2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Kaffi- og bananabrauð með brúnuðu smjöri

Stundum eru einföldustu brauðin eða kökurnar sem eru hrærðar saman í einni eða tveimur skálum og bakaðar í einföldu formi sem höfða mest til okkar og passa einstaklega vel með kaffi- eða tebolla.

 

Hefðin að bera eitthvað sætt fram með kaffinu er löng og mörg okkar eiga góðar minningar af afslöppuðum eftirmiðdögum þar sem gestgjafinn bar fram einfalt brauð eða köku bakaða í brauðformi ásamt kaffi. Uppskriftin hér er einföld í útfærslu og verður vonandi borin fram á rólegum sunnudegi yfir spjalli og góðu kaffi.

Kaffi- og bananabrauð með brúnuðu smjöri
u.þ.b. 12 sneiðar

170 g smjör
250 g hveiti
150 g ljós púðursykur
1 tsk. matarsódi
½ tsk. salt
1 tsk. kanill
2 tsk. instant-kaffiduft
2 egg
1 tsk. vanilludropar
½ dl ab-mjólk
3 vel þroskaðir bananar, stappaðir

Hitið ofn í 180°C. Smyrjið u.þ.b. 24 cm brauðform og setjið til hliðar. Setjið smjörið í pott eða á pönnu yfir meðalháum hita, bíðið þar til smjörið bráðnar og froða fer að myndast í pottinum.

AUGLÝSING


Takið af hitanum þegar smjörið gefur frá sér hnetukenndan ilm og hefur brúnast. Setjið til hliðar og látið kólna. Hrærið saman hveiti, sykur, matarsóda, salt, kanil og instant-kaffiduft. Takið fram aðra skál og hrærið saman egg, vanilludropa og ab-mjólk.

Blandið stöppuðu banönunum saman við ásamt kælda brúnaða smjörinu. Hrærið saman blaut- og þurrefni með sleikju og hellið deiginu í formið.

Bakið í miðjum ofni í 50-60 mín. eða þar til kökuprjónn kemur hreinn út.

Lestu meira

Annað áhugavert efni