Gott bistro í París er gulli betra

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Orðið bistro þekkja flestir en kannski vita ekki allir hvað það þýðir í raun og veru og hvaðan það kemur. Orðið eða öllu heldur innihald þess sem það stendur fyrir er runnið undan rifjum Parísarborgar og er notað yfir ákveðna tegund af matsölustöðum, þar sem andrúmsloftið er afslappað og maturinn góður en án tilgerðar.

Í upphafi var orðið notað um heimilisleg, einföld og alþýðleg kaffihús sem voru rekin af utanbæjarfólki sem flykktist til borganna á tímum iðnbyltingarinnar til að opna lítil fyrirtæki, þessir aðilar voru kallaðir bougnats. Innréttingar þessara staða voru fábrotnar, nokkrir tré- eða járnstólar og borð með dúkum úr pappa eða úr rauðköflóttu efni, þetta voru staðir þar sem fólk kom og fékk sér kaffi, bjór, vínglas og jafnvel litla ódýra máltíð.

Þrátt fyrir að flestir séu sammála um hvers konar staðir bistroin séu þá kemur orðsifjafræðingum ekki alveg saman um uppruna orðsins. Sumir segja að það megi rekja til mállýsku frá Poitou-héraði í Vestur-Frakklandi en þar þýðir orðið „bistraud“ heimili. Aðrir rekja upprunann til orðsins „bistouille“ sem notað er yfir kaffi sem bætt hefur verið með líkjör og kemur frá Norður-Frakklandi.

Einhverjir vilja meina að orðið sé dregið af að margra mati, slangurorðinu „bistingo“ sem þýðir kabarett. En síðasta tilgátan og sú skemmtilegasta, þó að hún sé oft dregin í efa af fræðimönnum, er sú að orðið sé rússneskt og megi rekja til ársins 1814 þegar Frakkland var hernumið af Rússum, Prússum og Austurríkismönnum.

Þá segir sagan að Rússar hafi sótt hin afslöppuðu veitinga- og kaffihús og oft haft lítinn tíma til að drekka og borða og hafi því verið með læti og kallað „bistro! bistro!“ sem merkir fljótt á rússnesku og voilá, skýringin er komin. Þetta er þekkt saga sem á að hafa gerst á bistroinu Mère Catherine á Montmartre-hæð en utan á staðnum er skjöldur sem staðfestir söguna.

Orðið bistro finnst þó ekki í neinum rituðum heimildum fyrr en árið 1884 en hvað sem því líður getum við öll verið sammála um að gott bistro í París er gulli betra eða alla vega eru sum þeirra það. Vert er að geta þess að orðið er bæði ritað bistro og bistrot.

Þrjú fræg og frábær bistro í París

BISTROT PAUL BERT Í 11. HVERFI
Þetta er eitt frægasta bistroið í París og vel ferðarinnar virði, frábær matur á góðu verði. Paul Bert er mjög vinsælt bistro enda hefur það verið í sjónvarpsþáttum og tímaritum svo mikilvægt er að panta borð.
Heimilisfang: 18 Rue Paul-Bert, 75011 Paris. Sími 33 1 43 72 24 01.

LE BARATIN Í 20. HVERFI
Argentínski kokkurinn Raquel Carena hefur rekið þetta yndislega bistro í yfir 20 ár, virkilega góður matur og afar vinsæll staður og því mikilvægt að panta borð.
Heimilisfang: 3 Rue Jouye-Rouve, 75020 Paris. Sími 33 1 43 49 39 70.

CHEZ GEORGES Í 2. HVERFI
Ekta frönsk bistro-matargerð eins og hún gerist best, þarna er hægt að fá cassoulet, pot-au-feu og tarte tatin svo fátt eitt sé nefnt. Chez Georges opnaði árið 1964 og hefur haldið útliti og áherslum nokkuð vel. Munið að panta borð.
Heimilisfang: 1 rue du Mail, 75002, sími 33 1 4260 0711.

Myndir: Úr safni

 

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Elskar ostapinna

Berglindi Hreiðarsdóttur þarf ekki að kynna fyrir íslensku mataráhugafólki. Bloggsíðan hennar Gotterí og gersemar er stútfull af...

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -