• Orðrómur

Hágæða skyndibitastaður opnar í Vestmannaeyjum

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Nokkuð ljóst er að landsmenn munu ferðast meira innanlands á næstu misserum og líklega margir sem munu gera sér ferð út í eyjuna góðu, Vestmannaeyjar. Gísli Matthías Auðunsson matreiðslu-og veitingamaður er þekktur fyrir sterka hugsjón þegar kemur að matargerð og hvernig hægt sé að nýta náttúruauðlindir landsins í þeim efnum.

 

Gísli ræðst svo sannarlega ekki á garðinn þar sem hann er lægstur því hann er að opna nýjan matsölustað á vormánuðum í Vestmannaeyjum á þessum erfiðu og skrítnum, staðurinn hefur fengið hið skemmtilega nafn, ÉTA. Eins og margir vita rekur Gísli veitingastaðinn SLIPPINN í Vestmannaeyjum og er einnig einn af eigendunum á Skál! á Hlemmi mathöll.

SLIPPURINN hefur verið mjög vinsæll undanfarin ár og þrátt fyrir að vera aðeins opin fjóra mánuði á ári hefur veitingarstaðurinn skipað sér sterkan sess í veitingastaðarflóru landsins. ÉTA mun verða systurstaður Slippsins enda staðsettur beint á móti og segir Gísli framkvæmdir hafa gengið mjög vel þrátt fyrir sérstakar aðstæður. „Við höfum verið að vinna að þessu í svolítinn tíma og höfum við fjölskyldan gert nánast allt sjálf – framkvæmdir eru á lokametrum og við stefnum á að opna í byrjun maí.“

- Auglýsing -

Aðspurður hvort hugmyndin sé að hafa ÉTA veitingastaðinn opinn allt árið segir Gísli að það sé svo sannarlega markmiðið. „Okkur hefur dreymt um lengi að vera með stað sem við getum rekið allt árið. Vegna stærðar SLIPPSINS væri aldrei hægt að hafa hann opin allt árið en vegna smæðar ÉTA er það vel hægt.“

Matsölustaðurinn ÉTA mun opna í Vestmannaeyjum á næstunni.

Hvernig verður matargerðin á ÉTA?

- Auglýsing -

„Hágæða skyndibiti. Hamborgarar, mínútusteikur, kjúklingabitar, fiskisúpur & fiskur í deigi. Allt gert frá grunni úr góðu hráefni.“

Nú hefur Skál! verið boðið upp á pakka til að elda heima sem hefur fengið góðar viðtökur hér í bænum, mun nýji staðurinn bjóða upp á eitthvað svipað?

„Í rauninni ekki, en við erum að skoða svipaðar hugmyndir með ÉTA að vera með einhversskonar pakka til að elda eða grilla heima í sumar. Til að byrja með ætlum við að einbeita okkur að veitingastaðnum og hefbundnu skyndibita til að taka með heim og svo langar okkur að bæta einhverju slíku við.“

- Auglýsing -

Gísli Matthías Auðunsson matreiðslu-og veitingarmaður er þekktur fyrir sterka hugsjón þegar kemur að matargerð.

Þú ert þekktur fyrir sterka og framsækna hugsjón í matargerð, auk þess sem þú vinnur mikið með hráefni úr nærumhverfinu. Hvernig mun það koma fram á nýja staðnum?

„Við munum klárlega gera það eftir fremsta megni en ekki þó í eins stórum stíl og á SLIPPNUM þar sem það er aðalfókusinn þar. Við munum vinna með fisk héðan úr eyjum bæði í “fish & chips” og í fiskisúpur og fleira. Að auki mun góðvinur okkar frá Aldingróðri sjá okkur um salöt og kryddjurtir fyrir bæði borgarana og réttina okkar. Við munum vinna með “Brothers Brewery” sem er brugghús hér í Eyjum, í að búa til drykki og setja í dósir hjá þeim, bæði bjór og vonandi í nákominni framtíð fleiri drykki svo sem kombucha og þess háttar. Allt kjötið okkar verður ferskt, íslenskt og unnið á staðnum.“

Lógóið var hannað af Pétri Geir Magnússyni

Nú verður ÉTA við hliðina á systurstað sínum SLIPPNUM og því stutt að fara á milli, sjáið þið fyrir ykkur að geta samnýtt hráefni á milli staðanna?

„Já algjörlega, staðirnir deila undirbúningseldhúsi og eru báðir reknir undir sama hatti og því munum við reyna að samnýta hráefnið að einhverju leyti. Við fáum t.d. kjúklinginn heilan og verkum niður, bringurnar fara í sérrétti á SLIPPNUM og vængir, leggir og læri á ÉTA. Við erum að hugsa þetta sem eina heild.

Það eru ekki margir í þeim hugleiðingum að opna matsölustað á þessum tíma og þykir frekar djarft skref. Er enginn ótti við að þessir systurstaðir verði í of mikilli samkeppni hvor við annan á svona litlum markaði?

„Þetta er mjög góð spurning. Í rauninni vorum við löngu byrjuð á staðnum áður en ástandið skall á, við erum að hugsa þetta til langtíma. Ólíkt SLIPPNUM sem er bara opinn í 4 mánuði á ári er hugmyndin að þessi sé opinn allt árið. ÉTA er mjög lítill staður og krefst því ekki eins mikils starfsfólks og því er það töluvert einfaldari rekstrareining heldur en SLIPPURINN. Styrkur okkar núna er að vera með ÉTA og svo munum við bara opna SLIPPINN þegar aðstæður leyfa. Á síðustu árum hefur mörgum stöðum verið lokað í skyndibitaflokki hér í Eyjum og því held ég að það hafi opnast gat á markaðnum fyrir svona stað. Fólk í dag vill borða alvöru mat og vel gerðan skyndibita úr góðu hráefni án aukaefna. Það er akkúrat það sem við ætlum okkur að gera!

„Fólk í dag vill borða alvöru mat og vel gerðan skyndibita úr góðu hráefni án aukaefna.“

Við hjá ritstjórn Gestgjafans hlökkum til að gera okkur ferð út í Eyjar og smakka á kræsingunum sem boðið verður upp á um leið og við hvetjum alla sælkera landsins til að láta þennan stað ekki fram hjá sér fara.

Myndir/Aldís Pálsdóttir

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -