2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Geggjuð kaka að baka í samkomubanni – borðist á veirulausri klukkustund … fyrir Víði!

Fátt er skemmtilegra en að baka en margir detta í það að baka alltaf það sama. Hér er geggjuð kaka sem kemur skemmtilega á óvart, hún er bæði falleg og góð og ekkert svo rosalega óholl, ég meina það eru fullt af berjum í henni. Þessi kaka er í það minnsta í svolitlu uppáhaldi hjá mér af því hún er í senn sæt, fersk, einföld og nokkuð fljótleg. Njótið vel og ekki hika við að setja mynd af afrakstrinum á Instagram eða Facebook og tagga Gestgjafann. Njótið dagsins og gangi ykkur vel.

 

Svampbotnskaka með kanil og sítrónukeim
u.þ.b. 8-10 sneiðar

180 g smjör, við stofuhita
180 g sykur
5 egg eða 4 stór
180 g hveiti
2 tsk. lyftiduft
salt á hnífsoddi
½ tsk. kanill

Hitið ofninn í 180°C. Þeytið smjörið og sykurinn saman þar til blandan verður létt og ljós, u.þ.b. 5 mínútur. Bætið eggjunum saman við, einu í einu, og hrærið vel í á milli. Bætið nú saman við hveiti, lyftidufti, salti og kanil.

AUGLÝSING


Smyrjið tvö 20 cm form og skiptið deiginu jafnt á milli, bakið í u.þ.b. 25 mínútur eða þar til prjónn sem stungið hefur verið í botnana miðja kemur hreinn út og þeir hafa lyft sér og eru orðnir gullbrúnir að lit. Takið botnana út, látið á grind og kælið.

Takið botnana úr forminu.

Krem

200 Philadelphia-smurostur
100 g sýrður rjómi 18%
40 g smjör
170 g flórsykur
1-1 ½ tsk. kanill
2 msk. sítrónusmjör
5 msk. þeyttur rjómi
300 g blönduð ber, bláber, hindber og brómber

Hrærið allt hráefnið, nema berin saman en látið þeytta rjómann síðast og bragðbætið ef þarf. Hér má bæta við kanil eða sítrónusmjöri eða jafnvel flórsykri ef ykkur þykir þurfa.

Setjið annan botninn á fallegan kökudisk, setjið helminginn af kreminu á og látið tæplega helminginn af berjunum ofan á. Látið hinn botninn ofan á og endurtakið. Sáldrið flórsykri yfir allt. Þessi kaka er góð ein sér en einnig er gott að bera hana fram með þeyttum rjóma.

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Lestu meira

Annað áhugavert efni