað ofan í flórinn þegar þær lögðust út af. Flugurnar sveimuðu í kring. Og svo var mjólkinni hellt úr fötunni í gegnum sigti í mjólkurbrúsa sem var svo farið með suður í lind til að kæla í rennandi vatni, því að önnur kæliaðstaða var engin. Þetta var raunveruleiki fortíðarinnar og bauð upp á ansi góða möguleika fyrir alls konar sóttkveikjur og pestir.

Raunveruleiki nútímans er mjaltavélar og mjaltabásar, mikið hreinlæti og sótthreinsun, mjólkin fer beint í kælda mjólkurtanka og kemst aldrei í snertingu við fjósalyktina. Þessi mjólk er eins örugg og hún getur orðið – jafnvel áður en hún er gerilsneydd. En það þykir ekki nógu gott fyrir ímyndina, það er órómantískt og óspennandi. Þá er nú söluvænlegra að hafa fallega mynd af konu að handmjólka – og gleyma mykjunni í flórnum fyrir aftan kúna, þungu fjósaloftinu mettuðu af metani, klepruðum halanum og öllu hinu sem ekki sést á mynd.

- Auglýsing -

Jú, mjólkurframleiðsla í dag býr við allt aðrar aðstæður en fyrr á tíð og mér finnst að það megi alveg skoða að leyfa sölu á óunninni mjólk. Auðvitað að uppfylltum ströngum skilyrðum um hreinlæti, eftirlit og sölu, eins og t.d. eru í Danmörku og raunar víðast hvar erlendis þar sem sala á ógerilsneyddri mjólk er á annað borð heimiluð, því að í þessum efnum má ekki taka neina áhættu. Öllu slíku fylgir hins vegar aukinn kostnaður og það er spurning hvort kaupendahópurinn er nægilega stór til að bera hann.

Ég verð að minnsta kosti ekki í þeim hópi. Ég ólst upp á ógerilsneyddri mjólk frá þriggja vikna aldri og sakna hennar ekkert, þótt ég sé ekki endilega að kenna henni um allar magakveisurnar sem ég fékk þegar ég var barn. Þar kom margt annað til greina. En ég man enn hvað mér fannst mjólkin úr kaupfélaginu mikið betri en mjólkin úr kúnum heima.

Og ég hef aldrei skilið hvað sumum finnst svona frábært við spenvolga mjólk.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -