2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Grilluð pizza með camembert, hvítlaukssveppum, karamellíseruðum lauk og basilíku

Að gera pítsudeig er mun auðveldara en margir gera sér grein fyrir og skemmtileg tilbreyting að skella því á grillið til að fá stökka og góða áferð á pítsubotninn.

 

Grillað pítsudeig

Ef á að nota deigið samdægurs notið þá 2 tsk. af þurrgeri en ef á að geyma deigið yfir nótt inni í kæli notið þá 1 tsk. af þurrgeri.

395 ml volgt vatn
2 tsk. þurrger
60 ml ólífuoía
625 g hveiti
2 tsk. salt

Hrærið saman vatn og þurrger í skál. Látið blönduna standa í nokkrar mín., hrærið ólífuolíuna saman við gerblönduna. Hrærið því næst hveitið og saltið saman við með sleikju þar til myndast hefur gróft deig. Setjið deigið í hrærivél með króknum og hnoðið saman á miðlungshraða í 5-7 mín. einnig er hægt að hnoða deiginu saman í höndunum á hreinu vinnuborði í 6-8 mín. Deigið ætti að vera slétt viðkomu. Skerið deigið í 8 jafna hluta.

AUGLÝSING


Smyrjið bökunarplötu með ólífuolíu og leggið deighlutana á bökunarplötuna. Veltið þeim örlítið upp úr olíunni. Plastið bökunarplötuna eða leggið rakt viskastykki yfir deigið. Látið deigið hefast við stofuhita í 1-1 ½ klst. eða þar til deigið hefur tvöfaldast að stærð. Á þessu stigi er hægt að nota deigið strax eða frysta það, einnig er hægt að nota part af deiginu og frysta restina. Ef geyma á deigið í kæli til að nota daginn eftir setjið þá bökunarplötuna strax inn í kæli eftir að hún hefur verið plöstuð og látið deigið hefast yfir nótt inn í kæli. Ef þetta er gert látið þá deigið standa í 1 klst. í stofuhita fyrir notkun. Hægt er að geyma þetta deig í 3 daga í kæli fyrir notkun.

Hitið grill á háum hita í 10-15 mín. áður en byrjað er að grilla pítsurnar. Gott er að hafa hluta af grillinu á lægri hita. Hafið vinnusvæði tilbúið nálægt grillinu með deiginu, sósunni og álegginu sem á að nota. Mótið eitt deig í einu í höndunum með því að toga það til og leggja síðan yfir hendurnar til að teygja það frekar. Passið að rífa ekki gat á deigið, hægt er að móta deigið á vinnuborði með örlitlu hveiti ef það er þægilegra. Leggið deigið á grillið þegar það hefur verið mótað í æskilega stærð. Lokið grillinu og látið bakast í 1-3 mín. eða þar til deigið er byrjað að eldast og myndast hafa grillför á deigið.

Notið töng til að snúa pítsudeiginu við og látið það vera á lægri hita. Smyrjið sósu eða olíu á deigið og setjið álegg á pítsuna samkvæmt uppskriftum. Passið að setja ekki of mikið af álegginu því annars er hætta á að pítsan bakist ekki nægilega mikið. Lokið grillinu og látið pítsuna eldast í 2-3 mín. eða þar til deigið er bakað og osturinn er byrjaður að bráðna. Eldunartíminn á pítsunum getur farið eftir grillinu og hversu lengi það var forhitað þannig að gott er að fylgjast með pítsunni af og til á meðan hún er að bakast.

Notið tangir eða stóran spaða til að færa pítsuna af grillinu yfir á bretti og berið fram. Endurtakið ferlið með restinni af deiginu. Gott getur verið að byrja á næstu pítsu þegar ein er komin á lægri hita ef gera á margar.

Pizza með camembert, steiktum hvítlaukssveppum, karamellíseruðum lauk og basilíku

fyrir 2 pítsur

Karamellíseraður laukur
2 rauðlaukar, afhýddir og skornir í
þunnar sneiðar
1 msk. olía
1 msk. púðursykur

Hitið stóra pönnu á miðlungsháum hita. Setjið laukinn út á pönnuna og eldið í 5-8 mín. eða þar til laukurinn er orðinn glær og eldaður í gegn. Hækkið örlítið undir pönnunni og setjið sykurinn út á laukinn. Eldið saman í 1-3 mín., eða þar til laukurinn er orðin karamellíseraður. Takið af pönnunni og setjið til hliðar.

Álegg á pítsuna
2 msk. olía
1 msk. smjör
300 g sveppir, skornir gróflega niður
1 tsk. sjávarsalt
1 hvítlauksgeiri, afhýddur og saxaður fínt
ólífuolía
1 camembert-ostur, skorinn í sneiðar
2 kúlur ferskur mozzarella ostur, skornar í sneiðar
sneiðar af parmesan-osti
½ hnefafylli fersk basilíkulauf

Hitið stóra pönnu á háum hita með olíu og smjöri. Steikið sveppina þar til þeir verða gylltir á öllum hliðum. Setjið hvítlaukinn út á sveppina seinustu mínútuna á pönnunni og kryddið með salti. Setjið sveppina í skál og látið til hliðar. Eldið pítsudeig samkvæmt uppskrift hér að ofan. Þegar búið er að snúa deiginu við og það er komið á lægri hita penslið þá deigið með ólífuolíu og dreifið úr camembert-osti, mozzarella-osti, steiktum sveppum og karamellíseruðum rauðlauk yfir pizzuna. Lokið grillinu og eldið þar til osturinn er bráðnaður og deigið er bakað. Takið pítsuna af grillinu og rífið sneiðar af parmesan-osti yfir ásamt laufum af ferskri basilíku.

Lestu meira

Annað áhugavert efni