Nú þegar janúar er genginn í garð er segin saga að fólk reyni að forðast hvítan sykur fram í lengstu lög eftir jólasukkið. Hér er hrikalega góð og einföld uppskrift að hollustu og orkumiklu sælgæti með engum hvítum sykri og raunar bara ekki með neinum sykri heldur eru notaðar döðlur, hindber og kókósmjöl til að ná fram sætunni.
Döðlu- og hindberjakúlur
u.þ.b. 25 stykki
280 g döðlur
225 g möndlur, hakkaðar
80 g hindber, frosin
40 g kókosmjöl
2 msk. kakó
Leggið döðlurnar í bleyti í heitt vatn þar til þær eru mjúkar. Hellið vatninu af, setjið döðlurnar í matvinnsluvél ásamt möndlum, hindberjum, kókosmjöli og kakói. Vinnið allt mjög vel saman. Mótið kúlur úr deiginu og setjið í frysti í a.m.k. eina klukkustund. Takið úr frystinum og sáldrið kakói yfir áður en kúlurnar eru bornar fram.
Uppskrift: Sólveig Jónsdóttir