Margir bíða ár hvert með eftirvæntingu eftir jólablaði Gestgjafans sem er að þessu sinni með þeim flottari sem sést hafa. Forsíðan er í einstaklega jólalegum grænum tónum með upphleyptu lökkuðu brúnu lógói. Blaðið er töluvert stærra en vanalega eða 164 síður sem eru stútfullar af gómsætum réttum, ráðum og viðtölum ásamt fjölbreyttum fróðleik og hugmyndum fyrir sælkera en einstaklega fallegar myndir prýða blaðið.
Margir matarþættir eru í blaðinu og ber þar helst að nefna hægeldaðar jólasteikur, fíngerða forrétti þar sem fiskur er í aðalhlutverki og sniðugar heimagerðar matarjólagjafir. Meðlætiskaflinn er bæði stór á einkar áhugaverður en þar kennir ýmissa grasa af æðislegu meðlæti sem passar með fjölbreyttum mat og sumt meðlætið hentar vel fyrir grænmetisætur. Að auki eru safaríkir réttir úr fuglakjöti með gómæstu meðlæti og lekkerir eftirréttir sem hægt er að gera fram í tímann. Einn öndvegis þátturinn í blaðinu er ekta danskt jólahlaðborð með smurbrauði, purusteik, pylsum, rauðrófum og rauðsprettu svo fátt eitt sé nefnt, þessi danska sælkeraveisla hjálpar fólki að komast til Danmerkur í huganum.
Læknarnir Aron Hjalti, Þorbjörg Ólafsdóttir, Gerður Gröndal, Hrafnhildur Linnet og Freyr Rúnarsson gefa lesendum uppskriftirnar að jólamatnum sínum ásamt því að segja frá skemmtilegum jólahefðum. Nokkrar konur með tengsl við Frakkland gefa uppskriftir að hefðbundnu og spennandi frönsku jólasætmeti og matreiðslumaðurinn Rúnar Pierre situr fyrir svörum og gefur áhugaverðar uppskriftir. Eygló í Vallarnesi fræðir lesendur um sögu kartöflunnar fyrir Austan og skemmtilegt innlit á veitingastaðinn Von mathús. Þetta og margt, margt fleira, són er sögu ríkari.
Jólablað Gestgjafans verður borið til áskrifenda laugardaginn 28. nóvember vegna óviðráðanlegra aðstæðna en það er komið í verslanir.