2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Fróðleikur um fisk

Almennt borðum við of lítið af fiski og hefur fiskneysla landans farið stöðugt minnkandi  undanfarin ár, sérstaklega hjá ungu fólki. Flest okkar hefðu eflaust gott af því að bæta einni til tveimur fiskmáltíðum við matseðil vikunnar enda fiskur almennt talinn hollustufæði sem haldið hefur lífinu í landsmönnum í gegnum tíðina.

Góð áhrif á heilsuna
Áður fyrr var fiskur á borðum nær daglega en nú má teljast gott ef hann er á borðum
tvisvar í viku. Út frá lýðheilsusjónarmiðum er þetta áhyggjuefni því fiskur er gríðarlega hollur og hefur fiskneysla verulega góð áhrif á heilsuna. Rannsóknir hafa t.d. sýnt að þeir sem borða fisk tvisvar til þrisvar í vikur eiga síður á hættu að fá hjartaáfall en þeir sem neyta hans sjaldnar.
Eins er talið að eðlilegur fósturþroski sé háður því að nægjan­legt magn Omega-3 fitusýra, DHA og EPA, sé til staðar á fósturskeiðinu og því er mikilvægt fyrir ófrískar konur að neyta fiskmetis í nægjanlegu magni á meðgöngu. Fiskur og sjávarfang er einnig afar prótínríkt og því tilvalin fæða fyrir íþróttafólk.
Hægt að elda á ótal vegu
Feitur fiskur, eins og t.d. lax, lúða og síld, er ríkur af Omega-3 fitusýrum sem skiptir sköpum í frumubúskap okkar. Ef líkaminn fær nægilegt magn af Omega-3 fitusýrum þá nýtir hann það m.a. til þess að mynda boðefni sem hafa áhrif á líðan.
Rannsóknir hafa sýnt að oft mælast Omega-3 gildi lág hjá þunglyndissjúklingum. Eins er Omega-3 mikilvægt í framleiðslu á efnasamböndum sem stjórna blóðþrýstingi og blóðstorknun og dregur úr bólgumyndun í líkamanum. Það er því mikil heilsubót fólgin í því
að auka hlut fiskmetis í mataræðinu og það ætti ekki að vera svo erfitt, enda hægt að elda fisk á ótal vegu. Það er án efa miklu auðveldara en margt annað sem landinn setur sér gjarnan sem heilsumarkmið um áramót.

Lestu meira

Annað áhugavert efni