Á þessu ári birtist fjöldi gómsætra uppskrifta og fallegra mynda í Gestgjafanum. Hér er sýnishorn af því besta af síðum Gestgjafans.
Grillaðar tígrisrækjur eru einstaklega bragðgóðar og ekki skemmir fyrir þegar búið að setja þær í ljúffengan kryddlög Hér eru þær svo lagðar á mjúkt taco og bornar fram með klettasalati í chili-sósu, pikkluðu rauðkáli, lárperu og sýrðum rjóma.
____________________________________________________________________
Teriyaki-lax er bæði hollur og léttur í maga – auk þess að vera ótrúlega ljúffengur á bragðið. Fyrir þá sem ekki vita þá er teriyaki japönsk grillsósa og því má segja að japanskra áhrifa gæti hér. Laxinn er borinn fram með sojakartöflum og edamami-baunum.
____________________________________________________________________
Laxakæfa með kapers er mjúk og feykilega góð. Hér er kæfan sett í skál og ristuðu brauði raðað snyrtilega í kring.
________________________________________________________________________
Indversk matargerð er þekkt fyrir að kitla bragðlaukana og þessi góða og saðsama blómkálssúpa undir indverskum áhrifum er þar engin undantekning. Meginuppistaðan er blómkál, kartöflur, hvítlaukur, engifer og alls konar krydd. Allt er soðið og maukað vandlega í matvinnsluvél og síðan hitað aftur. Súpan er borin á borð með jógúrtslettu, ferskum kóríander, eða steinselju, og rauðu chili.
____________________________________________________________________
Ef hægt er að tala um að einhver árstíma sé heppilegur fyrir gúllas þá er það núna í mesta kuldanum og skammdeginu. Hér er nautakjöt og grænmeti steikt á pönnu og síðan soðið ásamt kryddmauki í potti í dágóðan tíma. Steinselju bætt saman við og síðan bragðbætt með salti og pipar. Herligheitin eru borin fram með tagliatelle.
____________________________________________________________________
Hægelduð önd er sannkallaður herramannsmatur. Hér er hún borin á borð ásamt selleríróttar- og lárperusalati þar sem sýrður rjómi, sítrónusafi og sinnepi gegna veigamiklu hlutverki – fyrir utan auðvitað sellerírót og lárperu. Annað meðlæti er að eigin vali.
____________________________________________________________________
Villisveppabaka er ekki bara holl – hún er líka einstaklega bragðgóð. Fyllt með allskonar gúmmelaði og bökuð þar hún er orðin fallega brún. Skreytt með söxuðum vorlauk og síðan borin fram með frískandi jógúrtsósu.
____________________________________________________________________
Eggjapönnukökur með svartbauna- og tómatsalsa er bæði fljótlegur og hollur réttur. Einn helsti kosturinn við þennan rétt er jafnframt sá að hann er hægt að útbúa og geyma inni í ísskáp og síðan elda einn og einn skammt í einu. Sérlega hentugt til dæmis þegar fjölskyldumeðlimir koma í mat á mismunandi tíma.
__________________________________________________________________
Eins og allir sælkerar vita jafnast fátt á við góða súkkulaðiköku og því ættu sannir sælkerar ekki að láta þessa einstöku súkkulaðiostaköku með Oreo-kexi fram hjá sér fara. Hún er ekki aðeins syndsamlega góð á bragðið heldur góð fyrir nánast hvaða tilefni sem er. Til dæmis í veisluna nú eða bara með kaffinu.
____________________________________________________________________
Espressó-Granita með þeyttum rjóma og súkkulaðispæni. Espresso granita con panna“ er vinsæll ísréttur á Ítalíu, rjóminn temprar niður sterka espressóbragðið og þetta finnst Ítölum til dæmis sérstaklega frískandi á heitum sumardögum. Granita er einstaklega auðveldur eftirréttur sem lítið þarf að hafa fyrir. Hægt er að klæða hann í spariföt með því að rífa súkkulaðispæni yfir, sáldra muldum hnetum út á hann eða bragðbæta rjómann með serríi.
Uppskriftir að þessum og fleiri dýrindis réttum má finna í nýjasta tölublaði Gestgjafans – sjón er sögu ríkari!