2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Góðir áfangastaðir fyrir sælkera í Tel Aviv

Í síðasta Mannlífsblaði fjölluðum við um Tel Aviv og ætlum að halda því áfram hér og benda á nokkra áhugaverða staði fyrir sælkera.

Matarmenning Ísraels er afar fjölbreytt og áhugaverð. Margir hafa eflaust heyrt talað um hin svokölluðu kibbutz eða samyrkjubú þar sem grænmetisræktun er stunduð í einskonar kommúnu en landið er hagstætt til ræktunar. Algengustu afurðirnar eru fiskur, kjöt, ostar, ólífur, fíkjur, döðlur, vínber, sítrusávextir, granatepli og korn og fræ. Matarmenning Ísraels hefur þróast í aldanna rás og einkennist af einhverskonar samsuðu frá hinum ýmsu þjóðar- og trúarbrotum og mætti nefna araba, bedúína, kristna og gyðinga.

Þessi skemmtilega samsuða og hið góða aðgengi að fersku hráefni skilar sér vel í matargerðinni enda fá lönd sem ég hef komið til sem geta státað af eins góðum mat. Einn vinælasti matreiðslubókahöfundur síðari tíma Ottolenghi er einmitt ættaður frá Ísrael og hefur leitið mikið í ísraelskar matarhefðir í bókum sínum en á hann stóran þátt í því að hafa gert ísraelska matargerð eins vinsæla og raun ber vitni. Hér bendi ég á nokkra staði í Tel Aviv sem gott er að borða á en í raun er alls staðar góður matur, jafnvel í mötuneytum safna og á litlum og látlausum matsölustöðum.

Góðir mataráfangastaðir í Tel Aviv

Sarona-götumatarmarkaðurinn er einn af heitustu stöðunum til að borða á en markaðurinn var opnaður árið 2015. Þar eru 91 sölubás bæði með mat til að borða á staðnum ásamt fjöldanum öllum af sælkerabúðum, einnig eru vínbúðir og hægt er að bragða á handverksbjór. Markaðurinn er opinn alla daga vikunnar og víða er hægt að sitja og gæða sér á frábærum veitingum. Ég mæli sannarlega með þessum markaði fyrir sælkera og svæðið í kring er líka skemmtilegt Vefsíða: saronamarket.co.il/en.

Claro er vinsæll meðal heimamanna svo vissara er að panta borð.

AUGLÝSING


Claro
Sérlega skemmtilegur og kósí staður á svæðinu hjá Sarona-markaðnum þar sem Ran Shmueli töfrar fram dásamlega rétti úr fersku hráefni úr nærumhverfinu. Eldhúsið er opið og þar er stór múrsteinsofn sem skreytir svæðið og pastað og brauðið er allt handgert á staðnum. Claro er vinsæll meðal heimamanna svo vissara er að panta borð. Vefsíða: clarotlv.com

Messe
Messe er sérlega fínn veitingastaður í hæsta gæðaflokki, sennilega með þeim fínni í Ísrael. Staðurinn er skemmtilega innréttaður með langborði í miðjunni, allt hvítt að innan og hvít tjöld hanga um loftið en samt er staðurinn afar hlýlegur. Það er einn af þekktari kokkum landsins, Aviv Moshe sem stýrir staðnum af miklum metnaði. Staðurinn var útnefndur einn af 50 fallegustu veitingastöðum í heimi af Wall Paper Magazine og því alveg ferðarinnar virði, bæði til að upplifa matinn og umhverfið, einstakur staður. Panta þarf borð í tíma. Vefsíða: messa.rest.co.il

Bellini
Bellini er ítalskur staður í skemmtilega hverfinu Nevel Tzedek. Þótt staðurinn sé ítalskur er allt hráefni ísraelskt og réttirnir eru einstaklega bragðgóðir og fjölbreyttir. Ég mæli með að fólk panti sér nokkra rétti og deili til að smakka sem flest. Vefsíða: bellini.co.il/en

Puaa, matsölustaður og kaffihús
Skemmtilegur staður á flóamarkaðssvæðinu í Jaffa-Tel Aviv. Innréttingarnar eru samansafn af gömlum húsgöngum og dóti. Staðurinn er vinsæll meðal heimamanna og hægt er að gæða sér á fljölbreyttum léttum og svolítið frumlegum réttum. Afslappað umhverfi og notalegt að sitja á staðnum. Beint á móti er sælkerabúðin Shifra sem ég mæli með að skoða líka, þar fékk ég himneska osta. Vefsíða: rol.co.il/sites/eng/puaa

Vinsælt veitingahús þar sem boðið er upp á morgunverð allan daginn.

Benedict Rothschild
Vinsælt veitingahús þar sem boðið er upp á morgunverð allan daginn. Egg Benedict á brioch-brauði er vinsæll réttur en í raun er allt gott þarna og ekki verra að þeir bjóða upp á gott úrval af morgunverðarkokteilum. Staðurinn er opinn allan sólarhringinn. Vefsíða: benedict.co.il

___________________________________________________________________________________________

Matarorðabók

Gott er að vita sitt lítið af hvoru um matinn í Ísrael. Hér er lítil matarorðabók yfir rétti og hráefni sem gott er að hafa við höndina á matsölustöðum.

Arak – sterkt vín með anísbragði sem verður mjólkurhvítt þegar vatni er bætt við það.

Challah – er fléttað hvítt brauð sem gyðingar borða oft á helgidegi sínum sabbat.

Doa
– kryddblanda með kryddi og kryddjurtum, oftast kóríanderfræ, kummin-fræ, þurrkuð mynta og sesamfræ. Doa er oft borið fram með brauði og olíu til að dýfa í.

Halva – er eitt algengasta sætmetið í Ísrael en það er yfirleitt unnið úr tahini, sykursírópi og bakað. Halva fæst víða á mörkuðum með fjölbreyttum bragðtegundum svo sem pístasíu, súkkulaði og möndlum.

Kreplac
h – einskonar dumplingar sem líkjast ravioli. Þeir eru oftast fylltir með kjöti og kartöflum og bornir fram með kjúklingasúpu.

Shakshuka – pönnuréttur með hleyptum eggjum, tómatsósu, chili-aldini, papriku og stundum lamba- eða nautakjöti og kryddi. Shakshuka þýðir blanda á sumum tungumálum.

Shawarma
– kjöt sem er hæggrillað á teini, jafnvel allan daginn. Oftast kjúklingur eða lamb en getur verið hvaða kjöt sem er.

Sumac – beiskt krydd með súru bragði.

Tahini
– mauk gert úr sesamfræjum en það er lykilhráefni í hummus.

Za´atar – þessi kryddjurt er stundum nefnd Ísraelskryddjurtin og á hebresku heitir hún „Biblíu mosi“. Á ensku heitir kryddið hyssop en íslenska þýðingin er íssópur. Orðið za´atar er oft notað sem samheiti yfir ýmsar kryddblöndur en íssópur er notaður t.d. á pítabrauð, í salat, á osta og í súpur.

Ferðamáti
WOW air flýgur til Tel Aviv allt árið um kring. Verð aðra leið með sköttum er frá 16.999 kr.

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni