Hinrik Lárusson tók silfrið í Norðurlandakeppni kokka og þjóna

Deila

- Auglýsing -

Glæsilegur árangur hjá þessum unga og efnilega dreng í keppninni Nordic Chef & Nordic Waiter 2018.

Alls kepptu þrír fyrir Íslands hönd þeir Hafsteinn Ólafsson en hann starfar á
Sumac Grill + Drinks og var kokkur ársins 2017, hann keppti í Nordic Chef Of The Year. Hinrik Lárusson sem starfar á Grillinu á Hótel Sögu keppti í Nordic Junior Chef og hreppti silfrið með glæsibrag en þess má geta að Hinrik er reyndur keppnismaður og var m.a. aðstoðarkokkur Viktors Arnar í Bocuse d´Or keppninni 2017 þar sem bronsið féll í þeirra hlut. Í flokki þjóna eða Nordic Waiter keppti Lúðvík Kristinsson einnig frá Grillinu en hvorki hann né Hafsteinn komust á pall þrátt fyrir að standa sig gríðarlega vel.

Myndaður fyrir viðtal í Gestgjafanum á síðasta ári.

Hinrik í heimsókn á Gestgjafanum.

Hinrik Lárusson

Keppnin er haldin árlega og fór að þessu sinni fram í Herning í Danmörku samhliða matvælasýningunni Foodexpo en skipulagningin var í höndum Norðurlandasamtaka matreiðslumeistara. Í keppninni Nordic Junior Chefs varð Svíðjóð í fyrsta sæti, Ísland í öðru og Finnland í því þriðja.

Keppnin í matreiðslu var með óvæntu hráefni „mystery basket“ þar sem keppendur fengu að sjá skylduhráefnið daginn fyrir keppnina og skiluðu síðan af sér þriggja rétta matseðli fyrir tólf gesti á keppnisdegi. Framreiðslumaðurinn vann með matreiðslumönnum við þjónustu á keppnismatnum og þurfti einnig að sýna fagleg vinnubrögð í sínum aðgerðum, para vín við réttina og útbúa kokteila. Keppnin hófst kl 8:00 í morgun á dönskum tíma.

Þjálfari Hinriks Lárussonar var Sigurður Laufdal en það var Þráinn Freyr Vigfússon sem þjálfaði Hafstein Ólafsson en Þráinn var einnig dómari í matreiðsluhluta keppninnar. Það var svo Thelma Björk Hlynsdóttir sem þjálfaði Lúðvík fyrir framreiðslukeppnina en hún dæmdi jafnframt í keppninni.

Klúbbur matreiðslumeistara sendi þessa þrjá keppendur til leiks en klúbburinn styður við afreksstarf í matreiðslu og framreiðslu og skipuleggur og veitir stuðning við keppnir ungra matreiðslumanna í Kokkalandsliðinu ásamt því að hafa veg og vanda af keppninni um Kokk ársins og taka þátt í alþjóðlegum keppnum eins og hér um ræðir.

Verðlaunaafhendingin í dag. Hinrik er lengst til vinstri.

Myndir/Hákon Davíð Björnsson

 

- Advertisement -

Athugasemdir