„Fyrsta brauðið mitt var sko alls ekki eitthvað til að hrópa húrra fyrir“

Deila

- Auglýsing -

Súrdeigsbakstur er góð æfing í þolinmæði og núvitund segir Kristín Lilja Thorlacius Björnsdóttir sem heldur úti Instagram-síðunni Súri Bakarinn. Þar sýnir hún tilraunir sínar í súrdeigsbakstri og gefur góð ráð. Hún segist þó ekki vera neinn sérfræðingur, bara áhugamanneskja sem sé alltaf að læra eitthvað nýtt.

Aðspurð hvað sé langt síðan hún byrjaði að prófa sig áfram í súrdeigsbakstri segir Kristín: „Ég hef verið að baka úr súrdeigi í tæp tvö ár en súrdeigsmóðurina fékk ég frá mágkonu minni og manninum hennar. Ég byrjaði á þessu þegar ég var í fæðingarorlofi og núna í sumar er ég á leiðinni aftur í fæðingarorlof og hlakka bara til að vera meira heima því þá gefst meiri tími í bakstur.“ Hún bætir við að samkomubannið sem sé í gildi hafi gefið sér óvæntan aukatíma sem hún hafi nýtt í ýmsar súdeigstilraunir.

Mynd / Unnur Magna

Kristín segir þessar tilraunir einmitt vera það skemmtilegasta við súrdeigsbakstur. „Mér finnst svo skemmtilegt að vera alltaf að læra. Ég held það komi aldrei sá tími þar sem ég muni segja: „Já núna veit ég allt um súrdeigsbakstur.“. Það er óneitanlega mjög skemmtilegt þegar baksturinn lukkast vel en á sama tíma er ótrúlega súrt þegar eitthvað misheppnast.“

En hvað er það erfiðasta við súrdeigsbakstur?

„Ætli mér þyki ekki erfiðast að negla réttar tímasetningar í bakstursferlinu. Það tekur langan tíma að baka úr súrdeigi og mikilvægt að bíða ekki of lengi en heldur ekki of stutt.“

Vinsældir súrdeigsbaksturs aukist í samkomubanni

Kristín stofnaði Instagram-síðuna Súri Bakarinn síðasta sumar og síðan þá hefur fylgjendum hennar fjölgað smátt og smátt, sérstaklega undanfarnar vikur. Kristín segir að súrdeigsbakstur sé vinsæll úti í heimi og að vinsældirnar fari vaxandi hér heima.

„Það varð einhver sprengja í súrdeigsbakstri núna með þessu samkomubanni. Fylgjendurnir og fyrirspurnirnar hrannast inn á Instagram hjá mér, það er mjög gaman en líka pínulítið skrítið því ég er sjálf bara áhugamanneskja í þessu. Mér þykir samt ótrúlega gaman þegar fólk sendir mér myndir og hefur verið að baka eftir ráðum og leiðbeiningum frá mér. Það eru greinilega mjög margir að prófa sig áfram í þessu núna sem er skemmtilegt. Vonandi halda flestir áfram að baka eftir að lífið kemst aftur í eðlilegar skorður.“

Gaman að „nördast“ yfir súrdeigmóðurinni

Kristín á erfitt með að svara þegar hún er spurð hvað henni þyki skemmtilegast að baka. „Mér finnst mjög gaman að baka brauð og skera flókin mynstur í skorpuna en svo finnst mér líka skemmtilegt að prófa mig áfram með sætabrauð. Og góð súrdeigspizza getur ekki klikkað. Ætli mér þyki ekki bara skemmtilegast að baka það sem ég er að æfa mig á hverju sinni. Núna er ég búin að vera að æfa mig í að baka brauð með fyllingum og er að prófa ýmsar mismunandi aðferðir við það. Svo hef ég líka verið að nördast svolítið yfir súrdeigmóðurinni sjálfri, prófa mig áfram með misunandi mjöl til að fóðra hana á og mismunandi hitastig.

„Góð súrdeigspizza getur ekki klikkað.“

Þetta er allt saman alveg ótrúlega skemmtilegt ferli, mjög góð æfing í þolinmæði og núvitund. Ætli það sé ekki ein ástæðan fyrir því hvers vegna svona margir eru að prófa þetta núna, það er gaman að geta gleymt sér í einhverju svona heima við í ástandi eins og þessu.“

Mynd / Unnur Magna

Þegar Kristín er spurð hvort hún eigi einhver skotheld ráð fyrir byrjendur í súrdeigsbakstri segir hún: „Besta ráðið sem ég get gefið er að vera þolinmóður og gefast ekki upp þó að baksturinn gangi ekki fullkomlega fyrstu skiptin. Þetta er mikil æfing og mín reynsla er sú að þetta gengur alltaf betur með hverju brauðinu sem maður bakar. Fyrsta brauðið mitt var sko alls ekki eitthvað til að hrópa húrra fyrir en ég man hvað ég varð glöð þegar ég tók út brauð sem var ekki flatt eins og pönnukaka, en það var örugglega þriðji brauðhleifurinn sem ég bakaði.“

Áhugasamir geta fylgst með baksturstilraunum Kristínar á Instagram undir @suribakarinn.

- Advertisement -

Athugasemdir