Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.8 C
Reykjavik

Í höfuðið á blautasta bletti á Íslandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Frumkvöðlastarfsemi heldur áfram sem aldrei fyrr þrátt fyrir ástandið og eigendur Smiðjunnar brugghúss í Vík í Mýrdal hafa þurft að bregðast við ástandinu vegna heimfaraldursins eins og aðrir. Hingað til hafa þau aðeins bruggað bjór sem seldur hefur verið á krana en kynna nú til leiks fjóra nýja dósabjóra. Þau vonast eftir breytingu á lögum til að mega selja þessa nýju afurð út úr húsi hjá sér.

 

„Þeir bjórar sem eru á leiðinni í dósir þessar vikurnar eru Wet Spot, sem er New England IPA, Stuck at home, sem er Milk Stout, Renslip, sem er pilsner og Er of snemmt að fá sér, sem er India Pale Lager. Við vonumst við til að allir þessir bjórar verði fáanlegir í Vínbúðunum í maí og vonandi fáum við einnig að selja þá beint úr brugghúsinu og í gegnum netverslunina okkar,“ segir Þórey Richardt Úlfarsdóttir, rekstraraðili og eigandi Smiðjunnar brugghúss.

Þessi bjór var nefndur eftir blautasta stað á Íslandi. Hönnun dósanna er í höndum Bobby Breiðholt.

„Eins og lögin eru núna megum við bara selja dósabjórinn okkar á eigin stað, eingöngu til að neyta á staðnum. Við megum ekki selja bjórinn út úr húsi, í lokuðum eða opnum umbúðum, til einstaklinga sem aldur hafa til, til að neyta heima hjá sér, en okkur er auðvitað heimilt að selja okkar vöru til annara veitingahúsa með áfengisleyfi. Ef breyting verður á áfengislögum, með því frumvarpi sem nú liggur fyrir, þá yrði þetta löglegt fyrir okkur og myndi hafa mikil áhrif á rekstur smærri brugghúsa og losa um þau áhrif sem einokun ÁTVR hefur á okkar rekstarumhverfi. Bjórferðamennska hefur færst í aukanna á Íslandi og margir ferðamenn sem til okkar koma vilja gjarnan versla beint við framleiðendur, til að fá vöruna sem ferskasta og svo er ákveðin upplifun að frá smá fræðslu um bjórinn sem þú verslar en allt okkar starfsfólk hefur sérþekkingu á bjórnum.“

Þórey Richardt Úlfarsdóttir, rekstraraðili og eigandi Smiðjunnar brugghúss. Mynd/Eliza Witek

Hvaða breytingar á lögum vilduð þið sjá fara í gegn: „Að leyfilegt verði að selja beint frá framleiðanda til einstaklinga sem aldur hafa til. Eins er til umræðu að fá að selja úr netverslun, en eins og staðan er núna er löglegt að fá sendan bjór heim að dyrum frá erlendum netverslunum, en ekki íslenskum, sem er auðvitað alveg út í hött. Einnig mætti veita smærri brugghúsum afslátt af áfengisgjöldum sem myndi gera þau samkeppnishæfari gagnvart stærri brugghúsum. Til dæmis þá eru áfengisgjöldin á bjórnum okkar Wet spot rúmlega 200 kr. á hverja dós. Þetta er að okkar mati löngu tímabær breyting og þá sérstaklega núna í þessu ástandi sem er í samfélaginu öllu.“

Hver nafnbót á sína sögu

Þau voru aðeins í vandræðum með hvað pilsnerinn ætti að heita þegar Vigfúsi Þór datt í hug að nefna hann pilsner aftur á bak, Renslip. Hönnun eftir Bobby Breiðholt.

Bjórarnir Wet spot og Stuck at home eru tilbúnir og hinir tveir munu fara á dósir í vikunni. Þórey segir að hver bjór eigi sýna sögu, ekki síst nafnbótin.

- Auglýsing -

„Við erum með bjórnafnanefnd þar sem við köstum hugmyndum á milli og reynum að koma upp með eitthvað sniðugt, helst eitthvað tvírætt og hnyttið. Nafnið á Wet spot er tilkomið vegna þess að Vík er blautasti bletturinn á Íslandi. Renslip-pilsnerinn okkar fékk sitt nafn þegar lokafrestur var runninn út og Vigfús Þór sló því fram í kæruleysi að hafa nafnið bara pilsner aftur á bak.“

Smiðjan brugghús opnaði 11. apríl 2018 og frá upphafi hafa verið framleiddar 20 tegundir á krana og má þar nefna Mango passionfruit skyr sour, nokkrar tegundir af IPA og New England IPA, porter, Belgian blond og pilsner. Þórey segir að kosturinn við að reka samhliða eigin veitingastað geri þeim auðvelt fyrir að prófa sig áfram.

„Þetta ástand mun líða undir lok og við eigum eftir að taka hellings lærdóm frá þessu sem mun nýtast okkur persónulega og í rekstri..“

„Við rekum veitingastað með áherslu á sælkerahamborgara. Í samkomubanninu höfum þurft að grípa til sóttvarnaraðgerða hjá okkur eins og auka þrif, fækka borðum, passa vel upp á fjöldatakmarkanir og 2 metra regluna. Við byrjuðum líka með heimsendingar á mat og gerðum grillpakka fyrir páskana svona „do it your self“. Við settum upp netverslun með varningi og munum vonandi geta bætt bjórnum þar við. Þetta hefur gengið ótrúlega vel og við höfum leitað allra leiða til að leysa þau vandamál sem fylgja samkomubanninu. Starfsfólkið hjá okkur hefur sýnt þessu ástandi ótrúlegan skilning og hafa staðið sig virkilega vel. En þetta hefur vissulega komið niður á rekstrinum. Í apríl vorum við með 18% af sölu sama mánaðar í fyrra, ég held að það segi felst það sem segja þarf. Við höfum þurft að endurskoða allan okkar rekstur og hagræða. En við fórum í þessa stóru fjárfestingu rétt fyrir Covid-19-faraldurinn, að kaupa dósalínu. Við bindum miklar vonir að hún vegi upp á móti þessu falli sem hefur orðið á ferðamannastraumnum hérna í Vík.“

- Auglýsing -

Hvetja fólk til að kaupa íslenskan handverksbjór

Stuck at home á að sjálfsögðu nafn sitt að rekja til samkomubannsins búðið var að setja á þegar þessi dósabjór varð til. Hönnun eftir Bobby Breiðholt.

Þórey segir að þau fari inn í sumarið í töluverðri óvissu en ætla að leggja áherslu á að setja bjóra á dósir og halda áfram að leggja metnað í það sem þau gera.

„Sumarið hefur verið tími bjórhátíða en núna er búið að aflýsa öllum nema einni, svo mögulega er búið að opnast fyrir einhvern frítíma sem við ætlum þá að nýta með fjölskyldu og vinum. Þetta ástand mun líða undir lok og við eigum eftir að taka hellings lærdóm frá þessu sem mun nýtast okkur persónulega og í rekstri. Fyrir reksturinn er þetta auðvitað mikið högg sem á eftir að taka tíma að jafna sig. Við stefnum á að stækka bæði brugghús og veitingastaðinn hjá okkur, en þau plön verða sett á ís eitthvað áfram. Við hvetjum svo auðvitað Íslendinga til að ferðast innanlands í sumar og neyta íslensks handverksbjórs í stað erlendrar vöru. Ísland á mörg frábær handverksbrugghús.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -