Kaupmannahöfn – Nokkrir áhugaverðir hlutir að gera og skoða

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Hér eru nokkrir skemmtilegir staðir og hlutir að gera í Kaupmannahöfn.

Óhætt er að segja að Kaupmannahöfn sé einn vinsælasti áfangastaður Íslendinga og kannski ekki að furða þegar saga þessarra tveggja þjóða er skoðuð.

Sennilega fara flestir á ráðhústorgið og á Strikið á meðan aðrir sitja og njóta borgarinnar í mat og drykk. Hér eru nokkrir skemmtilegir staðir og hlutir að gera í borginni. Við á Gestgjafanum vorum sammála um að ekki væri hægt að skrifa um Kaupmannahöfn nema nefna Tívolígarðinn þrátt fyrir að sennilega hafi flestir Íslendingar komið þangað, hann er nefnilega sígildur og þangað er hægt að koma aftur og aftur á mismunandi árstíma.

Bakkinn (Dyrhavsbakken).

Bakkinn (Dyrhavsbakken)

Stórskemmtilegur garður við Klampenborg í norðurhluta borgarinnar en hann er talinn vera elsti skemmtigarður heims, stofnaður árið 1583. Garðurinn er yndislegur til göngu á góðum degi og gott að grípa með sér nesti og njóta undir berum himni. Frábær garður fyrir börn enda nóg að skoða og gera og um að gera að skella sér í 80 ára gamlan viðarrússíbana fyrir þá sem þora. Frítt er inn í garðinn og hægt að kaupa armbönd til að komast í tækin. Opnunartími fer eftir árstíðum og gott er að skoða heimasíðu garðsins áður en ferðin er skipulögð.
Vefsíða: bakken.dk.

Bryggjubaðið (Havnebadet)

Ekki þarf að leita langt til að finna sólarströnd í Kaupmannahöfn enda byggði borgin gerviströnd við Íslandsbryggju og er hún geysivinsæl á góðum sólardögum. Þar er enginn sandur en sólbekkir, barir og kaffihús eru víða og hægt er að baða sig í höfninni, enda hrein og fín.

Tívolígarðurinn.

Tívolígarðurinn

Varla er hægt að minnast á Kaupmannahöfn án þess að tala um Tívolíið og þarf varla að kynna þennan garð fyrir Íslendingum enda er hann fastur liður hjá mörgum þegar þeir heimsækja borgina. En fyrir þá sem hafa ekki farið, mælum við svo sannarlega með því enda fallegur garður sem skartar til að mynda elsta Parísarhjóli heims sem er enn í notkun. Frábær garður fyrir börn á öllum aldri en einnig notalegur til gönguferða í rómantískri helgarferð. Tívolígarðurinn er nánast í miðju miðborgarinnar við Vesterbrogade og fer ekki fram hjá neinum. Opið daglega frá 11-22 og til 23 á föstudögum og laugardögum. Garðurinn er lokaður frá október og fram í apríl ef frá er talinn mánuðurinn fyrir jól og dagarnir 12. október – 4. nóvember og 1. – 24. febrúar. Dásamlegt er að heimsækja garðinn í kringum jólin eða hrekkjavökuna þar sem allt er skreytt með miklum metnaði.

Assistens-kirkjugarðurinn

Assistens-kirkjugarðurinn á Norðurbrú er einstaklega fallegur garður þar sem mörg dönsk mikilmenni eru grafin, eins og rithöfundurinn Hans Christian Andersen og heimspekingurinn Søren Kierkegaard. Garðurinn er vinsæll meðal íbúa og ferðamanna þar sem hann hefur að geyma mörg græn svæði sem eru nýtt á góðum dögum í lautarferðir og afslöppun.

Amalíuborg – höll drottningar

Nauðsynlegt er fyrir alla með einhvern áhuga á konungsríkinu að sjá þessa frægu höll sem danska konungsfjölskyldan kallar heimili sitt í dag. Amalíuborg er einnig fræg fyrir konunglegu lífverðina, Den Kongelige Livgarde. Á hverjum degi er hægt að fylgjast með vaktaskiptum hjá þeim þar sem þeir marsera frá stöð sinni við Gothersgade að Rósenborgarhöll, í gegnum götur Kaupmannahafnar þar sem þeir enda við Amalíuborg. Þessi athöfn á sér stað á hverjum degi klukkan 12 á hádegi.

Rundertarn eða Sívaliturninn

Sívaliturninn
Rundertarn eða Sívaliturninn eins og hann heitir á íslensku er áhugaverður að heimsækja en hann er í raun kirkjuturn. Turninn sem er 15 metrar í þvermál með yfir 200 m löngum tröppulausum gangi var byggður af Kristjáni IV árið 1642. Sérlega skemmtilegt og svolítið erfitt er að ganga upp turninn en þar hafa margir Íslendingar gengið og mætti nefna Jón Sigurðsson en á kirkjuloftinu var áður Háskólabókasafn og Árnasafn var þar til húsa til ársins 1861 en til að komast þangað þurfti að ganga upp Sívalaturninn. Ýmislegt skemmtilegt hefur gerst í gegnum tíðina í turninum og til dæmis reið Pétur Rússlands-keisari upp turninn árið 1716 því hann vildi fá að njóta útsýnisins með konu sinni Kartínu sem fylgdi á eftir í hestvagni en einnig hefur bíl verið ekið upp turninn og hjólreiðamenn hafa einnig brunað þarna upp. Sérstakur útsýnispallur er efst í turninum og þaðan er útsýnið yfir borgina sérlega gott en þar er einnig lítið og skemmtilegt safn um sænska stjörnufræðinginn Tycho Brahe.

Markaðurinn.

Antíkmarkaður – Loppemarked i Bella

Þessi markaður er haldinn einu sinni í mánuði og dagsetningarnar eru auglýstar inn á vefsíðunni, loppemarkediforum.dk. Allir áhugamenn um gamla hluti svo sem leirtau, dúka, búsáhöld, lampa, töskur, dót og húsgöng ættu að gera sér ferð á þennan markað sem er einn sá stærsti sinnar tegundar á Norðurlöndunum. Sjón er sögu ríkari. Markaðurinn er á Center Boulevard 5, 2300 København S en þangað er um 20 mínútna akstur frá miðbænum.

Í kökublaði Gestgjafans er að finna ýtarlega grein um Kaupmannahöfn með sérstakri áherslu á áhugaverða matsölustaði.

Hagnýtar upplýsingar

Frá Kastup-flugvelli er einfaldast og ódýrast að taka jarðlest frá brautarstöðinni undir stöðvarhúsi 3 inn í borgina. Vagnar fara til og frá á tíu mínútna fresti á daginn en á 20 mínútna fresti á kvöldin. Ferðin inn í borgina tekur rösklega tólf mínútur að Nørreport-lestarstöðinni í miðbænum en flestir vagnar halda áfram ferð sinni alla leið til Vanløse.

Gott er að kynna sér svokallað Copenhagen card en það gæti verið hagstætt þar sem mikið er innifalið í því svo sem aðgangur að söfnum og Tívolíinu og ýmsar samgöngur.

Umsjón / Folda Guðlaugsdóttir og Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir / Úr safni

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira