Kaupmannahöfn – ekki bara Strikið

Deila

- Auglýsing -

Kaupmannahöfn er skipulögð eftir svokölluðu fingraplani, eða Fingerplanen, frá árinu 1947 og það sést vel á korti að borgin liggur í einar fimm áttir frá hinni gömlu miðborg. Helstu hverfin skiptast gróflega í Gamla bæinn, Vesturbrú, Norðurbrú, Austurbrú, Kristjánshöfn, Friðriksberg og Valby. Öll þessi hverfi eru ólík og sjarmerandi á sinn hátt.

Kaupmannahöfn er alþjóðleg borg þar sem margir innflytjendur frá ólíkum heimshornum hafa sett svip sinn á menningu borgarinnar og er matarflóran eftir því. Mikil uppbygging hefur verið í veitingabransanum í Kaupmannahöfn undanfarin ár og hafa danskir matreiðslumenn verið framarlega í að kynna sjálfbæra framleiðslu og elda með hráefnum úr nærumhverfinu.

Hverfi

Gamli bærinn

Gamli bærinn er sá hluti Kaupmannahafnar sem var fyrir innan gömlu borgarveggina. Borgin, eins og við þekkjum hana í dag, hefur vaxið út frá gamla bænum og er talað um þann hluta sem miðborg Kaupmannahafnar. Í hverfinu er meðal annars að finna hina frægu götu Strikið sem mörgum finnst nauðsynlegt að rölta um í hvert sinn sem borgin er heimsótt.

En hverfið býður upp á margt annað en verslunargötur því þar er að finna margar stórglæsilegar byggingar, eins og Ráðhúsið sem stendur á Ráðhústorgi, Rosenborg-höllina þar sem meðal annars er hægt að sjá konungsdjásnin, og Amalíuborgarhöll þar sem konungsfjölskyldan hefur búsetu. Gaman er að rölta um Íslendingaslóðir í Gamla bænum og skoða stræti og torg þar sem margir landar okkar hafa dvalið. Fyrir þá sem hafa áhuga á þessari sögu bendi ég á bækurnar Gamla góða Kaupmannahöfn og Kaupmannahöfn – ekki bara Strikið eftir Guðlaug Arason en hann er fróður um sögu Íslendinga í gömlu höfuðborginni.

Vesturbrú

Hverfið sem eitt sinn var þekkt sem „rauða hverfið“ í Köben er nú á lista yfir 10 mest töff hverfi í heiminum enda hefur mikil uppbygging átt sér stað þar undanfarin ár. Þar er að finna margt annað en Tívolígarðinn fræga, eins og flott gallerí, notaleg kaffihús og spennandi veitingastaði. Gaman er að ganga um Sønder Boulevard, sem er stór gata sem liggur í gegnum hverfið og skiptist í tvennt með stórri eyju í miðjunni.

Þarna er algengt að íbúar hittist á góðum dögum til að skála í öli og sleikja sólina. Meat packing district (Kodbyen) á Vesturbrú er svæði þar sem áður var aðeins að finna sláturhús og mestöll kjötvinnsla fyrir Kaupmannahafnarbúa var þar. Í dag er svæðið hins vegar að fyllast af spennandi veitingahúsum sem vert er að skoða.

Norðurbrú

Hverfið er bæði fjölbreytt og alþjóðlegt. Ekki er óalgengt að sjá dýra veitingastaði og fatabúðir inn á milli ódýrra kebab-staða og alþjóðlegra matarmarkaða. Sankt Hans Torv er talin vera miðja Nørrebro-hverfisins þar sem hægt er að finna mörg kaffihús, búðir og veitingastaði, þar með talið eina taílenska veitingastaðinn sem hlotið hefur Michelin-stjörnu, Kiin Kiin.

Jærgersborggade er ein af mínum uppáhaldsgötum í hverfinu og vert er að ganga hana upp og niður, skoða mannlífið og njóta þess sem gatan hefur upp á að bjóða.

Austurbrú

Fjölskylduvænt og eftirsóknarvert hverfi í norðurhluta borgarinnar. Þar er að finna flottar búðir með merkjavörum og er hverfið talið vera í fínni kantinum en þar má einnig sjá grænustu svæði borgarinnar, meðal annars stærsta almenningsgarð Kaupmannahafnar, Fælledparken.

Ásamt því að geta státað sig af fallegum görðum er hverfið nálægt vatni þar sem hægt er að sjá hina frægu styttu Litlu hafmeyjuna og spóka sig um á Svanemøllen-ströndinni sem er skammt frá. Vötnin á milli Norðurbrúar og Austurbrúar eru leifar síkisins sem var fyrir utan borgarveggina, þau eru falleg og þar er mannlífið fjölskrúðugt. Það er dásamlegt að byrja daginn á léttu skokki í kringum vötnin (u.þ.b. 6 km) enda er það vinsæl hreyfing hjá mörgum íbúum borgarinnar.

Kristjánshöfn og Nýhöfn

Kristján fjórði Danakonungur (1577-1648) skipulagði núverandi Kristjánshöfn (Cristianshavn) sem átti að verða framtíðarhöfuðborg Danaveldis, hann var einnig mikill herforingi og byggði upp einn stærsta sjóher sem þá var til í Evrópu en Kristjánshöfn átti að auki að verða miðstöð sjóhersins.

Hvort sem það er til að fara í óperuna eða ganga með fram síkjunum og skoða hin litríku hús sem einkenna Nýhöfn (Nyhavn) þá er Kristjánshöfn dásamlegt og fjölbreytt hverfi þar sem gamlir hippar, listamenn og auðkýfingar búa hlið við hlið. Þar er að finna kirkjuna Vor Frelsers Kirke þar sem hægt er að rölta upp í turninn og njóta stórkostlega útsýnisins yfir borgina. Enginn ætti að láta ógert að heimsækja hið skemmtilega og umdeilda hverfi Kristjaníu en hafa þó reglurnar við innganginn í huga og fara eftir þeim. Elsta húsið í Nýhöfn er nr. 9 og er frá því í kringum 1681 og hefur því ekki verið breytt heldur viðhaldið í sama stíl og gaman að skoða það.

Friðriksberg

Friðriksberg (Fredriksberg) er sjálfstætt starfandi sveitarfélag innan Kaupmannahafnar með sinn eigin borgarstjóra og borgarstjórn sem rekin er af 25 meðlimum úr átta stjórnmálaflokkum. Íbúafjöldinn árið 2016 var 104,481 og nær hverfið yfir um 9 ferkílómetra. Talað er um Friðriksberg sem örlítið fínna hverfi þar sem fasteignaverð er hátt og þjónusta við íbúa talin vera mjög góð.

Þar er að finna Fredriksberg-höllina sem stendur efst á hæð innan Fredriksberg-garðsins sem er vinsæll almenningsgarður. Dýragarður Kaupmannahafnar er í norðurhluta garðsins og hægt er að ganga í gegnum hann til að fara í dýragarðinn og því tilvalið að setjast niður með gott nesti á leið sinni þangað.

- Advertisement -

Athugasemdir