Hvað eiga sítrónur sameiginlegt með krossförunum? Nokkrar áhugaverðar staðreyndir um sítrónur

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Sítrónur eru í miklu uppáhaldi hjá okkur hér á Gestgjafanum, svo miklu að við grínumst oft með það þegar við þurfum að bragðbæta einhverja rétti að það þurfi bara svolitla sítrónu og þá er málinu reddað. En að öllu gamni slepptu þá eru sítrónur alveg hreint frábærar í matargerð, kökugerð og eftirréttagerð og svo eru þær notaðar í ýmis húsráð. Hér eru nokkrar áhugaverðar og skemmtilegar staðreyndir um sítrónur.

 

Munaðarvara sem breiddist út með krossförunum

Talið er að sítrónur eigi rætur sínar að rekja til Kasmír, þaðan bárust þær svo til Kína, Indlands, Persíu og svo loks til Spánar og Miðjarðarhafsins í kringum 1000. Þær eru taldar hafa breiðst út um álfuna með krossförunum. Sítrónur voru lengi vel munaðarvara og til marks um það voru þær hafðar í krýningarathöfn Önnu Boleyn sem var ein af konum Hinriks 8.

- Auglýsing -

Sjá einnig: Sumarleg sítrónukaka – einföld og skuggalega góð

Súrar og C-vítamínríkar

Sítrónur eru afar auðugar af C-vítamíni enda voru þær notaðar gegn skyrbjúgi og voru iðulega hafðar með um borð í skipum á löngum sjóferðum. Þær eru ríkar af kalín og fólínsýru og eru notaðar í ýmsum húsráðum enda vinnur sýran í þeim á mörgum efnum og t.d. er gott að setja sítrónusafa á skordýrabit.

- Auglýsing -

Fyrsta uppskeran í Evrópu er yfirleitt í janúar

Sítrónur vaxa á sítrónutrjám sem kallast citrus limon og það útskýrir kannski nafnið en á ensku heitir sítróna lemon og á frönsku citron. Sítrónur eru fyrsti ávöxturinn sem kemur á markað í Evrópu en algengt er að fyrsta uppskeran sé í janúar en þær eru góðar vel fram á haust. Sítrónur vaxa vel í mildu loftslagi en þær eru ræktaðar á Spáni, Ítalíu og í Frakklandi en einnig eru þær ræktaðar víða annars staðar um heiminn.

Geymið sítrónur í ísskáp og látið ekkert fara til spillis

- Auglýsing -

Eftir að sítrónur eru teknar af trénu geymast þær vel í u.þ.b. þrjá mánuði við réttar aðstæður. Best er að velja þær stinnar og þungar með fíngerðum berki sem er aðeins glansandi. Grænir blettir gefa til kynna að sítrónan sé sérlega súr. Forðist sítrónur sem eru með grófum berki, ólögulegar og með mjúkum blettum. Sítróna geymist í u.þ.b. viku við stofuhita en helmingi lengur í ísskáp. Ef sítrónur eru að verða gamlar, kreistið þá safann úr þeim og frystið. Safinn geymist í allt að átta mánuði, þetta á raunar líka við um börkinn. Raspið hann niður án hvíta hlutans og setjið í loftæmda poka og frystið.

Sjá einnig: Sjúklega góð sítrónubleikja á 15 mínútum – máltíðirnar gerast ekki einfaldari og betri!

Henta í alla matargerð bæði fyrir sýruna og einnig sem bragðgjafi

Notagildi sítrónu í matargerð er í raun mjög mikið enda eru þær notaðar í marga rétti og drykki víða um heim. Hægt er að nota þær heilar en einnig er safinn mikið notaður og börkurinn raunar líka. Þær henta vel í ýmsa pottrétti og svo er hægt að gera margar gerðir af kökum en einnig eru þær notaðar í mauk, ís og búðinga. Sítrónur eru auðugar af pektíni og því henta þær sérstaklega vel til sultu- og marmelaðigerðar. Safann er hægt að nota út á ýmsa ávexti til að forðast oxun. Ef nota á börk er best að kaupa lífrænar sítrónur eða í það minnsta að þvo þær vel. Forðist að hafa hvíta hlutann með þegar börkur er notaður því hann er rammur.

Stílisti/Ólöf Jakobína Ernudóttir
Mynd/Rakel Ósk Sigurðardóttir

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -