2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Grillaðar risarækjur á spjóti – Veisla frá botni Miðjarðarhafs

Í Mið-Austurlöndum og fyrir botni Miðjarðarhafsins er vinsælt að bera fram samansafn smárétta fyrir fólk til að deila, eitthvað í líkingu við spænskt tapas og er slíkt oft nefnt meze.

 

Misjafnt er hvaða réttir rata á borðið eftir landi og menningarsvæðum. Í löndum íslam er meze oft borið á borð til að rjúfa föstu þegar sólin sest í mánuðinum ramadan, í sumum löndum er meze borið fram með áfengi sem heil máltíð en annars staðar er það hugsað sem forréttur. Orðið finnst, með ólíkri stafsetningu þó, í öllum fyrrum löndum Ottómanveldisins og er dregið af persneska orðinu mazze sem hægt er að þýða sem smakk eða snarl.

Hér eru uppskriftir að rétti sem er innblásinn af meze-réttum Miðjarðarhafsins.

Grillaðara risarækjur á spjóti
fyrir 3-4

AUGLÝSING


½ tsk. salt
2 msk. ólífuolía
2 msk. harissa
350 g risarækjur
kóríanderlauf

Blandið saman salti, ólífuolíu og harissa og veltið risarækjunum upp úr því. Þræðið risarækjurnar upp á spjót en passið að hafa svolítið bil á milli þeirra.

Hitið grill að meðalháum hita og grillið rækjurnar í u.þ.b. 2 mín. báðum megin. Raðið á fallegan bakka og sáldrið ferskum kóríanderlaufum yfir.

Harissa er sterkt chili-kryddmauk sem er notað mikið í matseld Túnisbúa og fæst nú í betri matvörubúðum. Harissa er mjög gott sem marinering fyrir kjúkling og kartöflur en einnig er hægt að bera það fram með kjötréttum, fiski eða hræra því út í súpur og kássur.

Umsjón / Nanna Teitsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir / Hallur Karlsson

Lestu meira

Annað áhugavert efni