2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Góðir Dim sum-veitingastaðir í London

Dim sum eru litlir kínverskir smáréttir, oft litlar bollur eða bögglar úr hrísgrjónadeigi eða pasta með smátt skornu kjöti, rækjum, kjúklingi, grænmeti, sjávarfangi, kryddjurtum og hnetum.

Þessir bögglar eru oft gufusoðnir í bambuskörfu eða djúpsteiktir og með þeim eru bornar fram fjölbreyttar asískar sósur, bæði sterkar, saltar og sætar. Þar sem dim sum er í litlum bitum eru mismunandi tegundir oft bornar fram í einu og því gaman að borða dim sum í félagsskap með öðrum. Þessi hefð á rætur sínar að rekja langt aftur í tímann, til Sung-tímabilsins (960-1279), og er talin hafa byrjað í Kantóníuhéraði. Þá voru lítil tehús við vegi og stíga þar sem hægt var að hvíla lúin bein, fá sér te og litla bita með, sem minnir óneitanlega á tapas-hefðina frá Spáni. Algengt er að kínverskar fjölskyldur hittist snemma í hádeginu um helgar og snæði saman dim sum en orðið þýðir lítill kjarni eða lítið hjarta á kínversku.
Mikið er borðað af dim sum í Suður-Kína og Hong Kong en þar er hægt að fá dim sum „take-a-way“ víða. Matsölustaðir sem bjóða upp á dim sum eru vinsælir og oft eru þeir stórir með hringborðum og þjónustan þannig að þjónar keyra um salinn með vagna með matnum, gestir benda á það sem þeir vilja og svo kemur næsti vagn með öðrum réttum.
Á Vesturlöndum er dim sum borið fram á hefðbundnari hátt, það er að segja pantað er eftir matseðli en nauðsynlegt er að fá sér að minnsta kosti 3-4 rétti. Ég hef einu sinni fundið dim sum-stað á Vesturlöndum þar sem vagnar voru notaðir en það var í Kínahverfinu í Boston, í gömlu leikhúsi. Það var upplifun en ekki besti dim sum-maturinn sem ég hef fengið. Oft er nefnilega búið að útfæra dim sum upp á vestrænan máta með fjölbreyttara kryddi og hugmyndaríkum útfærslum.

Ping Pong.

Þrír góðir Dim sum-staðir í Soho, London
Ping Pong er veitingastaðakeðja sem sérhæfir sig í dim sum. Staðirnir eru einfaldir og matseðillinn er merkispjald þar sem gestir krossa við réttina sem þeir vilja og afhenda svo þjóni. Dim sum-réttirnir eru nýstárlegri heldur en hefðin segir til um en þeir eru góðir. Hægt er að fá skemmtilega drykki og te sem borið er fram í glasi, til dæmis jasmínblómið sem springur út. Ping Pong er fremur ódýr og þægilegur staður þar sem hægt er að droppa inn með litlum fyrirvara og nokkrir staðir eru í borginni.
Vefsíða: pingpongdimsum.com

AUGLÝSING


Golden Dragons Chinatown er með klassískt dim sum auk ýmissa annarra kínverskra rétta. Hér skiptir máli að mæta snemma um helgar, helst fyrir 12, til að fá borð. Staðurinn er með einn besta „old school“ dim sum-matseðil í London, mælt er með honum í mörgum veitingastaðabókum og sést það við innganginn. Staðurinn var allur endurgerður fyrir nokkrum árum í nákvæmlega sömu mynd og áður svo hann er trúr uppruna sínum. Vefsíða: goldendragon-london.com

Yauatcha Soho.

Yauatcha Soho er talsvert fínni en hinir tveir og sennilega er hann eini dim sum-staðurinn sem státar af Michelin-stjörnu. Verðið er líka eftir því en maturinn er mjög góður. Boðið er upp á margar tegundir, allt frá gufusoðnum dim sum-réttum upp í grillaða og hver biti er öðrum betri. Héðan ætti enginn að fara nema hafa prófað eitthvað af eftirréttunum þeirra en fyrir þá eru þeir frægir enda allt gert frá grunni á staðnum. Hér er vissara að panta borð en staðurinn er einnig i City-hverfinu. Vefsíða: yauatcha.com/soho

Dim sum.

Nokkur mikilvæg dim sum-atriði
Deilið
Skemmtilegast er að fara með mörgum að borða dim sum því þá er hægt að deila með öðrum og prófa marga rétti. Algengt er að bornir séu fram 3-4 bitar í hverjum skammti.
Pantið te
Hefðinni samkvæmt á að drekka te með dim sum og flestir kínverskir matsölustaðir bjóða upp á nokkrar gerðir. Ef te er pantað kemur það í tekatli, ekki hella strax, leyfið vatninu að taka í sig bragðið af telaufunum. Þegar teið er búið snúið þá lokinu við ef þið viljið meira.
Borðið með prjónum
Kínverjar borða dim sum með prjónum og það er gaman að borða með þeim, það eykur stemninguna.
Pantið
Verið óhrædd við að panta, látið þjóninn hjálpa ykkur og bendið á næstu borð. Stundum er hægt að fá sýnishorn af einum bita.
Hrísgrjón
Oft eru pöntuð hrísgrjón með dim sum til að fylla máltíðina. Kínverjar fá sér yfirleitt hvít hrísgrjón en steikt hrísgrjón eru líka oft lostæti á góðum kínverskum stöðum.
Mætið snemma
Margir kínverskir staðir taka ekki við borðapöntunum heldur þarf að mæta snemma og fara í röð, sem oftast gengur nokkuð hratt. Dim sum er oftast borðað í hádeginu.

Ferðamáti
WOW air flýgur til London allt árið um kring. Verð aðra leið með sköttum frá 4.999 kr.

Myndir / Úr safni

Lestu meira

Annað áhugavert efni