Hollt og nærandi vetrarsalat

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Flestum finnst salöt tilheyra sumrinu en í raun er hægt að útbúa þau á ótal marga vegu og gera þannig vetrarlegri.

Á veturna er hægt að hafa meira prótein í salötum, eins og ost, egg, fisk eða kjöt, og svo passar líka vel að hafa rótargrænmeti sem einmitt að finna í uppskriftinni minni hér. Mér finnst líka gaman við svona salöt að hægt er að skipta út ýmsum hráefnum og leika sér endalaust með sósur og krydd og því hvet ég alla til að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn og prófa eitthvað nýtt.

Rauðrófusalat með fetaosti og fíkjuediksósu
fyrir 4
2 msk. smjör
1 lítill laukur, smátt skorinn
2 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir
1 lárviðarlauf
2 greinar timían
250 g linsubaunir, t.d. Puy-linsubaunir
7 ½ dl vatn
sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Bræðið smjörið á pönnu, steikið lauk og hvítlauk við meðalhita og bætið lárviðarlaufi og timíani saman við. Setjið linsubaunirnar út í og steikið í nokkrar mín. Hrærið í á meðan, passið að laukurinn brenni ekki. Hellið vatninu saman við og látið suðuna koma upp, lækkið hitann og látið malla í u.þ.b. 20-25 mín. Sigtið vatnið frá baununum og takið lárviðarlaufið og timían-greinarnar frá. Bragðbætið með pipar og salti, setjið til hliðar.

4 egg
3-4 soðnar rauðrófur, (fást tilbúnar soðnar)
20-25 vínber, skorin til helminga
½ poki klettakál
1 dl steinselja, gróft söxuð
½ kubbur fetaostur, eða meira ef vill
50 g pekanhnetur, þurrristaðar og gróft saxaðar
2 msk. fíkjuedik, eða hvítvínsedik
1 tsk. dijon-sinnep
6 msk. olía
salt og nýmalaður svartur pipar
1 msk. rifin piparrót, má sleppa

Sjóðið eggin eftir smekk, bæði er gott að hafa þau linsoðin eða harðsoðin. Skerið rauðrófurnar í skífur og raðið á stórt fat eða setjið í skál ásamt kældum linsubaunum, vínberjum, klettakáli og steinselju. Sáldrið fetaostinum grófmuldum yfir ásamt pekanhnetunum. Blandið vel saman í litla skál með fíkjuedikinu og sinnepinu, bætið síðan olíunni saman við og kryddið með nýmöluðum svörtum pipar og salti, sáldrið piparrótinni yfir, sé hún notuð. Setjið á salatið og látið eggin efst. Salatið er bæði gott sem létt máltíð eða sem meðlæti með kjöti eða fiski en þá er kannski ráð að sleppa eggjunum.

 

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -