Miðvikudagur 17. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Gómsæt og tignarleg súkkulaðikaka í tilefni af afmæli Frú Vigdísar Finnbogadóttur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ein virtasta og flottasta kona Íslandssögunnar á afmæli í dag, Frú Vigdís Finnbogadóttir. Hún var fyrsta konan í heiminum til að verða kjörin forseti lýðveldisríkis og veitti konum um heim allan innblástur. Vigdís er frábær fyrirmynd og var flottur leiðtogi í forsetatíð sinni og er reyndar enn. Við hér á ritstjórn Gestgjafans óskum henni innilega til hamingju með 90 árin og deilum um leið einni forsetalegri og afar bragðgóðri súkkulaðikökuuppskrift í tilefni dagsins.

Vigdís Finnbogadóttir.

Súkkulaðikaka með ljósu súkkulaðikremi
u.þ.b. 12-16 sneiðar

 Botnar:
75 g smjör
315 g sykur
180 g hveiti
60 g kakó
1 tsk. lyftiduft
1 tsk. matarsódi
¼ tsk. salt
175 ml mjólk, við stofuhita
2 egg, við stofuhita
175 ml heitt vatn

Hitið ofn í 175°C. Smyrjið tvö 15 cm kökuform með mjúku smjöri og dustið með örlitlu hveiti. Bræðið smjör og setjið til hliðar. Setjið sykur, hveiti, kakó, lyftiduft, matarsóda og salt í hrærivélarskál og hrærið saman. Bætið við smjöri, mjólk og eggjum. Hrærið saman á miðlungshraða þar til allt er vel samlagað. Bætið heita vatninu saman við og hrærið. Deigið verður þunnt, engar áhyggjur, það á að vera þannig. Skiptið deiginu á milli formanna. Bakið í 30-40 mín. Stingið tannstöngli í miðjuna á formunum, ef hann kemur hreinn út er kakan tilbúin. Látið kökurnar kólna í formunum í 15 mín. og látið þær kólna alveg á vírrekka.

Ljóst súkkulaðikrem:
150 g mjólkursúkkulaði,saxað gróft
150 g 70% súkkulaði, saxað gróft
450 g smjör, við stofuhita
140 g flórsykur
½ tsk. salt
½ tsk. vanilludropar

Bræðið súkkulaði í örbylgjuofni eða í vatnsbaði. Setjið til hliðar og látið súkkulaðið ná stofuhita. Setjið smjör í hrærivélarskál og hrærið þar til smjörið er ljóst og létt. Bætið flórsykri, salti og vanilludropum saman við og hrærið saman í 1 mín. Bætið súkkulaði saman við og hrærið í 1 mín., eða þar til kremið er orðið létt.

Notið hníf til að jafna botnana örlítið ef þeir hafa risið mikið í miðjunni. Skerið í tvennt, þannig að þið endið með fjóra þynnri kökubotna. Setjið einn kökubotn á kökudisk og smyrjið með ljósu súkkulaðikremi. Endurtakið ferlið þar til allir botnarnir eru komnir saman með kremi á milli. Smyrjið þunni lagi af kremi yfir alla kökuna með löngum spaða. Setjið kökuna inn í kæli í 10 mín. en hafið skálina með kreminu í stofuhita. Smyrjið restinni af kreminu yfir alla kökuna og dreifið vel úr. Til að fá slétta áferð á kremið er gott að dýfa spaðanum í volgt vatn, þurrka spaðann og smyrja kreminu. Setjið kökuna í kæli á meðan súkkulaðhjúpurinn er gerður. Það auðveldar súkkulaðihjúpnum að harðna fljótt eftir að hann er settur á kökuna eftir að hún kemur úr kæli, þannig að ekki sleppa því að setja kökuna inn í kæli á milli.

- Auglýsing -

 Súkkulaðihjúpur:
75 g af 70% súkkulaði
45 g smjör
Maltesers-kúlur til skauts

Setjið súkkulaði og smjör saman í pott og bræðið saman á lágum hita. Setjið til hliðar þar til blandan nær stofuhita. Hjúpurinn á ekki að vera orðinn stífur í pottinum. Hellið súkkulaðihjúpnum yfir kökuna þannig að hann leki eftir hliðunum. Ef það er afgangur af ljósa súkkulaðikreminu er gott að setja það í sprautupoka með stjörnulaga stút og skreyta kökuna með kreminu. Myljið Maltesers-kúlur yfir kökuna og berið fram.

Uppskrift/Folda Guðlaugsdóttir
Stílisti/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Mynd/Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -