2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

„Frönsk matargerð þarf alls ekki að vera flókin“

Undanfarin ár hefur franska sendiráðið á Íslandi ásamt ýmsum samstarfsaðilum haldið skemmtilega matarhátíð sem kallast Semaine du Gout sem þýðir raunar bragðavika en hátíðin hefur hlotið hið skemmtilega nafn Keimur. Í tilefni af hátíðinni fékk Gestgjafinn nokkra Frakka sem búa á Íslandi og Íslendinga sem hafa búið í Frakklandi til að elda einfalda og góða franska rétti. Sendiherra Frakklands, Graham Paul og Jacelyne Paul, eiginkona hans, tóku vel á móti okkur og elduðu nokkra rétti sem þau halda upp á.

 

„Keimur snýst fyrst og fremst um bragð og hvernig á að meta það. Við kennum því fólki að þekkja gæði og mismunandi bragð. Það er mikilvægt að fólk læri að meta og þekkja mismunandi hráefni og að greina í sundur gæðaafurðir frá lélegum afurðum. Frönsk matargerð er bæði þekkt og virt og við viljum að allir læri hvernig sé best að njóta hennar. Þess vegna var dagskrá síðustu hátíðar helguð kennslu og uppfræðslu í skólum. Í Alliance Francaise var boðið upp á námskeið þar sem var hægt að læra til dæmis um smjör og gerjun. Við lögðum líka áherslu á að sýna fram á að frönsk matargerð þarf alls ekki að vera flókin eins og réttirnir sem konan mín og ég höfum útbúið,“ segir sendiherrann með glaðbeittri áherslu.

„Frönsk matargerð er bæði þekkt og virt og við viljum að allir læri hvernig sé best að njóta hennar.“

Réttirnir sem þau hjón elduðu fyrir Gestgjafann eru einfaldir og afar bragðgóðir og endurspegla franska einfalda matargerð. „Ég ákvað að gera farci charantais en það er réttur sem er úr héraðinu okkar, Poitou-Charentes,“ segir sendiherrann og bætir við að hver fjölskylda á svæðinu eigi sína fjölskylduuppskrift að réttinum og engar tvær séu alveg eins. „Meginhráefnið er samt yfirleitt það sama, laukur, spínat og beikon sem hrært er með eggi og bakað. Mörg börn byrja að borða spínat og lauk í gegnum þennan rétt eins og ég,“ bætir Graham brosandi við. Hjónin buðu upp á fleiri gómsætar krásir eins og franska súkkulaðiköku með vanillusósu að hætti sendiherrafrúarinnar sem hún deilir með okkur ásamt uppskrift að pönnukökum en þær eru algengar í Frakklandi þar sem þær heita crêpes.

„Ég ákvað að gera farci charantais en það er réttur sem er úr héraðinu okkar, Poitou-Charentes.“ Mynd/Hallur Karlsson

FARCI CHARENTAIS

AUGLÝSING


fyrir 6 til 8

1 kg spínat
1-2 msk. olía til steikingar
1 kg hvíti hlutinn
af blaðlauk, smátt skorinn
2 laukar, smátt skornir
500 g fleskteningur (þykkt beikon í bitum), hægt að nota skinku
5 egg
salt og pipar eftir
smekk
1 tsk. „quatre épices“, frönsk kryddblanda (pipar, negull, múskat, engifer)

Hitið ofn í 180°C. Hreinsið spínatið og sjóðið í u.þ.b. 5 mín. í söltu vatni. Steikið blaðlaukinn og laukinn á pönnu með olíu, bætið fleskteningunum saman við og steikið áfram í nokkrar mín. Sigtið vatnið vel frá spínatinu, sláið eggin saman í skál og blandið lauknum og spínatinu saman við. Saltið og kryddið með pipar og kryddblöndunni. Smyrjið paté-form með smjöri og hellið eggjablöndunni í og setjið í ofninn í 35-45 mín. Bakan er tilbúin þegar myndast hefur einskonar skorpa efst. Takið úr ofninum og kælið. Le farci charentais er borðaður kaldur og gott er að bera fram með honum majónes og salat.

Frönsk súkkilaðikaka með vanillusósu að hætti sendiherrafrúarinnar, Jacelyne Paul. Mynd/Hallur Karlsson

FRÖNSK SÚKKULAÐIKAKA

Þessi uppskrift er oft höfð á boðstólum þegar sendiherrahjónin bjóða í formlegan kvöldverð og þarf engan að undra enda sérlega góð.

4 egg
250 g sykur
200 g smjör við stofuhita
250 g suðusúkkulaði
2 msk. kalt vatn
1 msk. hveiti

Hitið ofn í 180°C, ekki stilla á blástur. Setjið eggin í hrærivélarskál og blandið saman við mjög hægan hraða, í u.þ.b. 2 mín. Bætið sykrinum saman við og aukið aðeins við hraðann. Bætið smjörinu út í og látið hrærivélina ganga í u.þ.b. 3 mín. Brjótið súkkulaðið í smærri bita, setjið í skál og bætið vatninu saman við. Bræðið súkkulaðið í u.þ.b. 2 mín. í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði, setjið súkkulaðið til hliðar og kælið aðeins. Bætið súkkulaðinu svo saman við deigið og blandið þar til deigið er orðið glansandi og slétt. Bætið hveitinu út í og hrærið í 3 mín. Klæðið eldfast mót með bökunarpappír og hellið deiginu ofan í. Látið inn í ofn í 15 mín., lækkið þá hitann í 150°C og bakið áfram í 10 mín. Takið úr ofninum og kælið alveg. Berið fram með vanillusósunni, nokkrum berjum og myntu ef vill.

VANILLUSÓSA – CRÈME ANGLAISE
fyrir 6

½ l nýmjólk
½ vanillustöng
4 eggjarauður
75 g sykur

Hellið mjólkinni í pott, kljúfið vanillustöngina, skafið fræin úr og setjið í pottinn ásamt stönginni. Hitið mjólkina varlega upp að suðu en passið að hún sjóði alls ekki. Setjið eggjarauðurnar í skál og blandið sykrinum saman við með sleif. Takið vanillustöngina úr pottinum og hellið heitri mjólkinni saman við eggjablönduna í smáskömmtum og hrærið í allan tímann. Hellið blöndunni aftur í pottinn og hitið sósuna þar til hún þykknar og hrærið í allan tímann því hún má alls ekki sjóða. Sósan er nægilega þykk þegar hún helst utan á sleifinni. Kælið sósuna í ísskáp og berið fram kalda með súkkulaðikökunni.

Pönnukökur eru algengar í Frakklandi þar sem þær heita crêpes. Mynd/Hallur Karlsson

CRÊPES

u.þ.b. 40 stk.

500 g hveiti
2 tsk. borðsalt
6 egg
1 l mjólk
2 dl bragðlítil olía

Látið hveitið í stóra skál og bætið saltinu saman við og blandið. Bætið eggjunum saman við einu í einu. Hitið mjólkina aðeins í potti þannig að hún verði volg. Þynnið deigið með mjólkinni og setjið olíuna saman við í lokin. Best er að láta deigið standa í nokkurn tíma áður en það er notað. Hitið pönnukökupönnu og bakið pönnukökurnar báðum megin. Þessar pönnukökur henta bæði í sæta og ósæta rétti. Tilvalið er að fylla þær með sveppum, skinku, osti og bæta svolítilli béchamel-sósu saman við eða fylla þær af súkkulaði og bananasneiðum.

Lestu meira

Annað áhugavert efni