Gjörsamlega geggjuð súkkulaðibananakaka

Deila

- Auglýsing -

Fátt er betra en heimalagað bakkelsi og enn betra er ef það inniheldur súkkulaði, romm og rúsínur. Ef ekki er til romm á heimilinu má nota koníak eða viskí. Þessi kaka er algert sælgæti og hentar sérlega vel sem eftirréttur í matarboð eða með helgarkaffinu þegar gera á vel við sig.

Súkkulaðibananakaka með rommlegnum rúsínum
8-10 sneiðar

Rúsínurnar og súkkulaðidroparnir sökkva á botninn og gefa þessari mjúku köku undurgott rommbragð. Kakan er frábær nýbökuð og jafnvel enn betri daginn eftir. Góð ein og sér og líka með léttþeyttum rjóma eða vanillusósu. Kökuna má frysta.

60 g ljósar rúsínur
½ dl dökkt romm
80 g súkkulaði
80 g smjör
40 g sykur
20 g púðursykur
4 egg
1 ½ banani, vel þroskaður, stappaður
40 g möndlumjöl
50 g hveiti
1 tsk. lyftiduft
150 g súkkulaði, saxað (gott að nota súkkulaðidropa)
80 g súkkulaði, brætt til að setja ofan á

Hitið ofninn í 180°C. Setjið rúsínur og romm í box og látið bíða yfir nótt. Ef þið gerið kökuna samdægurs er hægt að sjóða upp á rúsínunum í romminu og láta þær bíða í 1 klst., þær verða þó mýkri og drekka meira í sig ef þær bíða yfir nótt.
Bræðið súkkulaði og smjör saman í potti við mjög vægan hita. Setjið blönduna í skál, bætið sykri út í og hrærið vel saman. Bætið eggjum út í, einu í einu, og hrærið allt mjög vel saman við. Hrærið banana, möndlumjöl, hveiti, lyftiduft og súkkulaði saman við. Klæðið 25 cm formkuform með bökunarpappír og hellið deiginu í formið. Bakið kökuna í miðjum ofni í 45-50 mín. Látið kökuna kólna í 30 mín. áður en þið takið hana úr forminu. Skreytið með bræddu súkkulaði. Gott er einnig að bera kökuna fram með rjóma.

Uppskrift/Sigríður Björk Bragadóttir
Stílisti/Ólöf Jakobína Ernudóttir
Mynd/Rakel Ósk Sigurðardóttir

- Advertisement -

Athugasemdir