Geggjaðir barir í Covent Garden

Deila

- Auglýsing -

London er borg sem hefur upp á að margt bjóða og í hvert sinn sem ég kem hafa til dæmis nýir og spennandi barir verið opnaðir, þótt þeir klassísku standi nú sumir hverjir alltaf fyrir sínu.

Vandamálið við London er að úrvalið er svo gríðarlega mikið að erfiðlega getur reynst að velja vel og þess vegna bendi ég hér á nokkra bari sem ég hef reynslu af og sem verðskulda allir athygli. Góða ferð og njótið.

Compagnie des Vins Surnaturels

Dásamlegur staður með afar vel völdu og góðu víni og hægt að fá mjög spennandi vín í stökum glösum. Compagnie des Vin Surnaturels er, eins og nafnið gefur til kynna, með afar frönskum áhrifum og flestir þjónarnir tala ensku með sterkum frönskum hreim sem er sjarmerandi. Fallega innréttaður staður í Seven Dial-hverfinu, nánar tiltekið í Neal´s Yard sem er einskonar port og rétt hjá Barbary-veitingastaðnum svo tilvalið er að byrja í drykk á Compagnie des Vins Surnaturels. Leitið endilega ráða hjá þjónunum, þeir kunna sitt fag. Þarna er líka hægt að fá ýmislegt gott og spennandi að borða.

Vefsíða: cvssevendials.com

Terroirs

Andrúmsloftið á Terroirs er afar afslappað og þægilegt en staðurinn er rétt hjá Trafalgar Square og tilvalið að stinga sér þangað í góðan drykk en einnig er hægt að fá úrvalsosta og spennandi kjötplatta ásamt ýmsum léttum og spennandi réttum. Sérlega gott úrval er af spennandi vínum en þeir leggja ríka áherslu á lífræn vín oft frá litlum framleiðendum, mörg vín eru frá gamla heiminum en einnig er hægt að finna spennandi vín frá nýja heiminum.

Vefsíða: terroirswinebar.com

The 10 Cases

Hér er hægt að fá einstaklega skemmtileg og spennandi vín, en eigendurnir fá yfirleitt einungis 10 kassa af hverju víni og þaðan er einmitt nafnið komið. Með þessu tryggja þeir að fastakúnnar fái reglulega eitthvað nýtt og spennandi og halda sér á tánum við að leita að nýjum vínum. Staðurinn er í frönskum bistrot-stíl með svartar og hvítar flísar og viðarinnréttingar og hægt er að sitja úti þegar veður leyfir. Verulega spennandi staður fyrir vínáhugamenn en einnig fyrir matarnörda því þarna er hægt að fá sér góðan ekta franskan bistrot-mat.

Vefsíða: 10cases.co.uk

Eve Bar

Hér er á ferðinni skemmtilegur kokteilabar sem staðsettur er í kjallara í Covent Garden, inn af veitingastað sem heitir Frog og er eintaklega góður og við munum eflaust fjalla um síðar. Umhverfið er svalt en notalegt í senn og stundum er boðið upp á lifandi tónlist. Kokteilarnir eru skemmtilega flokkaðir niður í undirflokka sem heita t.d. sakleysi, freisting og eftirlátssemi. Þetta er staður þar sem metnaður er lagður í hvern kokteil og tilvalið að fara í fordrykk fyrir mat eða eftir mat.

Vefsíða: evebar.co.uk

 American bar – Savoy

Þegar fjallað er um bari í Covent Garden er ekki annað hægt en að hafa með hinn klassíska og kannski best geymda leyndarmál hverfisins, The American Bar á Savoy-hótelinu, en hótelið er eitt það fínasta í borginni. Barinn er stílhreinn og fallegur í art deco-stíl og kokteilarnir eru sérlega spennandi og metnaðarfullir. Þarna er oft lifandi jazzpíanótónlist svo umhverfið verður varla betra til að njóta góðra drykkja enda er fátt sem jafnast á við að fara á fínan hótelbar. Hér er betra að vera smart klæddur því umhverfið er fínt og það er hluti af upplifuninni að vera smart í tauinu. Barinn er talinn vera einn langlífasti bar sinnar gerðar í heiminum en hann var opnaður árið 1903 og hefur verið starfandi síðan þá og er á listum yfir 50 bestu bari í heiminum.

Vefsíða: thesavoylondon.com/restaurant/american-bar

 

 

- Advertisement -

Athugasemdir